Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 21
SKÍRNIR
HVAÐ GERIR ÍSLENDINGA AÐ ÞJÓÐ?
15
þjóðernisvitundar Evrópubúa, aðeins fyllt þá óvissu um framtíð
þjóðernis og hlutverk þjóðríkja í breyttum heimi. Þannig hafa
þegnar kjarnaríkja Evrópusambandsins sýnt mikla tregðu við að
varpa grónum þjóðartáknum, eins og mynt, fyrir róða, sumir
kannski af ótta við efnahagslegar afleiðingar slíkra aðgerða, en
flestir þó sjálfsagt fyrst og fremst af tilfinningalegum ástæðum. I
raun veit enginn hvert stefnir í þessum málum; það er ljóst að
skipulag þjóðríkja er að verða hálfgerð tímaskekkja22 - þau eru
einfaldlega of lítil og of háð hagsmunum smárra þrýstihópa til að
takast á við fjölda verkefna sem krefjast úrlausna,23 auk þess sem
samskiptatækni nútímans hefur tengt ólíkar þjóðir æ nánari
böndum. Um leið eru mörg þjóðríki það stór að stjórnvöld hafa
fjarlægst þegnana, ekki síst þá sem tilheyra jaðarsvæðum.
Bandaríski félagsfræðingurinn Daniel Bell hefur orðað þessa
þverstæðu þannig að þjóðríki nútímans séu „of lítil fyrir stóru
vandamál lífsins og of stór fyrir litlu vandamál lífsins“.24
Þjóðernisvitundin hefur hins vegar staðið af sér allar breytingar,
fræðimönnum til nokkurrar furðu. Það er því ekki að ófyrirsynju
að mörgum hefur sýnst að þjóðernið sé manninum áskapað - að
ættjarðarástin sé „ósjálfráð eðlishvöt [...] sem á rót sína í
fastskorðuðu náttúrulögmáli, sameiginlegu grundvallareðli“, svo
vitnað sé til orða sagnfræðingsins Jóns Jónssonar Aðils.25
Kenningar um uppruna og þróun þjóðernis
Á undanförnum árum hefur verið mikil gróska í fræðilegri
umræðu innan félags- og hugvísinda um uppruna og þróun
þjóðernis. Eins og oft vill verða í þessum vísindum hefur mikill
22 Það þýðir þó ekki endilega að þau séu að hverfa, sbr. Michael Mann, „Nation
States in Europe and Other Continents: Diversifying, Developing, Not
Dying," Dxdalus 122 (1993), bls. 115-40.
23 Þar má benda á fiskveiðar í Norður-Atlantshafi sem nærtækt dæmi.
24 Daniel Bell, „The World and the United States in 2013,“ Dœdalus 116 (1987),
bls. 13-14, sbr. Anthony Giddens, The Consequences of Modernity (Stanford:
Stanford U.P., 1990), bls. 63-65.
25 Jón Jónsson [Aðils], Dagrenning. Fimm alþýðuerindi (Reykjavík: Sigurður
Kristjánsson, 1910), bls. 10.