Skírnir - 01.04.1996, Page 34
28
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
eðli hlutanna samkvæmt hlýtur sérstakt menningarsamfélag að
teljast þjóð út af fyrir sig. Samband menningar og pólitískrar
vitundar er auðvitað ekki svo einfalt, sem sést af því að íslensk
menning og tunga lifðu í árhundruð án þess að nokkur skipuleg
andstaða myndaðist gegn valdi erlends konungs á Islandi - einnig
komust önnur menningarsamfélög að allt annarri niðurstöðu um
pólitíska stöðu sína við svipaðar aðstæður eins og áður hefur
verið minnst á. En megineinkenni þjóðernisstefnunnar sem póli-
tískrar hugmyndafræði er að hún hlutgerir huglæga vitund. Hún
breytir með öðrum orðum pólitísku vali í óhagganlega staðreynd,
þ.e. í stað þess að túlka þjóðina sem félagslega siðvenju telja
þjóðernissinnar hana órjúfanlegan þátt í mannlegu eðli. íslend-
ingar leiða því ekki oft hugann að því að hægt er að flokka
heiminn á allt annan hátt en hefur almennt tíðkast; ísland hefði
allt eins getað orðið hluti af dönsku ríki, tekið þátt í uppbyggingu
samnorræns ríkis, eða runnið inn í einhvers konar evrópska heild.
Síðasti kosturinn hefur reyndar staðið okkur opinn að undan-
förnu og tregða íslendinga við að taka hann til gagnrýnnar
umræðu sýnir að mínu mati hvað best styrk íslenskrar þjóðernis-
vitundar.
Þessar hugleiðingar mínar um íslenskt þjóðerni eiga sér að
nokkru leyti rætur í kenningum franska félagsfræðingsins Pierres
Bourdieu.61 Hann hefur bent á að flokkun mannkynsins í hópa,
sem og orðin sem við notum til að lýsa félagslegum veruleika, eru
fjarri því að vera hlutlaus lýsing á samfélaginu. Þvert á móti hefur
slík flokkun afgerandi áhrif á það hvernig við skynjum heiminn
og stöðu okkar innan hans. Að mati Bourdieus er því öll stjórn-
málabarátta í eðli sínu barátta um það hvernig hópar verða til og
hvernig þeim er viðhaldið og þar hlýtur sú skipting að verða ofan
á sem mönnum sýnist eðlileg, náttúruleg, eða óumdeilanleg.62
61 Sjá Guðmund Hálfdanarson, „Social Distinctions and National Unity: On
Politics of Nationalism in Nineteenth-Century Iceland,“ History of European
Ideas 21 (1995), bls. 763-79.
62 Sjá t.d. Pierre Bourdieu, „Espace social et pouvoir symbolique,“ í Choses dites
(París: Les Éditions de Minuit, 1987), bls. 147-66 og Le sens pratique (París:
Les Éditions de Minuit, 1980), bls. 87-109, 191-207 og víðar. Bourdieu fjallar
fyrst og fremst um skipan félagslegs valds og samspil mismunandi tegunda
auðmagns, en kenningar hans má einnig nýta við greiningu á þjóðerni.