Skírnir - 01.04.1995, Page 215
SKÍRNIR
FORNFRÆÐIN OG NÚTÍMINN
209
einkennist í raun af gagnrýni á eigin hefð, nýjum aðferðum og
viðfangsefnum. En vitaskuld hefur tvíþætt hlutverk hennar ekki
breyst: að leggja rækt við klassíska fornmenningu og gera fólki
kleift að skilja menningu miðalda og nýaldar, enda skilst vestræn
menning ekki nema í ljósi klassískrar.
Fornfræðin hefur tekið þessum stakkaskiptum og svarað
gagnrýni nítjándu aldar. En „gagnsleysi“ í þröngum skilningi átti
hún sameiginlegt með flestum öðrum húmanískum greinum, og
er slíkt „gagnsleysi“ enn við lýði. Þjóðernishyggja nítjándu aldar
virðist hins vegar hafa metið klassískan menningarheim vegna
skyldleika og bræðralags Herodótosar og Snorra en stundum
gagnrýnt og talið eiga lítið erindi hingað, enda rótarslitið á norð-
urhjara. Hún hefur viljað efla norræn fræði á nokkurn kostnað
klassískra, sem skiljanlegt er. Þessi gagnrýni er tæplega við hæfi
um þessar mundir, þó að goðsögnin um skyldleika menningar-
heimanna tveggja heyrist enn.8
Hvað um íhaldssemi fornfræði og fyrningu klassískrar menn-
ingar? Það gefur augaleið að inntak fræðanna hefur breyst með
breyttu þjóðfélagi. Breytingin eða öllu heldur efling fræðanna
hefur verið rakin; hún kom ekki síst til vegna gagnrýni á eigin
hefð. Jafnframt er sýnt að viðfangsefnið er ekki aðeins brúklegt
til réttlætingar íhaldssemi, enda hefur menning fornaldar fóstrað
jafn róttækan gagnrýnanda sem sjálfan fornfræðinginn Nietzsche.
Reyndar er óhætt að fullyrða að næstum hver einasti áhrifavaldur
í vestrænni menningu hafi túlkað og notað klassíska menningu
með einhverjum hætti. Þetta á jafnt við um hugsuði okkar aldar
sem fyrri tíma, jafnt við Heidegger og Foucault sem Descartes og
Locke, Joyce og Cocteau sem Shakespeare og Moliére, Sartre og
Camus sem Hegel og Mill, Eliot og Pound sem Goethe og Schill-
er. Svo mætti telja ad nauseam. Menning fornaldar elur hvort
heldur af sér róttækni eða íhaldssemi. Enn fremur þarf engan að
undra þó sjálf menning fornaldar hafi fleira til brunns að bera en
íhaldssemi. Ekki þarf að skyggnast langt til að sannfærast um þá
8 Samband þjóðernishyggju og fornfræði er heillandi viðfangsefni en lítt kann-
að; sjá fyrrnefnda grein Gottskálks Þórs Jenssonar sem og: Friðrik Þórðarson,
„Grísk orð og íslensk", Skírnir (vor 1994) 161-80.