Skírnir - 01.04.1996, Page 118
112
BRYNHILDUR INGVARSDÓTTIR
SKÍRNIR
réttlæti rannsóknir sínar með því að samfélagið þarfnist sögu,
geymi þeir „alvörusöguna“ handa sjálfum sér (59).
Höfundarnir segja ennfremur að menntunarhlutverk sagn-
fræðinnar sé vanrækt. Þá eiga þeir við menntun í víðum skilningi,
ekki aðeins þá fræðslu sem fram fer í skólum (2). Almenningur á
að fá að svala forvitni sinni um fortíðina, auk þess sem sagan á að
veita fólki stuðning og leiðsögn um nútímann og vegleysur hans
(48). Þetta hlutverk vanræki rannsóknarsagnfræðingar vegna þess
að þeir hafi „tileinkað sér sagnfræðilegar aðferðir sem fela í sér
aðskilnað nútíðar og fortíðar, ennfremur aðskilnað þeirra sjálfra
og vandamála samfélagsins“ (3). Þennan aðskilnað má rekja til
sundrungar tveggja höfuðþátta sagnfræðinnar, framsetningar og
rannsóknar. Sýnt þykir þó að hvorugt getur lifað án hins og því
hefur kviknað krafan um endurvakningu „einingar listar og vís-
inda“ í sagnfræði (Rúsen, 18). Þessi endurvakning er oft nefnd
„endurreisn frásagnarinnar".
Ef haft er í huga hve nærri þessi gagnrýni vegur að stoðum
ríkjandi hugmynda má furðu sæta hversu litlar breytingar hafa
orðið í greininni. Ein ástæðan fyrir þessari tregðu til breytinga
gæti verið sú, að engin ein leið hefur boðist í staðinn fyrir hina
öruggu „vísindalegu“ rannsóknarsagnfræði. Þeir sem skrifað hafa
um söguheimspeki hafa flestir einbeitt sér að fræðilegum vanga-
veltum um það hvers vegna gamla aðferðin dugar ekki lengur.
Færri hafa komið fram með lausn á vandamálinu, einhverjar nýjar
vinnureglur, enda gætu þær aldrei orðið annað en „einhvers kon-
ar listfræði sagnaritunar“ (Rúsen, 9).
Engu að síður hafa verið gerðar tilraunir til þess að móta ný
vinnubrögð fyrir stéttina. Eina slíka er að finna í grein eftir
breska sagnfræðinginn Peter Burke frá árinu 1991. Burke leggur
til að endurreisn frásagnarinnar í sagnfræði taki mið af nýjungum
í frásagnartækni bókmennta tuttugustu aldarinnar (238) og nefnir
nokkur bókmenntaform sem hann telur að sagnfræðingar geti
nýtt sér. Meðal þeirra er míkrósagan, sem notar einstaka atburði
eða lífshlaup einstaklinga til þess að varpa ljósi á heildarsöguna.
Auk þess gætu sagnfræðingar sagt söguna afturábak, þannig að
tengsl hennar við nútímann væru sett í öndvegi. Þá nefnir Burke