Skírnir - 01.04.1996, Side 201
SKÍRNIR
SAMRÁÐ, VIRÐING, VELFERÐ
195
ákjósanlega meðferð. En - gæti tortrygginn lesandi spurt - er ekki með-
ferðin samþykkt vegna þess að hún er rétt fremur en að hún sé rétt vegna
þess að hún er samþykkt (með tilteknum hætti)? Nú er það svo, eins og
ég hef áður bent á,9 að Vilhjálmur er miklu aristótelískari/jarðbundnari
og fágaðri heimspekingur en Habermas, og því geldur hann einfaldlega
jáyrði við spurningu tortryggjandans: „viðmiðunarhugmynd" sín um
samræðuaðstæður skírskoti fremur til aðferðar en innihalds, hún segi til
um það hvernig standa beri að rökræðum en kveði ekki á um niðurstöður
þeirra (35). Vilhjálmur býður raunar sérstakan varnað við þeirri hugmynd
að siðferðileg verðmæti séu ekki annað en samkomulagsatriði, skyn-
samra veljenda eða annarra: „Samræban skapar ekki verðmœti fremur en
hún býr til dygðir; hún eflir dygðir og skerpir hugsun um verðmætí‘ (37).
Hafi ég ætlað að veiða Vilhjálm á beittan öngul skynsemishyggjunn-
ar þá smýgur hann óðar af honum með þessum orðum. Ekki er nægilegt,
að hans dómi, að ákvörðun (til dæmis um siðferðilegt álitamál á sjúkra-
stofnun) sé tekin í krafti samráðs til þess að hún sé rétt; en hann telur
slíkt samráð samt nauðsynlegt, enda ráðist réttmæti siðferðilegra raka
ekki eingöngu af innihaldi þeirra heldur einnig af formlegum skilyrðum
þess að þau séu samþykkt (36-37). Ég hef tvíþætta efasemd um þessa
skoðun Vilhjálms: annars vegar að samráðshugmyndin þjóni þá ekki
lengur því almenna hlutverki sem hann ætlar henni í rökræðu bókarinnar
og hins vegar að samráð sé ef til vill ekki einu sinni nauðsynlegt skilyrði
réttrar ákvörðunar eða þess að sjúklingi sé sýnd tilhlýðileg virðing.
Vilhjálmur teflir samráðsviðhorfi sínu fram sem millileið milli
tveggja öfgaviðhorfa sem mótað hafa rökræður um siðfræði heilbrigðis-
stétta síðustu áratugi. Annars vegar er þvergirðingsleg forræðishyggja (al-
geng fram undir 1970 og enn sums staðar við lýði) sem kveður á um að
nægilegt skilyrði siðlega réttrar ákvörðunar10 í heilbrigðiskerfinu sé að
hún sé tekin af þeim „sem vit hafa á“, venjulega lækni/læknum, óháð
kvabbi og kveinan hinna fákunnandi sjúklinga. Hitt öfgaviðhorfið er
óheft sjálfræðishyggja, er færst hefur mjög í aukana á undanförnum
árum, sem lítur sjúklinga sömu augum og viðskiptavini í krambúð þar
sem „kúnninn hefur alltaf rétt fyrir sér“: gæði þjónustunnar felist í að
uppfylla huglægar, meðvitaðar þarfir hans hér og nú.* 11 Það að sjúklingur
9 „Að vita og vilja“ í Þroskakostum, bls. 40.
10 Ákvörðunin gæti þó vitaskuld reynst hafa einhverjar skaðlegar læknisfræðileg-
ar afleiðingar sem útilokað var að sjá fyrir. Engu að síður væri hún siðlega rétt.
11 Ein ástæða þess hve erfitt er að færa nútíma stjórnkenningar, þar á meðal al-
tæka gæðastjórnun, heim á heilbrigðiskerfið (og raunar einnig skólakerfið) er
að þær ganga flestar út frá slíkri frumstæðri skilgreiningu á gæðum, skilgrein-
ingu sem miðuð er við einföld markaðsviðskipti. Þarfir mínar fyrir ís á heitum
sumardegi kunna að vera af þessu tagi (gegnsæjar, meðvitaðar og skammvinn-
ar) en það eru þarfir mínar sem sjúklings eða skólabarns ekki.