Skírnir - 01.04.1995, Side 250
244
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
um hlutverkum karla og kvenna). Þjóðfélaginu stendur ógn af þeim
vegna þess að þær tileinka sér karllega eiginleika en tvenndarkerfið kven-
gerir þá karla sem lúta í lægra haldi í baráttunni við þær. Þannig er útreið
Hrólfs Gautrekssonar háðulegri fyrir það eitt að konan Þorbjörg rekur
hann og menn hans á flótta (115-17). Tengsl kyngetu og karlmennsku
eru ennfremur afbyggð í hæðnislegum og gróteskum lýsingum, svo sem í
frásögninni af Ivari beinlausa, Orvar-Oddi, Gretti og griðkonunni og í
fjölmörgum frásögnum af gömlum körlum og ungum konum, þar sem
konurnar hlæja að getuleysi manna sinna og halda oft framhjá þeim (103,
104-5,201 og 117-18).
I Máttugum meyjum skipar, eins og áður sagði, þáttur bókmennta-
stofnunar stóran sess. Helga lýsir því hvernig ritmenning karla þaggar
niður munnlega hefð kvenna og ýtir henni út á jaðarsvæði menningar-
innar. Með því að færa hin kvenlegu sjónarmið inn að miðju grein-
ingarinnar tekst Helgu að skapa íróníska fjarlægð á umfjöllun hefðar-
innar svo að blinda fyrri fræðimanna verður oft á tíðum einkennileg.
Gott dæmi er umfjöllunin um Skírnismál, en hefðbundinn lestur á kvæð-
inu er nánast óhugsandi eftir greiningu Helgu. Þar sem oftar í Máttugum
meyjum leggur hún áherslu á að fræðimenn hafi ekki „tekið eftir öllu því
ofbeldi gagnvart konum sem þessar bókmenntir lýsa“ (73). Skírnismál
segja frá tilraunum Skírnis til að fá jötnameyna Gerði til þess að taka
bónorði Freys. Hún hafnar bónorðinu og Skírnir hótar þá að höggva af
henni höfuðið, píska hana til hlýðni og temja með vendi. Hann heldur
áfram og hótar henni
endalausum þjáningum: útlegð, fangelsun, einsemd, hungri, niður-
lægingu, sorgum, gráti og ýmsum tegundum af vitfirringu. [...] Hún
skal drekka geitahland og aldrei fá „æðri drykkju“ (35. er.). Að lok-
um rístir hann henni þrjá stafi: „ergi og æði og óþola“ (36. er.), sem
hann býr sig undir að galdra yfir hana. (72-73)
Það er lesanda ekkert undrunarefni að Gerður skuli gefast upp og lofi að
koma til fundar við Frey. Túlkun fræðimanna á kvæðinu hlýtur að teljast
undarleg. Eins og Helga bendir á sleppir Snorri Sturluson með öllu for-
tölum Skírnis í umfjöllun sinni um ljóðið í Snorra-Eddu og vitnar aðeins
í lokaerindið, niðurstöðuna „með orðum Freys þar sem hann kveður um
óþreyju sína eftir konunni“ (73). Hið sama má segja um umfjöllun Ein-
ars Ólafs Sveinssonar í riti hans um eddukvæði, Islenzkar bókmenntir í
fornöld. Hann telur kvæðið ástarkvæði og að fráteknum göldrunum
„forkunnar fagurt, bæði að efni og orðfæri. Ást Freys er rauði þráðurinn
í því“ (74). Eftir nákvæma lýsingu Helgu á samræðum Gerðar og Skírnis
hljóma orð Einars Ólafs óneitanlega annarlega í eyrum og lesandinn
neyðist til að velta fyrir sér forsendum slíkrar túlkunar. Umfjöllun Ein-