Skagfirðingabók - 01.01.1994, Blaðsíða 9
AF SKAFTA FRÁ NÖF OG SKYLDULIÐI
eftir KRISTMUND BJARNASON
I. Upphafsorð
Á árunum milli heimsstyrjaldanna könnuðust allir Skagfirð-
ingar, komnir af ómálga aldri, við Skafta frá Nöf, ýmist af orð-
spori eða í sjón og reynd. Hann varð þjóðsagnapersóna á miðj-
um aldri, sæfarinn, sem hélt uppi samgöngum milli skag-
firzkra hafna og Siglufjarðar, er allra leiðir lágu þangað. Raunar
annaðist Skafti oft flutninga á fleiri norðlenzkar hafnir, ef svo
bar undir. Hann hlóð skip sitt íslenzkum varningi og útlendri
gæzku, fyrrum sýslungum sínum til handa, og annaðist lengi
mjólkurflutninga frá Sauðárkróki til Siglufjarðar og póstflutn-
inga þaðan og þangað. Skagfirzkir og húnvetnskir nemendur,
sem stunduðu nám á Akureyri, fengu endrum og eins far „með
Skafta" á haustdögum eða í jólaleyfum, þótt ekki væri um áætl-
unarferðir til Akureyrar að ræða. Hann skilaði líka á stundum
nemendum langleiðina til átthaganna á vordögum og flestum
Skagfirðingum, sem leituðu sér sumaratvinnu utan héraðs, í og
úr „síld á Sigló". Oft var þröngt setinn bekkurinn „hjá Skafta“.
Það gilti einu, hvaða bát hann var með, allir drógu þeir nafn af
eigandanum. Öllum skilaði Skafti á ákvörðunarstað og barst
aldrei á, þótt vandsiglt þætti löngum á skagfirzkar hafnir.
Skafti hafði alla starfsævina nokkur mannaforráð og þótti fara
vel með völd sín. Hann vildi hvers manns vanda leysa. Þegar
harðast var barizt um silfur hafsins, þótti þeim, sem minnst
máttu sín, gott að eiga hann að.
7