Skírnir - 01.04.1995, Blaðsíða 231
SKÍRNIR HIN NÝJA BÓKMENNTASAGA ÍSLENDINGA
225
I hvoru tveggja bindinu er aðferðum samanburðarfræða beitt af
skynsemi og er það ánægjuleg framför í ritun íslenskrar bókmenntasögu
og reyndar í bókmenntasögu almennt. Hræringar af sögulegum, menn-
ingarlegum og bókmenntalegum toga eru ævinlega settar í samhengi við
þróun á öðrum Norðurlöndum, á Bretlandseyjum, eða á meginlandi
Evrópu. Með þessu móti brýtur verkið niður þá múra sem íslendingar
hafa öðrum fremur átt þátt í að reisa kringum íslenskar bókmenntir og
hafa sett fullmikið mark á umræðu um þær. í inngangi Vésteins Ólason-
ar að fyrsta bindi gegnir þannig kynning á heiðnum og kristnum bók-
menntalegum forverum, þar á meðal Hildibrandskviðu, Bjólfskviðu og
lærðum verkum eftir munka, hlutverki formála að umfjöllun um vík-
ingaöldina (I, bls. 25-32). Með sama hætti er fjallað um eddukvæðin
Helreið Brynhildar, Oddrúnargrát, Guðrúnarkviðu I-III og Guðrúnar-
hvöt í tengslum við elegíur (I, bls. 152-57) og fornaldarsögur og riddara-
sögur eru ræddar í ljósi evrópsku fornmenntastefnunnar (II, bls. 167-70).
Eins er lögð áhersla á stöðuga þróun íslenskra bókmennta í aldanna
rás. Það er án efa sökum mismunandi uppbyggingar bókmenntakennslu í
háskólum, erlendis að minnsta kosti, þar sem umræðan um íslenskar
bókmenntir hnitast annaðhvort um miðaldabókmenntir eða nítjándu og
tuttugustu aldar bókmenntir eða hvorar tveggju, sem mönnum hefur
hætt til að missa sjónar á samfellu bókmenntasögunnar: Tímabilið frá
Endurreisninni og fram á nítjándu öld er vanalega talið tími lítilla afreka
á bókmenntasviðinu, og bókmenntir nítjándu og tuttugustu aldar oft
taldar marka nýtt upphaf sem ekki sækir mikið í brunna fortíðarinnar.
Þetta er leiðrétt í öðru bindi með því að gera kaflann um íslenskar bók-
menntir á tímabilinu 1550 til 1750 að brú milli fortíðar og nútíðar. Þegar
tekið er tillit til þess hve mjög hefur skort umfjöllun um þróun bók-
mennta á þessu tímabili verðskuldar kafli Böðvars Guðmundssonar sér-
staka athygli. Þótt þar sé getið manna og málefna sem margir kannast
við, svo sem Odds Gottskálkssonar og þýðingar hans á Nýja testa-
mentinu, Passíusálma Hallgríms Péturssonar og ritsmíða Jóns Guð-
mundssonar lærða, er þar einnig fjallað um lítt þekkta menn og ritverk
og bókmenntagreinar. Auk umfjöllunar höfundarins um dulræn skrif og
predikanir má nefna sérstaklega vandaðan kafla um sálmakveðskap, sem
er í senn ítarlegur og fróðlegur.
Umfjöllun um einstakar bókmenntagreinar og ritverk er yfirleitt í
takt við tímann og tekur mið af nýlegum fræðistörfum Islendinga jafnt
sem útlendinga. Hún dregur þó ekki dám af tískustraumum í bók-
menntafræðum eða af fyrirhyggjulausri fylgispekt við nýjustu kenning-
ar; það má þvert á móti greina vissa varfærni og hófsemi í framsetningu
á nýstárlegum kenningum sem ganga í berhögg við þær hefðbundnari.
Hér mætti til dæmis nefna umfjöllun Torfa H. Tuliniusar um Þiðriks
sögu af Bern: