Skírnir - 01.04.1996, Page 198
192
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
gerir skil af aðdáunarverðri glöggskyggni. Umfjöllun hans um þagnar-
skylduna (75-85), mikilvægi hennar í starfi heilbrigðisstétta og hvenær
þó sé heimilt að rjúfa hana þegar almannaheill eða hagsmunir saklausra
einstaklinga eru í húfi (þ.e. þegar tjónið af því að virða skylduna vegur
þyngra en tjónið af því að víkja frá henni) er svo hnitmiðuð og vel rök-
studd að hvergi verður um bætt. I sömu andrá mætti nefna kaflann
„Hæfi til að taka ákvarðanir" (142-47) þar sem mat á ólíkum hæfnisþátt-
um og ,,-þröskuldum", er ráðast af eðli ákvörðunarinnar, er skýrt á eink-
ar greinargóðan hátt. Þá hreifst ég mjög af kaflanum um fóstureyðingar
(231-50), ekki síst að því leyti sem hann hnekkir útbreiddum fordómum
um stöðu fósturs sem réttindalauss persónuleysingja og um óskoraðan
rétt kvenna yfir eigin líkama. Ég tel að vísu að Vilhjálmur fari ögn út af
sporinu í lokin (250-56) þegar hann mælir með tiltölulega frjálslyndri
löggjöf um fóstureyðingar eftir að hafa sjálfur „tekið tiltölulega íhalds-
sama siðferðilega afstöðu" (251) til þeirra. Meginrök hans þar, að erfitt
sé að finna sanngjarna refsingu við brotum á strangri löggjöf um fóstur-
eyðingar og að framfylgja henni „nema með því að ganga mjög nærri
einkamálum manna“ (252), virðast eins myndu hrína á hörðum lögum
gegn til að mynda kynferðislegri áreitni. Eigum við að sætta okkur við
væga og/eða loðmullulega löggjöf á slíkum sviðum eingöngu vegna þessa
framkvæmdavanda ?
Fjórða dæmið sem ég kýs að nefna um ágæti bókar Vilhjálms er um-
fjöllun hans um heilbrigðishugtakið (275-83). Þar tætir hann í sig ýmsar
tískuskilgreiningar nútímans sem vilja gera heilbrigði að samheiti alls
þess sem verðmætt er í mannlífinu og líta á einstaklinginn sem sjúkan
nema hann baði í rósum; njóti meðal annars þeirrar „félagslegu vellíðun-
ar“ (276) sem Vilhjálmur segist með réttu ekki skilja hvað merki! í stað-
inn ver hann hina skynsamlegu (og aristótelísku) „lífhyggju“ Boores þar
sem lífvera eða líffæri er ekki talið sjúk(t) nema hún/það starfi ekki í
samræmi við hið náttúrlega hlutverk sitt. í þessum köflum og mörgum
fleiri sem ekki er tóm að telja upp hér birtast kostir Vilhjálms sem heim-
spekings: heiðrík hugsun, glögg yfirsýn og beitt dómgreind.
II
Meginhugmyndin að baki Siðfrœði lífs og dauða er að sögn höfundar sú
að „bæði siðfræðileg rökræða og siðferðileg samskipti séu bezt skýrð út-
frá samræðum fólks um þau úrlausnarefni sem við er að glíma“. í ljósi
þessa heldur hann því fram að „æskilegt samskiptaform heilbrigðisstétta
og skjólstæðinga þeirra sé samráð sem miðar að því að virkja ábyrgð og
mannúð beggja". Samræðan sé í senn „aðferð til að rökræða erfiðar
ákvarðanir og samveruháttur sem er forsenda góðs mannlífs" (11-12).
Höfuðröksemdin fyrir þessari „samræðusiðfræði" er að slíkt vinnu-
lag tryggi best það sem Vilhjálmur kallar „virðingu fyrir manneskjunni“