Skírnir - 01.04.1995, Blaðsíða 232
226
KIRSTEN WOLF
SKÍRNIR
Theodore M. Andersson [setti] nýlega fram rök fyrir því að Þiðreks
saga hafi verið tekin saman í Þýskalandi fyrir 1200 og hafi verið þýdd
í heilu lagi á norrænu minnst hálfri öld síðar. Hár aldur sögunnar á
að skýra hve lítið fer fyrir hugsjónum riddaramennskunnar, en þær
hugsjónir bárust víst ekki til Norður-Þýskalands fyrr en á 13. öld.
Ekki skal tekin afstaða til þessara hugmynda hér, en sá hluti rök-
semdafærslu Andersson sem lýtur að byggingu Þiðreks sögu er mjög
sannfærandi. (II, bls. 213-14)
Sverrir Tómasson hafnar afdráttarlaust fræðilegum getgátum um þau
verk, önnur en Islendingabók, sem fræðimenn hafa eignað Ara Þorgils-
syni:
En fræðimenn hafa verið of djarfir að eigna honum kafla sem felldir
hafa verið inn í safnrit síðari sagnaritara og ekki hafa fundist neinar
heimildir að. Margar röksemdir fræðimanna um þetta efni eru og
ekki annað en mismunandi vel rökstuddar líkur og bæta engu við
höfundarverk Ara. íslendingabók er eina ritið sem með fullri vissu er
sett saman af Ara og varðveitt heilt. (I, bls. 294)
Vésteinn Ólason dregur einnig úr vægi fræðilegra vangaveltna í umfjöll-
un sinni um hinar svonefndu Vínlands sögur: „Augljóst er að sagnir
þessar hafa blandast saman við flökkusagnir um sæluland þar sem vín-
viður óx sjálfsáinn, og er ekki ólíklegt að ferðalangar sjálfir hafi komið
slíkum sögnum á kreik með nafngiftinni, en áreiðanlega er það allt skáld-
skapur sem segir af vínberjum og ölvun í þessum leiðöngrum" (II, bls.
87). Almennt eru höfundarnir þó ekki dómharðir. Þar sem fræðimenn
greinir á láta þeir vanalega hjá líða að fella dóma eða skipa sér í fylkingar.
Nefna má umfjöllun Torfa H. Tuliniusar um vinnulag þýðenda
riddarasagna í því sambandi. Hann beinir athyglinni að því að í seinni tíð
hafi sumir fræðimenn þóst merkja að þýðendur hafi breytt og staðfært á
kerfisbundinn hátt, sem gæti bent til þess að þeir hafi fylgt ákveðnu
mynstri til þess að boðskapur sagnanna kæmist vel til skila og að þetta
mynstur gæti, ef rétt reyndist, komið að notum við að útskýra hvers
vegna þessar sögur voru þýddar. Hann gerir síðan grein fyrir því sem
hann kallar „hið hefðbundna" viðhorf til efnisins:
Hið hefðbundna viðhorf er að þýðingarnar hafi verið í meginatriðum
réttar og að frávikin megi að mestu leyti skýra með því að frumþýð-
ingin hefur ekki varðveist, en einnig með viðleitni þýðandans til að
stytta söguna. Fulltrúi þessa viðhorfs er bandaríski fræðimaðurinn
Marianne E. Kalinke, en til grundvallar hugmyndum hennar liggur
sú skoðun að frumtextarnir, þ.e. frönsku sögurnar, hafi umfram allt
verið skemmtibókmenntir og að þýðingarnar séu það einnig. (II, bls.
216)