Skírnir - 01.04.1995, Qupperneq 247
SKÍRNIR
KVENLEG CRYMOGÆA?
241
Þær pólitísku og félagslegu forsendur sem nýsöguhyggjan gefur sér
og lýst var áður, eiga því rætur í merkingarlegri afbyggingu. í bók Helgu
er þessari aðferðafræði m.a. beitt í áðurnefndri umfjöllun um þöggun og
uppskafningu, í greiningu hennar á ergi og klæðskiptum þar sem and-
stæðan milli hins karllega og kvenlega verður óljós (68-70, 115-17 og
177-78) og almennt í margbrotinni lýsingu hennar á kynjabaráttunni, á
uppreisn og niðurbælingu kvenna sem hefðbundnar bókmenntasögur
hafa ekki tekið til greiningar.
Greining af þessu tagi speglar oft viðfangsefni sitt jafnt í uppreisn
gegn viðteknu gildismati og í þeim viðtökum sem gagnrýnin hlýtur.
Þannig hefur viðleitni Helgu Kress til að endurskoða afstöðuna til bók-
menntaarfsins oft mætt hörðum mótmælum. Máttugar meyjar hefur að
vísu vakið lítil sem engin viðbrögð frá því hún kom út árið 1993, en í
bókinni afbyggir Helga karllega orðræðu fornbókmenntanna út frá svip-
uðum forsendum og lágu að baki greiningu hennar á skáldsögunni
Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur og „Grasaferð“ Jónasar
Hallgrímssonar.9 Þvt þótt ekki sé að finna sálgreiningu í anda Juliu
Kristevu í Máttugum meyjum gengur Helga jafn langt, ef ekki lengra en
áður, í þá átt að „sundra hinu karlmannlega sjálfi".10
Þeim forsendum sem liggja að baki skrifum Helgu Kress hefur verið
gefinn furðu lítill gaumur og það verður að játast að í íslenskri bók-
menntaumfjöllun hefur femínískri afbyggingu verið sýnt skilningsleysi
sem stundum jaðrar við illkvittni. Helga hefur verið sökuð um „ofríki
gagnvart textanum," „metafýsíska og bíólógíska mengjafræði,"* 11 „ill-
gjarna hugmyndafræði,“ „dómgreindarskort"12 og efast er um að slíkar
túlkunarleiðir geti „þjónað sem upplýsandi menningarrýni".13 Femínísk
afbygging er séð sem túlkunarkerfi þar sem allt veður í mótsögnum og
staðleysum því kenningar hennar virðast ganga í berhögg við hversdags-
lega veruleikaskynjun. Horft er með öllu framhjá þeim pólitíska þætti
sem einkennir skrif Helgu og þeirri staðreynd að ef kvenfrelsisbaráttan á
9 „Dæmd til að hrekjast: Um ástina, karlveldið og kvenlega sjálfsmynd í Tíma-
þjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur." Tímarit Máls og menningar 1/1988
og „,Sáuð þið hana systur mína?‘ Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar og upp-
haf íslenskrar sagnagerðar.“ Skírnir, haust 1989.
10 Sjá grein Helgu Kress, „Mikið skáld og hámenntaður maður: íslenski skólinn
í íslenskri bókmenntafræði". Arsrit Torfhildar, félags bókmenntafrædinema
við HÍ. Reykjavík, 1994, s. 99.
11 Guðmundur Andri Thorsson, „Eilífur kallar/kvenleikinn oss“. Tímarit Máls
og menningar 2/1988, s. 188 og 192.
12 Kolbrún Bergþórsdóttir, „Jónas Hallgrímsson á tímum Júlíu Kristevu."
Tímarit Máls og menningar 3/1991, s. 36 og 40.
13 Birna Bjarnadóttir, „Hinn kvenlegi lesháttur: Um Gerplu, Tímaþjófinn og
femínismann.“ Tímarit Máls ogmenningar 2/1992, s. 5.