Skírnir - 01.04.1996, Page 215
GARÐAR BALDVINSSON
Æxlun mynda
Um Ijóðlist Sigfúsar Bjartmarssonar
út um lensportið
Örbylgjuútgáfan 1979
Hlýja skugganna
Mál og menning 1985
Anfjaðra
Mál og menning 1989
Zombíljóðin
Bjartur 1992
Speglabúð í bœnum
Bjartur 1995
LJÓÐ SIGFÚSAR BJARTMARSSONAR hafa yfirleitt vakið verðskuldaða hrifn-
ingu gagnrýnenda, sem bera m.a. lof á hefðbundna þætti hins ljóðræna
og þá ekki síst agað mál, skarpar og hnyttnar myndir og hljómfall. Jafn-
framt hrífast þeir mjög af alþjóðlegu yfirbragði og margræðni ljóðanna.
Þó hefur þeim gramist nokkuð hve heimspeki skipar stóran sess í ljóða-
gerð Sigfúsar og er jafnvel gefið í skyn að ein bóka hans, An fjaðra, hafi
hreinlega misheppnast af þessum sökum. Þannig segir Jón Stefánsson: „I
An fjaðra var heimspekin dragbítur á ljóðið; hugsunin skyggði á ljóð-
rænuna“ (1993, s. 94).1 Dóma af þessu tagi má ef til vill skýra með hlið-
sjón af takmarkaðri og lítt mótaðri heimspekihefð í íslenskri menningu
og þar með e.t.v. nokkru reynsluleysi gagnrýnenda (jafnt sem venjulegra
lesenda) í því að kljást við texta eða hugmyndir af heimspekilegu tagi en
þessa takmörkun hefur Páll Skúlason (1981/1987) t.a.m. skýrt útfrá mik-
illi ást Islendinga á frásögnum.
Ljóð Sigfúsar einkennast mjög af glímu og samræðu við vestræna
heimspekihefð. Hér á eftir mun ég ræða ljóð hans í þessu ljósi og rekja
mig eftir tveimur meginþráðum sem svipar mjög til þeirrar afbyggingar
(,deconstruction) sem franski heimspekingurinn Jacques Derrida iðkar í
skrifum sínum: annars vegar brýtur Sigfús niður mörk heimspeki og
bókmennta, og hins vegar takast ljóð hans í síauknum mæli á við þá
frumspeki hefðarinnar sem lýtur að tungumáli, merkingu og sannleika.
Samfara þessari afbyggingu upphefur Sigfús mörk milli lífs og dauða,
sjálfs og annars, eða skáldskapar og veruleika, en byggir um leið upp
annan heim eða önnur vensl milli fyrirbæra. Af þessu leiðir að hægt er að
lesa ljóðin á marga vegu og útfrá margvíslegu samhengi. Að mínu mati
1 Jón Hallur Stefánsson og Örn Ólafsson eru sama sinnis en taka ekki svona
sterkt til orða.
Skírnir, 170. ár (vor 1996)