Skírnir - 01.04.1996, Qupperneq 14
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
Ummæli landsforeldranna á Þingvöllum endurspegla vel
hefðbundin viðhorf Islendinga til eigin þjóðernis. Forsenda
þjóðernisvitundarinnar er tungumálið sem geymir minningar
fortíðar og fleytir þeim inn í framtíðina; móðurmálið bindur ekki
aðeins alla núlifandi íslendinga í eina heild, heldur „tengir [það]
fortíð við nútíð og framtíð“4 og þjóðina við náttúru landsins.5
Þessar hugmyndir eru hvorki nýjar af nálinni í íslenskri
þjóðmálaumræðu, né einstæðar fyrir íslenska þjóðernisvitund.
Allt frá fyrstu dögum sjálfstæðisbaráttunnar lögðu menn áherslu
á mikilvægi tungumálsins fyrir íslenska þjóðernisvitund,6 og rök-
semdir íslensku fulltrúanna í sambandslaganefndinni árið 1918
hnigu í sömu átt.7 Ef við lítum á þennan málflutning í stærra sam-
hengi sést að hugmyndir Islendinga um þjóðernið falla undir það
sem nefnt hefur verið frumlægar eða eðlislægar kenningar
(primordialism og essentialism á enskri tungu), en þær voru áber-
andi í þjóðfrelsisbaráttu ýmissa Evrópuþjóða, svo sem Tékka, íra,
og Rúmena, á síðari hluta nítjándu aldar og á fyrri hluta þeirrar
tuttugustu. Astralski fræðimaðurinn John Hutchinson lýsir skrif-
um nokkurra helstu forkólfa þessara þjóða í frelsisbaráttunni svo
í nýlegu yfirlitsriti um þjóðernisstefnuna:
Þeir túlkuðu fortíðina sem frásögn af stöðugri þróun í átt til aukins
sjálfsþroska. Þessar þjóðir voru frumlægar einingar, samofnar mannlegri
náttúru og sögu, og þær mátti greina á áþreifanlegan hátt út frá sér-
kennum í lífsstíl (þ.e. á grunni tungumáls, sögu, menntunar, trúar-
bragða), út frá tryggð þeirra við ættjörðina og baráttu þeirra fyrir
sjálfstjórn.8
4 Geir H. Haarde, „Efnahagslegar og menningarlegar forsendur tengdar sam-
an.“ Morgunblaðið 19. júní 1994, bls. 28.
5 Sbr. ræðu Páls Péturssonar sem áður var vitnað til.
6 Sjá t.d. Baldvin Einarsson, „Ármann á Alþingi. Sýnishorn," fyrstu útg. 1828.
Endurprentað í Uppeldið varðar mestu (Reykjavík: Rannsóknastofnun
Kennaraháskóla Islands, 1995), bls. 38.
7 Björn Þórðarson, Alþingi og frelsisbaráttan (Reykjavík: Alþingissögunefnd,
1951), bls. 330. Sbr. Guðmundur Hálfdanarson, „íslensk söguendurskoðun,"
Saga 33 (1995), bls. 63-64.
8 John Hutchinson, Modern Nationalism (London: Fontana, 1994), bls. 3. Sjá
einnig Anthony D. Smith, Nations and Nationalism in a Global Era
(Cambridge: Polity Press, 1995), bls. 30-35.