Skírnir - 01.04.1996, Page 184
178
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
Við nútímamenn á Vesturlöndum búum við formleg borgara-
leg réttindi og erum flestir lausir undan fátækt og skorti (þótt
skortur sé afar teygjanlegt hugtak). Hvort tveggja eru mikilvægar
forsendur þess að við getum ráðið málum okkar sjálf. Samt sem
áður er það reynsla margra hugsandi manna í þessu samfélagi að
þeir hafi í raun afar lítil áhrif á mótun lífsskilyrða sinna. Þessi
firring er lifandi raunveruleiki fyrir allan fjölda fólks í samfélagi
þar sem þegnunum er tryggt bæði frelsi undan óréttmætum af-
skiptum ríkisvalds og frelsi undan skorti. Það er því greinilega
ekki nóg að skilgreina félagslegt frelsi með hliðsjón af þessum
þáttum. Sé frelsið eingöngu afmarkað við val á milli tiltekinna
neyzlukosta innan tiltekins þjóðfélagskerfis fer það að gegna
pólitísku réttlætingarhlutverki; gefið er í skyn að það sem máli
skipti fyrir frelsi manna sé að geta valið á milli kosta sem sam-
félagið skammtar þeim hverju sinni. Slík frelsiskrafa, eins konar
kjörbúðafrelsi, nær augljóslega ekki til þess umhverfis eða vett-
vangs sem skammtar okkur kostina.
Kjörklefafrelsið dugar líka skammt því stjórnmálin hafa verið
tæknivædd og lúta orðið lögmálum rökvæðingarinnar. Jafnvel
bylting, eins og dæmin sanna, virðist breyta litlu um þetta. Kant
hittir naglann á höfuðið í grein sinni „Svar við spurningunni:
Hvað er upplýsing?“: „Með byltingu má að vísu kollvarpa skipu-
lagi sem reist er á persónulegri harðstjórn og kúgun og birtist í
fégræðgi og valdasýki. En þessu fylgir engin sönn endurbót
hugarfarsins; nýir fordómar verða alveg eins og hinir gömlu að
haldreipi hins hugsanasnauða fjölda.“5 Einnig mætti segja sem til-
brigði við hugsun Kants: Með byltingu er einu valdakerfi steypt
en jafnharðan eru menn seldir undir önnur valdatengsl. Foucault
endurómar þessa hugsun og tekur hana skrefi lengra þegar hann
skrifast á við Kant 200 árum síðar: „Við vitum af reynslunni að
allar áætlanir um að brjótast út úr kerfum líðandi stundar í nafni
heildarhugsjónar um annað samfélag, annan hugsunarhátt, aðra
menningu, aðra heimssýn, hafa aðeins endurvakið hinar háskaleg-
ustu hefðir.“6
5 Hausthefti Skírnis 1993, s. 380, þýð. Elna K. Jónsdóttir, Anna Þorsteinsdóttir.
6 Michel Foucault, „Hvað er upplýsing?“ í sama hefti Skírnis, s. 401, þýð. Torfi
H. Tulinius.