Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1992, Page 15
MÚLAÞING
13
yfir. Engar skarir að ánni og auð jörð vestan ár. Þangað hafði haustkálf-
urinn ekki náð. Að ánni kom Illugi í Reykjahlíð á bíl eftir nýlegri bíla-
slóð yfir Mývatnsöræfi.
Að Laugum komum við degi síðar en skólasetning átti að fara fram,
en skólastjórinn ágæti og tillitssami, Leifur Ásgeirsson, hafði svo mikið
við okkur að fresta skólasetningunni um þennan dag okkur austanmönn-
um til heiðurs og þægðar.
*
Þetta átti aðeins að verða ferðasaga, en þó mætti bæta við hana
nokkrum niðurlagsorðum.
I hönd fór skemmtilegur vetur og gagnlegur. Skólalífið var glaðlegt
og ástundun náms yfirleitt góð, enda kennarar boðnir og búnir að veita
aðstoð og leiðbeina umfram það sem skylduverkahringur lagði þeim á
herðar. Minnisstæðastur verður mér þó lengst Leifur skólastjóri sakir
lipurðar, dugnaðar og fleiri mannkosta. Það var ekki hans sök né skól-
ans að neinu leyti - að ég fékk með vori fjárgróðaglýjur í augu. Eg var
ráðinn á metaflabát í Vestmannaeyjum, eiginlega að mér forspurðum,
og kannski tímdi eg ekki að hætta á honum um haustið. Eg veit það
ekki, en eg festist að einhverju leyti í þeim lífsgildum sem mölur og ryð
eyða, a.m.k. vetri fyrr en skyldi, fór ekki aftur í skóla. Eigi að síður mun
þessi vetur á Laugum ekki hafa dregið úr þeinr trúnaðarstörfum sem eg
hef flækst í heima í sveit minni Fáskrúðsfjarðarhreppi. Þau hafa aldrei
verið fleiri en nú við upphaf áttræðisaldurs.
Að endingu ætla eg að segja frá einu atviki. Eg var með trillubát full-
orðinn orðinn og beðinn að skjóta málvini mínum af Jökuldalnum í
ferðinni góðu yfir fjörðinn. Benedikt lék á alsoddi eftir heimsókn til
skyldmenna í Fáskrúðsfirði, og nú var hann kominn ofan í bátinn til
mín. Þá gat eg ekki stillt mig um að segja honum hver eg væri og minna
hann á tiltalið í bílnum. Þá brá svo við að hann þagnaði og yrti ekki á
mig í sjóferðinni, og hann yfirgaf bátinn á áfangastað án þess að þakka
fyrir flutninginn eða kveðja. Þetta varð mér ráðgáta. Voru það orðalepp-
amir sem þögn hans ollu? Eða var það kannski sjálfbirgingshátturinn
gagnvart Heiðinni sem átti það til að leggja hvítavoðir yfir þá sem buðu
henni birginn?
Þessi frásögn var send nokkrum þátttakendum f ferðinni til leiðréttinga og athugasemda.
Enginn svaraði skriflega nema Þórhallur Guttormsson, en fleiri létu þó í sér heyra. Ein-
hverjunt þeirra þótti Jón gera fullmikið úr sjálfum sér í ferðinni. Jón telur það eðlilegt, “eg
var sagður sprækmontinn á þessari tíð.” - Á.H.