Skírnir - 01.04.1995, Síða 260
FREGNIR AF BÓKUM
Proxima Thulé, revue d’études nordiques, 1 (haust 1994).
Haustið 1994 kom út fyrsta bindi Proxima Thulé, en það er nýtt tímarit
á sviði norrænna fræða og jafnframt fyrsta tímarit á franskri tungu sem
er helgað þessu efni. Að útgáfunni stendur Félag norrænna fræða í
Frakklandi, sem hefur aðsetur við École pratique des Hautes Études í
París. Ritstjóri tímaritsins er Frangois-Xavier Dillmann, en honum til
ráðgjafar er fjölmenn ritstjórn sérfræðinga: Bertil Almgren og Anders
Hultgárd frá Svíþjóð, Sverre Bagge og Jan Ragnar Hagland frá Noregi,
Pirkko-Liisa Lehtosalo-Hilander frá Finnlandi, Else Roesdahl og Peter
Springborg frá Danmörku, Anfinnur Johansen frá Færeyjum, Jónas
Kristjánsson og Hörður Ágústsson frá Islandi og Frédéric Durand og
Lucien Musset frá Frakklandi.
I formála að ritinu er greint frá tilurð útgáfunnar. Vorið 1992 stóð
École pratique des Hautes Études fyrir nokkrum fræðafundum í tilefni
af sýningunni „Les Vikings... Les Scandinaves et l’Europe 800-1200“,
sem opnuð var 2. apríl það ár í Grand Palais í París. Á þessum fundum
kom fram hugmynd um að gefa út tímarit um norræn fræði á frönsku og
hefur hún nú orðið að veruleika. Proxima Thulé er helgað vísindalegri
umfjöllun um forna norræna menningu og sögu, svo sem bókmenntir,
rúnafræði, trú og goðafræði, og aðra helstu þætti á sviði bókmennta-
fræði, textafræði, sagnfræði og fornleifafræði er varða þetta efni. Ráðgert
er að greinarnar í hverju bindi varði einkum tiltekið meginefni.
í fyrsta bindinu eru átta greinar. Frédéric Durand gefur sögulegt yf-
irlit yfir athuganir á óvenjulegum forngrip sem fannst við Uunartoqfjörð
á Grænlandi sumarið 1948. Er þetta lítill hringlaga hlutur úr tré, brotinn
um gat í miðju og með grunnum raufum á brúninni. Telja fræðimenn hér
fundið leiðsögutæki sem fornir norrænir sæfarendur hafi notað á ferðum
sínum. Else Roesdahl fjallar um hringvirkin í Danmörku, það er Trelle-
borg á Sjálandi, Nonnebakken á Fjóni og Aggersborg og Fyrkat á Jót-
landi. Rekur hún rannsóknarsögu og kenningar um samhengi þessara
staða í sögu víkingaaldar. Lucien Musset birtir hér ritdóm um bók Niels
Lund, De hœrger og de hrænder, en ritið fjallar um samskipti Danmerk-
ur og Englands á víkingaöld. Gillian Fellows-Jensen birtir langa og ítar-
lega grein um norræn örnefni í Normandie og tekur til gagnrýninnar at-
hugunar fyrri hugmyndir um landnám norrænna manna þar á víkinga-
öld. Vladimir Vodoff skrifar um víkinga í austurvegi og fjallar um nýleg
rit um þau efni. Pirkko-Liisa Lehtosalo-Hilander fjallar um vitnisburð
fornleifafræðinnar um skartgripi og klæði frá víkingaöld í Finnlandi. Jan
Ragnar Hagland segir frá nýlegum uppgötvunum á rúnaristum í Bergen
og Þrándheimi og túlkun á þeim. Loks er að finna bókfræðilegt yfirlit
um norræn fræði síðustu ára sem Franfois-Xavier Dillmann hefur tekið
saman.