Skírnir - 01.04.1996, Page 211
SKÍRNIR
SAMRÁÐ, VIRÐING, VELFERÐ
205
„rök“.27 Það er einkennilegur brestur í bók sem leggur jafnmikið og raun
ber vitni upp úr virðingu fyrir sjúklingnum sem manneskju, sæmd hans
og samþykki, að hún skuli meina honum að fá að deyja með reisn líka -
þegar lífið er orðið óbærileg kvöl og langþráður dauðinn honum sjálfum
fyrir bestu. Er þá ekki miskunnarlaus forræðishyggja komin í stað heil-
næms samráðs? I Innansveitarkroniku Laxness er sagt frá gamalli konu
sem gekk svo illa að deyja að á endanum varð að hvolfa yfir hana potti.
Ég mæli að vísu ekki með þeirri aðferð en ég mæli gegn laga- og siðakerfi
sem bannar, að minnsta kosti í orði, sams konar líknarverk gagnvart
fólki og það heimilar gagnvart dýrum.
IV
I kínverskri þjóðsögu segir af farandsala nokkrum er hafði á boðstólum
vopn og verjur og gumaði mjög af ágæti þeirra. Kvað hann spjót sín svo
beitt að þau smygju í gegnum hvað sem væri og skildina svo sterka að
þeir veittu hverju eggvopni viðnám. Hann var þá spurður að því hvað
gerðist ef spjót hans og skildir mættust - en við því átti hann að sögn
ekkert svar.
Mér kemur þessi forna dæmisaga jafnan í hug þegar árekstra reglu-
og aðstæðubundinnar siðfræði ber á góma.28 Talsmönnum hinnar fyrri er
einatt lýst svo að þeir séu brynjaðir reglu(m) sem láta eigi í té lausnir á
öllum siðlegum vandamálum og engin vopn nýrra eða sérstakra kring-
umstæðna bíti á. Þeir sem hallir séu undir aðstæðubundna siðfræði brýni
hins vegar odda sérþarfa og -aðstæðna uns þeir finni fangstað á hverri
reglubrynju. Þessar skærur hafa orðið því vinsælla umræðuefni í seinni
tíð sem þær hafa tengst nánar hugmyndum um ólíka siðferðiskennd
kynjanna; en þar segja sumir að eilíft mætist stálin stinn: regluþembingur
karla - næmi og innsæi kvenna.29
27 Grant Gillett viðurkennir slíkt nánast í varnarræðu sinni fyrir þessum greinar-
mun, „Killing, Letting Die and Moral Perception“, Bioethics 8/4 (1994).
28 Varast ber að rugla mun þeirra saman við skilin milli svokallaðra lögmáls- og
leikslokakenninga í siðfræði. Hinar síðarnefndu myndu báðar falla undir
„reglusiðfræði" þótt þær greini á um hvort gildi lögmála sinna helgist af afleið-
ingum þeirra (sbr. leikslokakenningar) eða einhverjum öðrum þáttum (tryggð
við boð skynseminnar, guðlega ráðsályktun o.s.frv., sbr. lögmálskenningar).
29 Frægust formælenda þess sjónarmiðs er Carol Gilligan. Sjá t.d. gagnrýna um-
fjöllun um kenningu hennar í ritgerð Sigríðar Þorgeirsdóttur, „Er til
kvennasiðfræði? Hugleiðingar um hugmyndir Carol Gilligan um siðgæði
kvenna og þýðingu þess fyrir hugmyndafræði íslenskrar kvennapólitíkur", í
Fléttum 1, riti Rannsóknastofu í kvennafræðum, ritstj. Ragnhildur Richter og
Þórunn Sigurðardóttir (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1994).