Skírnir - 01.04.1996, Síða 135
SKÍRNIR
HVAÐ ER Á SEYÐI í SAGNFRÆÐINNI?
129
að halda sig innan ramma heimildanna og segja lesandanum
hverju má treysta og hverju síður: „Sagan hlýtur að ýkja er hún
segir að Snorri hafi synt með félaga sinn nær hálfri viku sjávar,
sem er tæpir 2500 málfaðmar“ (111). Þórunn tekur sér heldur
ekkert úrskurðarvald en leggur til skýringar sem lesandinn getur
metið: „Líklega eru það harðindin sem knýja Snorra til að skrifa
Magnúsi Gíslasyni amtmanni bréf 4. febrúar 1754, tæpum tveim-
ur árum eftir að hvalirnir komu á land í Aðalvík“ (193, letur-
breyting hér). Þórunn er þannig sýnileg í textanum, hún gerir les-
andanum ljóst hverjar hennar skoðanir eru og að þær séu ekki
einu skoðanirnar sem hægt sé að hafa á efninu.
Það sem helst má kenna við skáldskap í bókinni um Snorra
eru ýmsar umhverfis- og náttúrulýsingar höfundar: „Fjöllin eru
svo brött að jörðin togar af offorsi í landið - ekki mildri, þéttri
hendi sem á frjósömu undirlendi Suðurlands“ (131). Þar sem
hlutverk þessara lýsinga í textanum er að vekja hughrif með les-
andanum, fremur en að veita honum ákveðna vitneskju sem er
mikilvæg til skilnings á efninu, væri réttlætanlegt að skilgreina
þær sem skáldskap. Þessi skilgreining hefur reyndar verið bundin
í kenningu af heimspekingnum P. F. Strawson, sem segir að slík-
ar lýsingar standi einfaldlega utan við sannleikshugtakið, þær séu
án sannleiksgildis og geti því hvorki talist sannar né lognar.
Strawson kallar „sannleikslaust" efni af þessu tagi merkingarlaus
smáatriði; þau finnast yfirleitt aðeins í skáldsögum eða heimilda-
skáldsögum en sjaldnast í hefðbundinni „hlutlægri" sagnfræði
(Ankersmit, 22). En Þórunni þykir ekkert standa í vegi fyrir því
að slíkt efni sé notað í sagnfræði, því að
sagnfræði er aldrei hlutlaus, hún er í eðli sínu aðferð til að hjálpa fólki að
skynja fortíð, og vinnuaðferðin, að vísa til heimilda, í raun sáraeinföld.
Ekkert er siðferðilega rangt við það að auðga sagnfræðitexta með frjáls-
um texta, náttúrulýsingum, vangaveltum, og flestum þeim stílbrögðum
sem beitt er í bókmenntum. Það sem ekki má er að ljúga, að segja eitt-
hvað sem ekki er heimild fyrir. (1989a, 462)
Augljóst er að Þórunn lítur ekki á „frjálsan texta“ sem lygi, þó
að hún hafi ekki ákveðnar heimildir fyrir honum. Hann stendur
því utan við það efni bókarinnar sem lýtur sannleikshugtakinu,