Skírnir - 01.04.1995, Side 249
SKÍRNIR
KVENLEG CRYMOGÆA?
243
hefur umræðu síðari ára. Þykir mörgum sem hinar merkingarlegu for-
sendur sem notaðar voru til að viðhalda eða deila á menningarlegt for-
ræði Vesturlanda hafi tapast. Með því að hafna hefðbundinni fagurfræði
og hunsa pólitíska hugmyndafræði sniðganga afbyggjendur gjarnan þau
hugtök sem vísa til menningarlegs stöðugleika og gera lítið úr þjóð-
félagslegu hlutverki listar og gagnrýni. I grein sinni „Hvað er póst-
módernismi?" ræðir Ástráður Eysteinsson um svipaða gagnrýni marxist-
anna Eagletons og Fredrics Jameson á skáldskap póstmódernista.
Eagleton telur póstmódernísk verk „vera hrottalega skopstælingu á sós-
íalískri útópíu,“ en Jameson lítur svo á að „oft beri sundurlaus formgerð
þeirra geðklofaeinkenni, en einnig séu þau oft stælingar eða skríp-
amyndir arfþeginna forma, án þeirrar gagnrýnu íróníu sem búið geti í
skopstælingum".16 Vissulega má ásaka ýmsa rithöfunda jafnt sem fræði-
menn um uppgjöf, en verk annarra einkennast af þeirri gagnrýnu íróníu
sem getur losað um fjötra hugmyndafræðinnar.
Höfnun póststrúktúralista á merkingarmiðju og skírskotunum sem
njóta forréttinda eða byggja á algildum grunni kemur í veg fyrir að við
getum sett reynslu okkar upp í óhagganleg kerfi. Slík kerfi eru ávallt
mynduð úr endanlegum fjölda forsendna, sem nýjar upplýsingar geta
kollvarpað. Þessi gagnrýni á sjálfgefið gildismat er sífellt oftar greind
sem hluti af hinu kvenlega, út frá kynskiptri og írónískri tilvistarhyggju
og söguskoðun. Derrida tengir þessa merkingarlegu togstreitu kynferð-
ismuninum, því hann lítur á írónistann sem konu. í bók sinni Glas segir
hann að lögum þjóðfélagsins sé komið á gegn einkareglum fjölskyldunn-
ar. Þessi lög bæla niður hið kvenlega, rísa gegn því, spotta það og halda
því í skefjum. En takmarkanir karllegs valds eru eðlislægar og óbreytan-
legar. Irónían er vopn konunnar og með því getur hún, „sem innri óvin-
ur samfélagsins, alltaf skellt upp úr á síðustu stundu. Hún veit jafnt í tár-
um sem dauða, hvernig hún getur afbakað það afl sem bælir hana.“17
Ekki þarf að lesa lengi í Máttugum meyjum til þess að sjá þessa gagn-
rýnu íróníu. Þótt grátur og þögn einkenni oft viðbrögð kvenna við kúg-
un, eru hlátur og háð þau vopn sem þær beita helst. Háð er merkingar-
lega afbyggjandi þegar því er beint að þeim þáttum hugmyndakerfisins
sem karlveldið reisir stigskipun sína á. I Brennu-Njáls sögu hæðist Hall-
gerður að Njáli með því að kvengera hann (177-78). Karlkonurnar Her-
vör og Þorbjörg (í Hervarar sögu og Heiðreks og Hrólfs sögu Gautreks-
sonar) gegna sama hlutverki með því að ögra samfélaginu. I uppreisn
sinni hafna þær viðteknu gildismati og er körlum sem konum háðung af
athöfnum þeirra (ef gengið er út frá skilgreiningu kerfisins á eðlisbundn-
16 Ástráður Eysteinsson, „Hvað er póstmódernismi?". Tímarit Máls og menning-
ar 4/1988, s. 447.
17 Jacques Derrida, Glas. Editions Galiée: París, 1974, s. 209-10.