Skírnir - 01.04.1995, Page 227
SKÍRNIR
TÁKNRÆNN GULLFÓTUR
221
vísanir á bakhlið þessa seðils kemur að minnsta kosti tvennt til
greina. Við getum annars vegar lagt áherslu á gullna arfleifð krist-
innar kirkju (sem vissulega er einnig vísað til á fimmtíu króna
seðli Guðbrands biskups og á eldri seðlaröð með mynd af Hólum
í Hjaltadal). Hins vegar getum við beint sjónum okkar að hinni
reisulegu byggingu á bakhlið seðilsins, sem er reyndar mun
dæmigerðari fyrir Island á okkar tímum, en þá hefð sem ríkti í
húsagerð hér á landi fyrr á öldum. Ef til vill er verið að vísa til
þeirra fjármuna sem festir hafa verið í húsakosti þjóðarinnar á
síðustu áratugum, ekki síst glæsilegum opinberum byggingum og
musterum.
Þá komum við loks að fimm þúsund króna seðlinum, sem gef-
inn var út árið 1986. Seðillinn markar ný tímamót í íslenskri
seðlaútgáfu því þar kemst fyrsta konan á blað, líkt og til marks
um að kvennabaráttan hafi náð inn fyrir dyr Seðlabankans. Sú út-
valda er Ragnheiður Jónsdóttir (1646-1715), ein þriggja eigin-
kvenna Gísla biskups Þorlákssonar (hinar tvær og biskupinn
standa baksviðs hægra megin við Ragnheiði á framhlið seðilsins).
A bakhliðinni kynnir hún handverk kvenna fyrir þjóðinni, það er
að segja dúkasaum stúlknanna sem hún leiðbeinir, væntanlega í
samræmi við fyrirmæli úr bókinni sem hún heldur á. Á báðum
myndunum er Ragnheiður í hefðbundnum búningi velmegandi
húsmæðra. Auk tilvísana til handavinnuhefðarinnar (myndir og
mynstur á seðlinum byggja á gripum af Þjóðminjasafni), má gera
sér í hugarlund að þarna birtist okkur skýr táknmynd hinnar
hagsýnu húsmóður, hnellin „fjallkona“ með barðastóran hatt og
kraga.
Tvö þúsund króna seðillinn, sem nú er væntanlegur, ber enn á
ný vott um breyttar áherslur í skilgreiningu á táknrænum gullfæti
íslenskrar seðlaútgáfu. Samhengið við fyrri seðla er margþætt.
Þarna er loksins tekið skrefið fram til tuttugustu aldarinnar, sem
maður átti von á í kjölfarið á fimm hundruð krónum Jóns Sig-
urðssonar. Jóhannes S. Kjarval minnir okkur á að ný gullöld
glæsilegrar menningar hafi gengið í garð á tuttugstu öld. Á hinn
bóginn verður vikið af vegi bókmenntaarfsins og haldið til móts
við myndlistina (arfleifð handritalýsinganna); þau íslensku mál-