Skírnir - 01.04.1996, Page 96
90
ÁRNI BJÖRNSSON
SKÍRNIR
Þannig er nú margt af eldri trú manna og hjátrú gersamlega horfið, nema
ef kynni að leynast enn fram til dala í sumum sveitum og afskekktari
héruðum landsins. En nú eru því miður þeir óðum að deyja, sem kunna
hin fornu fræði fólksins, og ekkert er að koma í þess stað. Unga fólkið
fyrirlítur heimskuna úr körlunum og kerlingunum, en gætir þess ekki, að
það er þá að láta þjóðina týna niður efni merkra vísinda, sem nú er safn-
að til um allan heim.24
Sigurður Nordal hélt því reyndar fram árið 1971 að orð Maurers
um þverrandi hjátrú íslendinga á 19. öld sem vitnað var til hér að
framan hlytu að vera skrifuð af hlífðarsemi við Islendinga. Hon-
um fannst einnig að Jón Arnason hlyti að hafa mælt um hug sinn
þegar hann kvaðst ekki trúa á sannleika þjóðsagna. Sigurður seg-
ir:
Var hann [Konráð] svo einlægur vinur íslendinga, að hann hefur fremur
viljað gera minna en meira úr hverju því, sem gæti orðið þeim til vansa.
[...] Jón hefur að sjálfsögðu verið miklu hjátrúaðri alla sína ævi en hann
vildi játa fyrir sjálfum sér, hvað þá Maurer.25
Engin rök færir Sigurður samt fyrir þessum staðhæfingum önnur
en eigin tilfinningu. En slíkar fullyrðingar eru einmitt dæmigerð-
ar fyrir þau nýrómantísku sjónarmið sem nemendum og öðrum
almenningi hafa verið innrætt síðustu hundrað ár. Eldhugar í
þeim anda vildu blátt áfram að fólk væri eða hefði að minnsta
kosti verið hjátrúarfullt. Það þótti svo náttúrulegt og óspillt og
umfram allt skemmtilegt.
Samkvæmt þeirri innrætingu átti þjóðin, alþýða manna, að
hafa trúað og tryði jafnvel enn upp til hópa á tilvist drauga og
huldufólks. Því var ósjaldan bætt við að þeir sem ekki vildu
kannast við að trúa á neitt yfirnáttúrlegt væru einungis hræddir
við að verða að athlægi. Slík staðhæfing er þó mjög hæpin og
styðst ekki við neina altæka könnun. Það er líka blátt áfram þver-
sögn í því fólgin að menn óttist að verða sér til skammar með því
að líkjast fjöldanum! Yfirleitt óttast spéhræddir menn frekar að
skera sig úr, vera öðruvísi en aðrir.
24 Jónas Jónasson. Islenzkirþjóðhœttir, 389.
25 Sigurður Nordal. Þjóðsagnabókin I. Rv. 1971, xlix-li.