Skírnir - 01.04.1996, Side 23
SKÍRNIR
HVAÐ GERIR ÍSLENDINGA AÐ ÞJÓÐ?
17
hafa nefnt sjálfa sig „etnisista“ - en hvorugt hugtakið verður þýtt
á íslenskt mál svo vel fari.29 Sameiginlegt einkenni módernista er
að þeir hafna því að þjóðerni eigi sér beinar rætur í þjóðfélögum
fyrri tíma; það sé aðeins eitt afkvæmi þeirra róttæku þjóðfélags-
breytinga sem hafa átt sér stað á síðustu tveimur öldum, eða eins
konar fylgifiskur iðnvæðingar og lýðræðisþróunar. Að þeirra
mati er því tilgangslaust að leita uppruna þjóða í sögu eða menn-
ingu þeirra, þótt flestar þjóðir nýti þessa þætti til réttlætingar á
tilveru sinni. I þessu sambandi er ekki úr vegi að vitna til kunnra
ummæla eins þekktasta forsvara módernista, sagnfræðingsins
Erics Hobsbawm, en hann segir að þjóðerni hafi hvorki skapað
ríki né þjóðernisstefnu, heldur sé samband þessara fyrirbæra
þveröfugt - þjóðernisstefnan hafi í reynd skapað þjóðernið.30
Annar frumkvöðull módernista, enski félagsmannfræðingurinn
Ernest Gellner, var svipaðs sinnis, en hann taldi ekki nægja að
gagnrýna þjóðernisstefnuna í stjórnmálum, heldur hlytum við
einnig að hafna þeim goðsögnum að þjóðir „séu greyptar í eðli
hlutanna“, og að „þjóðríki séu augljóst lokatakmark þjóðflokka
eða menningarhópa“. Þjóðir eru einfaldlega félagslegar siðvenjur,
sagði hann, „uppfundnar þar sem þær eru ekki til“,31 eða
ímynduð samfélög, svo vitnað sé í heiti þekktrar bókar írsk-
bandaríska stjórnmálafræðingsins Benedicts Anderson.32 Sam-
kvæmt þessari skoðun eru þjóðir því eins konar hugarburður eða
hugarfóstur sem geta gufað upp er minnst varir.
29 Hugtökin eru á ensku „modernists" og „ethnicists". John Hutchinson,
Modern Nationalism, bls. 3-9 og Anthony D. Smith, Ethnic Origins of
Nations, bls. 6-18. Smith hefur einnig notað hugtakið „social-
constructionists" yfir módernista; „The Problem of National Identity:
Ancient, Medieval, and Modern,“ Ethnic and Racial Studies 17 (1994), bls.
378. Þessi „stefna“ tengist náið vinsældum þess sem hefur verið kallað „social
constructionism" í félagsvísindum, sbr. Craig Calhoun, „Social Theory and
the Politics of Identity," í C. Calhoun, ritstj., Social Theory and the Politics of
Identity (Oxford: Basil Blackwell, 1994), bls. 9-36.
30 Eric Hobsbawm, Nations and Nationalism since 1780. Programme, Myth,
Reality 2. útg. (Cambridge: Cambridge U.P., 1992), bls. 10.
31 Ernest Gellner, Nations and Nationalism, bls. 48-49, og Thought and Change
(Chicago: Weidenfeld & Nicholson, 1964), bls. 169.
32 Benedict Anderson, Imagined Communities: Reflections on the Spread of
Nationalism (London: Verso, 1983).