Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 93
SKÍRNIR
HVAÐ MERKIR ÞJÓÐTRÚ?
87
inga sögum eru það í hæsta lagi blendingar eins og í Grettis sögu.
Afturgöngur koma vissulega fyrir í nokkrum Islendinga sögum
svo sem Eyrbyggju, Laxdœlu, Grettlu, Svarfdœlu, Eiríks sögu
rauða, Hávarðar sögu Isfirðings og Flóamanna sögu en samt er
draugagangur þar fremur undantekning en regla.
I hinum meira eða minna sannsögulegu samtíðarsögum frá 13.
og 14. öld, Sturlungu og biskupasögum, er ekkert dæmi um álfa
eða tröll og aðeins eitt dæmi um afturgöngu, Selkollu sem Guð-
mundur góði kom fyrir. Þar er hinsvegar talsvert um draumvitr-
anir, fyrirboða og forspár sem einnig eru vel þekktar úr Islend-
inga sögum. Orðið huldumaður sést ekki fyrr en í handritum frá
15. öld en huldufólk og ljúflingar eru nefnd á 17. öld.17
I Islandslýsingu Odds biskups Einarssonar sem hann reit á
latínu seint á 16. öld er greint frá sögum um afturgöngur sem lík-
ist sögnum um holdgaða anda víða erlendis. Einnig segir hann
það „hald almúgans, að til sé einhver guðlaus kynstofn í jörðu
inni“ sem þó sé skiptur innbyrðis. I framhaldi af því sést huldu-
fólki og tröllum lýst í fyrsta sinn, og þeirri lýsingu ber mjög sam-
an við það sem segir um útlit þeirra og eðli í þjóðsögum Jóns
Árnasonar næstum þrem öldum síðar.
Þrátt fyrir orðalag Odds um „hald almúgans" (Arbitratur
vulgus esse) segir hann í næstu andrá að trú á tilvist þessara dular-
vera sé nokkuð sem „sumir slá fram“ (ut quidam conjiciunt) en
yfirleitt virðist allir sæmilega viti bornir menn álíta það „hrekkja-
brögð, tál og sjónhverfingar Satans“. Orð hans þurfa því ekki að
merkja „allur almúgi“. Fyrir sanntrúaðan kristinn mann, hvað þá
verðandi biskup, hlaut reyndar sérhver hjátrúarfullur einstaklingur
að vera einum of mikið og umtalsverður fjöldi að vaxa í augum.18
17 Alvíssmál, 10., 12., 14., 16., 18., 20., 22., 24., 28., 30., 32. vísa; Lokasenna, 30.
vísa. - Edda Snorra Sturlusonar. Útg. Finnur Jónsson. Kh. 1931, 25. - fsl.
fornrit IV, 93-95, 148-52, 215; V, 39-40, 69; VI, 298-301; VII, 112-23, 175-77,
184, 200; IX, 174-90, 207; XIII, 255, 285. - Biskupa sögur II. Kh. 1878, 77-78,
80-82. - Jarlmanns saga ok Hermanns. Kh. 1963, 49. - Fomaldarsögur
Norðurlanda. Rv. 1944, III, 399. - Annálar 1400-1800. Rv. 1922-1988,1, 218-
19; V, 290. - Munnmœlasögur 17. aldar. Bjarni Einarsson bjó til prentunar.
Kh. 1955, 18,35.
18 Oddur Einarsson. íslandslýsing. Rv. 1971, 47-49; sbr. Qualiscunque Descriptio
Islandiae. Hamburg 1928, 14-15.