Skírnir - 01.04.1995, Síða 230
224
KIRSTEN WOLF
SKÍRNIR
fornaldarsögur og riddarasögur. Kafli fjögur, „Trúarbókmenntir í lausu
máli á síðmiðöld“, eftir Sverri Tómasson, er í raun beint framhald af
kafla sex í fyrsta bindi og kafli fimm, „Kveðskapur frá síðmiðöldum“,
sem Vésteinn Ólason skrifar, er framhald af sjöunda kafla í fyrsta bindi,
þó að umfjöllun hans einskorðist ekki við kristileg trúarkvæði, heldur
spanni einnig veraldleg kvæði á borð við rímur og sagnadansa. Öðru
bindi lýkur á kafla sex, „Nýir siðir og nýir lærdómar - bókmenntir
1550-1750“, sem Böðvar Guðmundsson skrifar.
í formála að fyrsta bindi gera þeir Vésteinn Ólason (ritstjóri beggja
bindanna sem hér um ræðir) og Halldór Guðmundsson (ritstjóri þeirra
tveggja binda sem enn eru óútgefin) grein fyrir meginmarkmiðum verks-
ins og þeim lesendahópi sem því er ætlaður:
Höfundar bókmenntasögunnar hafa kostað kapps um að færa sér
sem best í nyt rannsóknir og þekkingu fyrri og síðari tíma á við-
fangsefnum og taka jafnframt tillit til almennra fræðilegra viðhorfa í
bókmenntafræði. Megináhersla er lögð á að lýsa bókmenntunum og
segja sögu þeirra með þeim hætti að skiljanlegt sé og örvandi fyrir
hvern sem áhuga hefur, án tillits til skólagöngu eða fræðilegrar þekk-
ingar. Jafnframt er reynt að gera bækurnar þannig úr garði að þær
geti glatt augað og laðað lesandann að sér. (bls. 5-6)
Flestir, ef ekki allir, geta verið sammála um að þessum markmiðum hafi
verið náð. Höfundunum fimm hefur tekist að skrifa afar skilmerkilega
bókmenntasögu þar sem þess er sérstaklega gætt að hvika hvergi frá
kröfum og þörfum hins almenna lesanda. í stað þess að láta upptalningar
á nöfnum, titlum og ártölum dynja á lesandanum hafa höfundarnir kosið
að leiða hann í gegnum bókmenntasöguna með því að lýsa og skýra
hvernig þeir nálgast stefnur og stök verk. Það gera þeir með textadæm-
um sem eru krufin ítarlega og túlkuð á líflegan og grípandi hátt. Sem
dæmi má nefna að í umfjöllun sinni um Islendinga sögu Sturlu Þórðar-
sonar ver Guðrún Nordal töluverðu rými í greiningu og samanburð á
Flugumýrarbrennu í Sturlungu og Njálsbrennu í Njáls sögu (I, bls. 335-
38) og í kaflanum um veraldlega sagnaritun skýrir Sverrir Tómasson al-
kunna líkingu frá miðöldum, þar sem kristnu samfélagi er líkt við
mannslíkamann og hverjum útlim gefið ákveðið hlutverk, með ítarlegri
tilvitnun í Oratio contra clerum Norvegiae eftir Sverri konung Sigurðs-
son (I, bls. 279-80). I yfirliti yfir íslenska sálma sýnir Böðvar Guð-
mundsson færni Ólafs Guðmundssonar sem þýðanda með því að tilfæra
vers eftir Johannes Mathesius, O, Jesu Christ, wahr Gottes Sohn, ásamt
íslensku þýðingunni (II, bls. 410), og í umfjöllun sinni um stíl riddara-
sagna gerir Torfi H. Tulinius grein fyrir hinum svokallaða „hefðarstíl"
með tilvitnun í Elís sögu og Rósamundu (II, bls. 205). Höfundarnir eiga
lof skilið fyrir svo aðgengilega framsetningu.