Skagfirðingabók - 01.01.1994, Blaðsíða 155
„SYNGIÐ DROTTNI NÝJAN SÖNG!"
Með hliðsjón af þessum tilvitnunum tek ég hiklaust undir þá
staðhæfingu, sem Jón biskup Helgason setur fram í Kristnisögu
sinni, að Guðbrandur biskup hafí haft næman skilning á þeim
kröfum, sem gera verður til kristilegs sálmakveðskapar.
Ekki hefir verið kannað til neinnar hlítar, hverjir eru höfund-
ar eða þýðendur í þeim sálmabókarútgáfum, sem Guðbrandur
hafði umsjón með, þ.e. í Hólabókinni, 1. og 2. útgáfu, og í 1.
og 2. útgáfu Grallarans. Aðalþýðanda nefnir Guðbrandur í for-
mála sínum í Hólabók aðeins einn, síra Olaf Guðmundsson á
Sauðanesi, vin sinn og skólabróður. Auk áðurnefndra biskupa,
Marteins og Gísla, og sennilega einnig Olafs, hafa eftirfarandi
þýðendur fundizt með vissu: Einar Sigurðsson prestur í Hey-
dölum þýddi tvo sálma, Böðvar Jónsson prestur í Reykholti,
Ólafur Jónsson prestur á Söndum og Oddur Einarsson biskup
sinn sálminn hver, Ólafur Einarsson prestur í Kirkjubæ þrjá og
Guðbrandur biskup tvo. Óvíst er um Magnús Jónsson prúða
og Magnús Ólafsson prest í Laufási. Frumortir eru taldir í mesta
lagi 21 sálmur. Þar af aðeins 10, sem rekja má til nafngreindra
höfunda. Þeir eru Ólafur Guðmundsson prestur á Sauðanesi,
Einar í Heydölum, Magnús Jónsson prúði, Nikulás Narfason
prestur í Hítarnesi, Rafn Þorvaldsson prestur í Saurbæ, Bjarni
Jónsson skáldi, Magnús Sigfússon prestur og Guðmundur Er-
lendsson prestur. Aðeins sr. Ólafur á Sauðanesi og Bjarni skáldi
eiga með vissu tvo sálma hvor, hinir allir einn, sem um er vitað
með vissu. Athyglisvert er, að frumortu sálmarnir skera sig yf-
irleitt úr hvað trúarlegan innileik og skáldleg tilþrif varðar.
Svo virðist sem viðtökurnar, sem hin nýja sálmabók fékk í
fyrstu, hafi ekki verið sem beztar. I bréfi til Böðvars prests í
Reykholti, dagsettu á öðrum degi í einmánuði 1590, kemur
skýrt í ljós, að ýmsir hafa þá þegar hafið harða atlögu að sálm-
unum og fundið þeim margt til foráttu. Skynsamlegum at-
hugasemdum tekur biskup vel, t.d. frá sr. Böðvari og Oddi
biskupi, og telur þær runnar af góðvild. En við öðrum mönn-
um, sem einnig hafa veitzt að sálmabókinni og biskup nefnir
153