Skírnir - 01.04.1995, Page 218
212
JÓN KARL HELGASON
SKÍRNIR
Svo virðist sem samhengið á milli táknmyndar og táknmiðs
ráði hvort hagstæðara er að slá táknið í málm eða prenta það á
pappír. Seðlabankanum þykir tímabært að staðfesta minnkandi
gildi hundrað krónanna með útgáfu myntar, viðskiptaráðherra
heldur fast í seðilinn. Hann gerir sér ljóst að eitt hundrað króna
seðill og eitt hundrað króna mynt eru tvö ólík tákn, þótt svo eigi
að heita að táknmyndir þeirra hafi sama táknmið.
II
Ymsir fræðimenn sem fjallað hafa um táknkerfi tungumálsins á
síðustu áratugum benda á hvernig orðin vísa fullt eins hvert á
annað og til áþreifanlegs veruleika. Hver kannast ekki við að hafa
slegið upp óræðu orði í orðabók, fundið annað jafn illskiljanlegt
orð og þannig koll af kolli, þar til vísað var aftur á orðið sem var
tilefni leitarinnar? Gagnvart slíkri reynslu mætti ætla að traust
manna á tungumálinu sem merkingarkerfi bilaði og þögnin
breiddist út. Sú er þó ekki raunin. Enda þótt orðunum bregðist
bogalistin andspænis einstökum táknmiðum, trúum við eftir sem
áður að tjáning okkar feli í sér einhverja varanlega, æðri merk-
ingu. I þessu sambandi hefur stundum verið talað um yfirskilvit-
legt táknmið mannlegra tjáskipta (e. transcendental signified),
tryggingu þess að tungumálið haldi gildi sínu.
Ef litið er til táknkerfis peninganna blasir áþekkur veruleiki
við. Samkvæmt almennum skilgreiningum gegna peningar þrí-
þættu hlutverki; þeim er ætlað að vera (a) almennur gjaldmiðill,
(b) verðmælir og (c) verðmætageymir. Þegar þessi þrískipting er
skoðuð nánar rekumst við um í svipuðum túlkunarhring og þegar
við blöðum í orðabókinni. Peningum, sem gjaldmiðli, má skipta
fyrir einhver önnur verðmæti (svo sem rjúkandi heitan tebolla á
kaffihúsi), en að baki þeim verðmætum búa hliðstæð viðskipti
með afurðir (telauf) og vinnu (þess sem lagar te). Á öllum stigum
slíkra viðskipta rekumst við aftur á peninga, ef ekki í hlutverki
gjaldmiðils, þá að minnsta kosti sem mælikvarða á verðgildi vinnu
eða afurðar. Þegar til á að taka er ekki að fullu ljóst hvar þau verð-
mæti, sem unnt er að geyma á formi peninga, er í raun að finna.