Skírnir - 01.04.1995, Page 241
SKÍRNIR
KVENLEG CRYMOGÆA?
235
sem ljón virðir fyrir sér mynd af manni sem er í þann mund að vega ljón.
Dýrið bendir á að ef ljón hefði haldið um pensilinn hefði maðurinn vafa-
lítið verið í hlutverki fórnarlambsins. Ekkjan telur dæmisöguna lýsandi
fyrir samskipti kynjanna:
Who peyntede the leon, tel me who?
By God, if wommen hadde writen stories,
As clerkes han withinne hire oratories,
They wolde han writen of men moore wikkednesse
Than al the mark of Adam may redresse.1
Hver málaði ljónið, segðu mér hver?
Svo hjálpi mér guð, ef konur hefðu skrifað sögur,
líkar þeim sem kennimenn settu saman í klefum sínum,
hefðu þær skrifað um svo mörg fólskuverk karla,
að allt Adamskyn hefði ekki haft við að andæfa.
Persónusköpun ekkjunnar frá Bath er óvenjuleg í evrópskum miðalda-
bókmenntum. Hún er látin færa kvenlega sjálfsvitund sína í orð þrátt
fyrir þær takmarkanir sem þjóðfélagið setur henni. Hún hafnar skil-
greiningum karla á eðli kvenna á þeirri forsendu að þær séu hlutdrægar
og byggðar á fordómum. Að hennar mati hefur konum ávallt verið varn-
að máls og þeim meinað að skýra frá reynslu sinni.
Á síðari árum hafa erlendir fræðimenn fetað í fótspor ekkjunnar frá
Bath og lagt áherslu á að draga þurfi fram ýmsa þætti í sögu kvenna á
miðöldum. Þeir hafa beint sjónum að sambandi kynjanna og hlustað eft-
ir niðurbældri rödd kvenna í samfélagi sem útilokar þær.2 Þetta sjónar-
mið hefur sífellt orðið fyrirferðarmeira í sagnfræðirannsóknum, en ef frá
eru talin skrif Helgu Kress um fornbókmenntir hefur farið lítið fyrir því
í íslenskri bókmenntagreiningu. Nú hefur Helga sent frá sér bók sem
1 Geoffrey Chaucer, The Canterbury Tales: „The Wife of Bath's Prologue",
línur 692-696. The Riverside Chaucer. Ritstjóri Larry D. Benson. Houghton
Mifflin Company: Boston, 1987, s. 114.
2 Á miðöldum voru konur nánast útilokaðar _frá opinberu lífi enda tilheyrðu
þær sjaldan þeirri þjóðfélagsmynd sem dregin var upp af miðaldamönnum.
Marsilíus frá Padúa (1290?-1343?) taldi þannig þjóðfélagsþegna (populus) vera
alla aðra en börn, þræla, útlendinga og konur. (Sjá The Defender of Peace
(Defensor pacis), þýtt af Alan Gewirth. Columbia University Press: New
York, 1956.) Meðal rannsókna sem fjalla um kvennamenningu miðalda eru
bók Susan Mosher Stuard, Women in Medieval History and Historiography.
University of Pennsylvania Press: Philadelphia, 1987 og bók Shulamith Shahar,
The Fourth Estate: A History of Women in the Middle Ages. Methuen:
London, 1983.