Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2009, Blaðsíða 27
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 2. tbl. 85. árg. 2009 23
Þar er rætt um endurhæfingarhjúkrun
bæklunarsjúklinga, sjúklinga sem hafa
fengið heilablóðfall, taugasjúkdóma,
heilaskaða, langvinna sjúkdóma
eða mænuskaða. Varðandi hjúkrun
sjúklinga með langvinna sjúkdóma
fannst mér sérstaklega athyglisvert
að lesa umræðu um hvernig
endurhæfingarhjúkrunarfræðingar
eru hvattir til að styðja fólk með
langvinna sjúkdóma til að verða
sjálfbjarga í daglegu lífi og við að
notfæra sér ýmis úrræði sem beitt er
í endurhæfingarmeðferð.
Í 12. og síðasta kaflanum horfir
ritstjórinn, Rebecca Jester, fram
á veginn og þar kemur fagþróun
hjúkrunarfræðinga við sögu og
mikilvægi þess að byggja störfin
á gagnreyndri þekkingu. Fleiri
sjúklingahópar en framangreindir
þiggja gjarnan þjónustu endur
hæfingarhjúkrunarfræðinga. Má þar
nefna fólk með hjartasjúkdóma,
lungna sjúkdóma og geðsjúkdóma og
hefði verið áhugavert að sjá nánari
umfjöllun um endurhæfingarhjúkrun
þessara hópa því þó að sumt af
því sem fram kemur í bók Jester
megi vissulega yfirfæra á aðra
sjúklingahópa, þá hefur hver hópur
að ýmsu leyti sínar sérþarfir.
Sem endurhæfingarhjúkrunarfræðingi
í 20 ár finnst mér þessi bók mjög
áhugaverð og til þess fallin að hvetja
hjúkrunarfræðinga til þess að færa
hjúkrun í átt að hugmyndafræði
endurhæfingar í fjölbreyttu samhengi
um leið og þeir huga að sinni
starfsþróun.
Jónína Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur,
MS, er sérfræðingur í endurhæfingarhjúkrun á
Reykjalundi.
Bréf frá lesendum
Í síðasta tölublaði var grein um gamla sjúkrahúsið á Ísafirði. Sigþrúður
Ingimundardóttir, fyrrverandi formaður Hjúkrunarfélags Íslands, deilir hér
nokkrum minningum um Bjarneyju Samúelsdóttur, en vitnað var í grein sem
hún skrifaði um spítalann 1926.
Sæll og blessaður, Christer, og kærar þakkir fyrir gott blað. Gaman að sjá nýtt
útlit í tilefni af afmælisárinu og flott að skipta efninu í þrennt. Bara til gamans
smá-hugleiðing frá gamalli ritstjórnarkonu. Kemur ekki fólkið fyrst, síðan er
myndað um það félag og starfið, sem er fagið, kæmi síðast.
Viðvíkjandi sjúkrahúsinu á Ísafirði þá setti Vestfjarðadeildin fyrir nokkrum
árum upp svo skemmtilega minjasýningu á efstu hæð gamla spítalans. Þar
var birtingarmynd hjúkrunar eins og hún var á þeim tíma er spítalinn starfaði.
Gæti trúað að hún væri þar enn. Bjarney Samúelsdóttir var heiðursfélagi í
Hjúkrunarfélagi Íslands. Ég heimsótti alltaf heiðursfélagana fyrir jólin þegar ég var
formaður og færði þeim jólagjöf. Bjarney var ótrúleg kona og hélt sinni andlegu
reisn allt fram í andlátið.
Bjarney átti íbúð í Eskihlíð 6 en þar bjuggu margar hjúkrunarkonur. Höfðu keypt
þar íbúð þegar verið var að byggja blokkina vegna nærveru við Landspítalann og
Heilsuverndarstöðina. Í þá daga var bílinn ekki eins algengur og í dag. Föðurbróðir
minn og hans kona bjuggu á efstu hæðinni og mikill vinskapur á milli þeirra. Ef
frændi var eitthvað slæmur í baki gaf Bjarney honum bakstra og nudd. Konan
hans fór heldur aldrei að sofa fyrr en hún var búin að fara niður til Bjarneyjar
og bjóða henni góða nótt. Það þurfti ekki krepputal til að náungakærleikurinn
blómstraði þar. Föðurbróðir minn og hans kona voru barnlaus en þau arfleiddu
Barnaspítala Hringsins að íbúðinni í Eskihlíð. Hún er mikið notuð af barnafólki
utan af landi. Þær segja mér að börnunum þyki gott að vita hvar húsið er sem
pabbi og mamma eru í meðan þau dvelja á spítalanum.
Bjarney var alltaf búin að baka fyrir jólin þegar ég kom til hennar. Börnin mín,
sem þá voru smá, komu alltaf með mér í þessar heimsóknir og nutu góðs
af jólasmákökum á báðum hæðum. Hjördís heitin Biering, hjúkrunarkona og
eiginkona Gunnars Bierings barnalæknis, var frænka Bjarneyjar. Þau hjón
hugsuðu mjög vel um Bjarneyju. Þegar Bjarney varð níræð hélt hún upp á það
heima hjá sér með hjálp frænku sinnar og hennar fjölskyldu. Þar var Vigdís,
fyrrverandi forseti, en móðir hennar, Sigríður Eiríksdóttir, og Bjarney voru miklar
vinkonur. Þær störfuðu saman í stjórn félagsins í áraraðir, Sigríður sem formaður
og Bjarney var gjaldkeri. Hún fór um alla Reykjavík á hjólinu sínu og rukkaði
félagskonur um félagsgjaldið. Það er gaman að félagið á hjólið í dag og einnig
kápuna sem hún var í við heilsuverndarstörfin í bænum, en þar var hún einnig á
hjólinu. Ótrúlegar sporgöngukonur sem við síðan fetum í slóðina af í dag.
Held að ég sé að verða gömul, eru ekki fyrstu teiknin að ganga í minninga-
sjóðinn?
Ritstjóri svarar:
Kærar þakkir fyrir þetta, Sigþrúður. Ritstjóri heimsótti
Safnahúsið á Ísafirði í fyrrasumar og var þá sýningin
þar enn. Þetta voru áhugaverðir munir, uppsettir á
skemmtilegan hátt. Þegar ég skrifaði greinina þekkti ég
lítið til Bjarneyjar en hef nú kynnt mér störf hennar betur.
Tímarit hjúkrunarfræðinga mun birta meira efni um og eftir
hana seinna á þessu afmælisári.