Skírnir - 01.04.1995, Page 258
252
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
öðrum leiðum en áður. Að þessu leyti er verk hennar á „lægra alhæfing-
arstigi" en hefðbundnari bókmenntasögur og líta má á „rauða þráðinn"
sem Helga hyggst lýsa sem mikilvægan þátt í flóknum menningarvef sem
enn á eftir að greina.
Már Jónsson reynir í grein sinni „Sannleikar sagnfræðinnar" að leiða
umræðuna frá tilraunum til þess að meta „sagnfræði á kvarða algilds-
ógilds sannleika, en spyrja þess í stað: hvernig segir sagnfræði satt“.26
Már gengur út frá hugmyndum Gunnars Karlssonar um sannleiksgildi
sagnfræðinnar, en í stað þess að efast um tilganginn með fræðunum, sér
Már tröppugang Gunnars frá smæstu atriðum að miklum alhæfingum
sem jákvætt ferli frá staðreynd til túlkunar. Eftir því sem sagnfræðingur-
inn heldur ofar upp tröppuna
verða fullyrðingar hans æ háðari túlkun hans, þekkingu og viðhorf-
um. Fyrir vikið aukast líkurnar á því að senn verði þær úreltar og
jafnvel hallærislegar. En umræðan er alltaf skemmtilegust í efstu
þrepunum. Þar er fjörið, enda er raunveruleikinn svo margræður að
ekkert eitt er satt, heldur er spennan fólgin í því að komast að mögu-
leikum sem gætu staðist og sagt eitthvað nýtt. (449)
Helga Kress hefur smíðað nýjan stiga inn í heim íslenskra fornbók-
mennta og ekki er hægt að loka augunum fyrir þessari inngönguleið.
Spurningin hlýtur að vera á hvaða þrepum stigans aðrir gagnrýnendur
taka á móti henni og hvert þær deilur leiði umræðuna um íslenskar bók-
menntir.
Vandamál þau sem hér hefur verið lýst eru ekki einskorðuð við bók
Helgu Kress. Þau eru fremur vandamál allrar bókmenntafræði. Máttugar
meyjar hefur það fram yfir hefðbundna bókmenntasögu að hún opnar
augu lesandans fyrir margræðni fortíðar okkar og losar þannig um þá
stöðnun sem hlýtur að fylgja einhliða sögusýn. Hún vekur þá spurningu
hvort greining á íslenskum fornbókmenntum verði ekki að rista dýpra
en hefur tíðkast og hvort þær lýsingar, sem taka fastmótaða og óefaða
hugmyndafræði sem gefna, takmarki ekki skilning okkar á fortíðinni.
Lesandinn er minntur á að bókmenntasagan ber svip þeirrar samtíðar
sem hún sprettur úr og að þeir fræðimenn sem gleyma því hljóta að slíta
skáldskapinn frá samfélagsumræðunni. Með því að einangra bókmennt-
irnar fjarlægjumst við þá hefð sem margir telja að skapast hafi með skrif-
um Sigurðar Nordals og samtímamanna hans um fornbókmenntir.27
26 Már Jónsson, „Sannleikar sagnfræðinnar." Skímir, haust 1992, s. 448.
27 Bent hefur verið á tengsl íslenska skólans og pólitískrar samfélagsumræðu í
greinum Óskars Halldórssonar „ ,íslenski skólinn' og Hrafnkelssaga." Tímarit
Máls og menningar, 3/1978 og Jesses L. Byock „Þjóðernishyggja nútímans og
íslendingasögur.“ Tímarit Máls og menningar, 1/1993.