Skírnir - 01.04.1996, Page 74
68
ÓLÍNA ÞORVARÐARDÓTTIR
SKÍRNIR
í Baldursdraumum talar völvan „nauðug“ til Óðins sem hefur
vakið hana upp úr gröf sinni. Hann vandar henni ekki kveðjurn-
ar, skipar henni að þegja þegar hún mælir annað en hann vill
heyra og lastar hana loks:
[...]
Ert-at-tu völva
né vís kona,
heldur ertu þriggja
þursa móðir. (er. 13, ÓB 1968:484)
Hér eru kærleikar allt aðrir og minni en í Völuspá. Þar ávarpar
völvan bæði guði og menn er hún biður sér hljóðs og vísar til til-
mæla Óðins um að hún flytji spána: „vildo at ek, Valfpðr, / vel
fyr telia / forn spipll fira“ (er. 1). Síðar í kvæðinu minnist hún
þess hvernig Óðinn vitjaði hennar við útisetuna og valdi henni
„hringa ok men“(er. 29), enda virðist hún vera atvinnumanneskja
í sínu fagi.13 Afar erfitt er að ímynda sér Óðinn velja dauðri völvu
„hringa ok men“ - eða að virðing hennar hafi aukist svo mjög frá
því fundum þeirra bar saman austur fyrir dyrum Heljar í Bald-
ursdraumum (sbr. ÓB 1968:81).
Sú völva sem talar í Völuspá er spræk og lifandi - enda situr
hún „úti“ þegar Óðinn vitjar hennar, en liggur ekki í gröf sinni.
Utisetur eru ekki „dauðra manna æði“, eins og Sigurður Nordal
hefur bent á (1952:39), enda þurftu dauðir menn ekki að leita
frétta úr öðrum heimi á þann hátt. Það er því útilokað að um
sömu völvu sé að ræða í kvæðunum tveimur: Völuspá og Bald-
ursdraumum.
13 Gjafir Óðins til völvunnar koma heim og saman við þá mynd sem dregin er
upp af spákonum og fjölkynngisfólki í öðrum fornbókmenntum, ekki síst í Is-
lendingasögum. Er þess oft getið að menn „kaupi að“ fjölkunnugu fólki spár
og galdra (sbr. Huld seiðkona í Ynglingasögu (13. kap.), Þorgríma galdrakinn
í Eyrbyggju (40. kap.), Þorgrímur nef í Gísla sögu Súrssonar (18. kap.). Sér-
staklega virðast menn hafa gert vel við völvurnar, því þeim voru búnar vegleg-
ar veislur þegar þær komu til að fara með spár og fréttir eins og sjá má af
fyrrnefndri frásögn í Eiríks sögu rauða (4. kap.).