Skírnir - 01.04.1996, Page 227
SKÍRNIR
ÆXLUN MYNDA
221
leikara).12 Ljóðið er þó ekki bundið þessari hefð, því lokalínur þess vísa í
tvær ólíkar áttir:
þegar heingiflugið kemur
þegar heingiflugið kemur ertu viðbúinn
I „veruleikritinu" virðist lokalínan taka mjög undir að lífið fylgi fastri
forskrift, þarsem jafnvel (óvænt) endalokin eru fyrirfram þekkt, en í
næstsíðustu línunni kemur fram sterk afbygging slíkrar forskriftar, og
virðist hvert skref stigið í óvissu og lífið líkast fríu falli fram af brúninni.
Oft er sem ljóð Gyrðis leiði til þeirrar hugmyndar að hvorki sé um
tryggingu né kjölfestu að ræða, að ekki sé neinn höfundur, að handritið
sé slitrótt; með öðrum orðum að sú miðaldaheimsmynd sem hér var
nefnd sé alls ekki við lýði lengur. Að þessu leyti vísa ljóð Gyrðis okkur
til þeirrar hugmyndar í síðari bókum Sigfúsar að það sé eitthvað bogið
við þetta „veruleikrit": endanleg merking, æðri tilgangur og samfella
sjálfsverunnar eru sýning, gjörningur. Veruleikurinn verður með öðrum
orðum öllu fremur að veru-leik.
Strax í Hlýju skugganna má sjá vísi að þessari afbyggingu í ljóðinu
„sjálfstæð sýning í Queen’s Street" en það er að vissu leyti sviðsetning á
„veruleikriti“ þarsem lesandanum birtist frásögn af konu í sjálfsvígshug-
leiðingum sem hefur oft áður reynt að fyrirfara sér í vissu um að verða
bjargað.13 Ástæður þessarar hneigðar hennar eru margföld vonbrigði
hennar í lífinu. Samtímis fær lesandinn á tilfinninguna að konan sé alls
ekki öll þar sem hún er séð, að hún viti jafnvel ekki sjálf hvernig eða af
hverju lífið brást, eða hvort hún brást lífinu, eða hvort nokkuð brást
yfirhöfuð. Samanburður við Gyrði undirstrikar þann mun sem er á
aðferðum þessara tveggja skálda. I ljóði Gyrðis, „Skurðpúnktum“, birt-
ist lesandanum til dæmis mynd af blæðandi sól og hann veit ekki fyrr til
en hægar hreyfingar snarbreytast og persónan í ljóðinu bregður „hnífn-
um eld- / snöggt á hálsæðina" (bakvið maríuglerið). Hér sýnir Gyrðir og
lætur lesanda eftir að setja í samhengi. I ljóði Sigfúsar er sýning sjálfs-
vígsins sett í mjög misvísandi samhengi. Tilfinningar konunnar eru sýnd-
ar á fremur raunsæjan hátt með myndum af atferli hennar og hugsun.
Við sjáum og „heyrum“ hana leika sér með líf sitt, þykjast eða hóta að
12 í grein sinni „Dauði höfundarins" ræðir Roland Barthes þessar sifjar nokkuð:
„Höfundurinn er talinn næra bókina sem jafngildir því að segja að hann sé til
á undan henni og hugsi, þjáist og lifi fyrir hana, sé í sams konar stöðu gagn-
vart verkinu og faðir gagnvart barni sínu“ (1991, s. 176-77).
13 Þótt hugmyndin sé ekki fullmótuð í Hlýju skugganna má benda á ljóðin „fyllt
upp í auðn“, „eitt vald gegn öðru“, og „einn smók enn anginn minn“ þarsem
einnig er tekist á við slíkar forskriftarhugmyndir.