Skírnir - 01.04.1995, Page 246
240
GUÐNI ELÍSSON
SKI'RNIR
Einn helsti kenningasmiður afbyggingar er franski heimspekingurinn
Jacques Derrida. Derrida telur hvert það hugmyndakerfi frumspekilegt
sem hvílir á óvefengjanlegri undirstöðu eða frumatriði og að á þessari
undirstöðu sé öll merkingarleg stigskipun reist. Hann heldur því þó ekki
fram að hægt sé að standast freistinguna að skapa slík kerfi því sú hvöt sé
hluti af sögu okkar sem hvorki verður upprætt né hunsuð. Derrida telur
þannig öll sín skrif „óhreinkuð" af þeim frumspekilegu forsendum sem
hann vill helst komast undan. Breski bókmenntafræðingurinn Terry
Eagleton hefur gefið skýra mynd af þeim forsendum sem Derrida og
aðrir afbyggjendur ganga út frá í skrifum sínum. Eagleton bendir á að í
afbyggingu séu merkingarleg frumatriði mótuð út frá þeim „tvenndar-
andstæðum" (binary oppositions) sem strúktúralistar hömpuðu gjarnan í
ritum sínum. Þessi frumatriði eru sjaldnast skýrð með hliðsjón af eigin
sérkennum, heldur útfrá þeim eiginleikum sem þau útiloka, það er að
segja andstæðu sinni í merkingarparinu. Eagleton tekur sem dæmi að-
greiningu karllegra og kvenlegra eiginleika, en margir femínistar byggja
einmitt gagnrýni sína á þeim forsendum sem móta andstæða þætti pars-
ins:
Þannig er maðurinn í karlveldi frumatriðið sem allt er reist á en kon-
an er útilokuð sem andstæða þeirrar skilgreiningar og svo lengi sem
þessari aðgreiningu er viðhaldið gegnir kerfið hlutverki sínu. „Af-
bygging" heitir sú gagnrýna athöfn sem grefur að nokkru undan
andstæðum sem þessum og sýnir með textagreiningu hvernig and-
stæðurnar sjálfar veikja hvor aðra með samspili sínu. [...] Með af-
byggingu hafa menn fært sér í nyt að tvenndarandstæður hefðbund-
ins strúktúralisma eru byggðar á sama grunni og hugmyndakerfi. I
hugmyndakerfum eru venjulega dregin upp glögg skil milli þess sem
þykir viðeigandi og óviðeigandi, milli sjálfsveru og þess sem stendur
utan hennar, sannleika og lygi, skynsemi og óskynsemi, rökhyggju
og brjálæðis, aðalatriða og aukaatriða, yfirborðs og kjarna.8
Afbygging leitast við að grafa undan slíkum andstæðum og sýna hvernig
þeim er beitt til þess að viðhalda ríkjandi túlkun. Með afbyggingu má
hafa endaskipti á hugmyndakerfum eða reyna að draga aftur inn í miðju
textans ýmis smáatriði sem færð hafa verið út í jaðarinn svo þau valdi
ekki usla. Þetta er gert með því að einbeita sér að „sýktu“ svæðum text-
ans, að merkingarlegum blindgötum, en þar leysist textinn upp í mót-
sagnir.
8 Terry Eagleton, Literary Theory: An Introduction. University of Minnesota
Press: Minneapolis, 1983, s. 132-33.