Skírnir - 01.04.1995, Síða 254
248
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
sniðganga opinberlega sjónarmið þeirra sem áður voru útilokaðir frá allri
menningarumræðu.
Þessar breyttu forsendur í aðferðafræði eiga sér nokkra forsögu.
Bandaríkjamaðurinn James Harvey Robinson (1863-1936) lagði til dæmis
snemma á öldinni áherslu á mikilvægi þess að sagnfræðingar kynntu sér
fortíðina með vakandi auga fyrir þörfum samtíðarinnar. Robinson, sem
var undir sterkum áhrifum frá bandarísku gagnsemishyggjunni (prag-
matism), var upphafsmaður nýsöguhreyfingarinnar (the new history),21
en þar átti að taka mið af nýjum kenningum í hagfræði, sálfræði, þjóðfé-
lagsvísindum og stjórnmálafræði í sögulegri túlkun. Þessi sagnfræði
beindi því ekki aðeins athyglinni frá sögu yfirstéttarinnar, hún átti einnig
að þjóna nútíðinni fremur en að falla niður á svið fornminjafræðinnar.
Asama hátt telur Gunnar Karlsson að þjóðfélagslegt hlutverk sagn-
fræðinnar geti eflt skilning okkar á bágri stöðu kvenna, fólki af ólíkum
kynþáttum, þjóðerni og trúarbrögðum. Hann bendir á að vestræn ríki
verða nú æ fjölþjóðlegri og því sé mikilvægt „að nota söguna til að
byggja úr henni brýr fremur en víggirðingar“ (175). Söguskoðun Gunn-
ars má færa yfir á menningarumræðuna alla og ef skynsamlega er að mál-
um staðið er hægt að forðast þá hættu að fræðilegri umfjöllun sé fórnað
á altari pólitísks rétttrúnaðar. Erlendis hafa minnihlutahópar í vaxandi
mæli mótað menningarumræðuna. Námskeið um fjölmenningu (multi-
culturalism) eru til að mynda orðin fastur liður í kennsluefni margra há-
skóla. I eins konar uppgjöri við nýlendustefnu fortíðarinnar hafa eftir-
lendufræði (postcolonialism)23 einnig átt vaxandi vinsældum að fagna, en
þar er reynt að sýna fram á hvernig nýlendustefnan mótar sjálfsmynd
þeirra sem búa í samfélagi sem einkennist af eftirköstum hennar. Fræði-
menn beina ekki aðeins sjónum sínum að menningu og sögu ólíkra þjóð-
félagsbrota, því bókmenntir hefðarinnar eru einnig séðar í nýju ljósi.
Þannig öðlast márinn Óþelló í samnefndu leikriti Shakespeares nýja
rödd sem svartur maður í samfélagi hvítrar yfirstéttar og Ofviðrið (The
Tempest) er lesið út frá orðræðu enskrar nýlendustefnu. Ofviðrið er
reyndar eitt vinsælasta leikrit nýsöguhyggjunar, en eftirlendugreining á
því fjallar iðulega um erfiðleikana við að móta nýja orðræðu sem er í
samræmi við þarfir breskrar útþenslustefnu á upphafsárum hennar.24
22 Nýsöguhreyfingunni (the new history) má ekki rugla saman við nýsöguhyggj-
una (new historicism) sem kom fram á síðasta áratug.
23 Orðin „fjölmenning" og „eftirlendufræði" eru fengin frá Ástráði Eysteinssyni.
24 Dæmi um greiningu af þessu tagi má finna í bók Edwards W. Said, Culture
and Imperialism, Vintage: London, 1994; grein Paul Brown, „‘This thing of
darkness I acknowledge as mine’: The Tempest and the discourse of colonial-
ism“ í Political Shakespeare: Essays in culturalmaterialism (2. útg.) ritstýrt af
Jonathan Dollimore og Alan Sinfield, Manchester University Press:
Manchester, 1994; grein Tomas Cartelli, „Prospero in Africa: The Tempest as
colonialist text and pretext“ í Shakespeare Reproduced: The Text in History