Skírnir - 01.04.1996, Síða 25
SKÍRNIR
HVAÐ GERIR ÍSLENDINGA AÐ ÞJÓÐ?
19
goðsagna sem tengir þjóðina saman og greinir hana frá öðrum.
Hins vegar virðist nokkrum tilviljunum háð hvaða tákn eru valin,
eða hvernig landamæri þjóða eru dregin. Þessu til skýringar er
hægt að benda á, að íbúar Bretagneskaga í vesturhluta Frakklands
höfðu svipaðar forsendur til að teljast sérstök þjóð og íslendingar
á nítjándu öld, en samt veittu þeir innlimun í franskt þjóðríki
takmarkaða mótspyrnu.36 Hvernig getum við þá skýrt hvers
vegna þessi tvö „þjóðflokkasamfélög", ísland og Bretagne, hafa
þróast með svo ólíkum hætti?
Til að svara þessari spurningu er nauðsynlegt að átta sig á að
þjóðerni er fyrst og fremst pólitískt hugtak og tengist sem slíkt
náið uppruna og þróun nútíma ríkisvalds.37 í þjóðríkjum nútím-
ans er fullveldið sameiginleg eign þegnanna, sem allir teljast jafn-
réttháir gagnvart lögum hvar sem þeir búa og hvaða stétt sem þeir
tilheyra.38 I eðli sínu felur þessi grunnhugmynd vestrænna þjóð-
ríkja ekki í sér neinar fastar reglur um skiptingu manna í þjóðir,
vegna þess að samkvæmt henni teljast mannréttindi algild og
ótengd menningararfleifð þegnanna; því er í sjálfu sér ekkert sem
mælir á móti því að öll Evrópa verði eitt þjóðríki, eða allur
heimurinn ef því er að skipta, svo fremi að fullveldi þegnanna sé
tryggt. I framkvæmd urðu fyrstu þjóðríkin þó takmörkuð að
stærð, enda tæpast forsendur á síðari hluta átjándu aldar fyrir að
mynda samstæð ríki á gríðarlega víðáttumiklum landsvæðum.
Lausnin sem var valin, t.d. í Frakklandi á dögum byltingarinnar,
var að binda þjóðríkið við yfirráðasvæði einveldisins - þ.e.a.s. um
leið og byltingarmenn kollvörpuðu réttlætingu ríkisvaldsins
36 Guðmundur Hálfdanarson, „Old Provinces, Modern Nations: Political
Responses to State Integration in Late Nineteenth and Early Twentieth-
Century Iceland and Brittany,“ doktorsritgerð við Cornell-háskóla, 1991.
37 Það skal tekið fram að hugtakanotkun er nokkuð á reiki þegar fjallað er um
þjóðerni á íslensku þar sem íslensk tunga greinir ekki á milli þess sem nefnt
hefur verið á erlendum málum ethnic community eða folk annars vegar og
nation hins vegar (sjá Gunnar Karlsson, „Folk og nation pá Island," Scandia
53 (1987), bls. 129-45). Hér er orðið þjóð notað sem þýðing síðara hugtaksins,
nation, en þrátt fyrir hatrammar deilur um uppruna og eðli þjóðernisins ríkir
víðtæk samstaða í fræðilegri umræðu um að tengja það tilurð þjóðríkisins.
38 Guðmundur Hálfdanarson, „„Kemur sýslumanni [það] nokkuð við ...“ Um
þróun ríkisvalds á íslandi á 19. öld,“ Saga 31 (1993), bls. 7-31.