Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2009, Síða 37

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2009, Síða 37
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 2. tbl. 85. árg. 2009 33 skjólstæðingar nú sívaxandi kröfur um þjónustu og upplýsingar. Starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga er víða ábótavant og skortur hefur verið á mannafla. Starfsemi hefur aukist og álag og sérhæfing innan hjúkrunarsviða vaxið. Allt þetta krefst sífellt meira af hjúkrunarfræðingum til að veita örugga og áhrifaríka hjúkrun. Krefjandi starfsaðstæður Störf hjúkrunarfræðinga eru yfirleitt unnin í streitukenndu umhverfi og víða eru vandamál í starfsumhverfinu sem tengjast vinnutilhögun og mannauðsstjórnun. Hjúkrunarstarfið krefst mikils af hjúkrunarfræðingum bæði sálrænt og líkamlega. Mannekla hefur aukið verulega vinnuálag hjúkrunarfræðinga og eru þeir sú stétt innan heilbrigðisgeirans sem finnur fyrir mesta álaginu (International Council of Nurses, 2001). Fjöldi rannsókna sýnir að hjúkrunarfræðingar eru ósáttir við sjúkrahússtörf vegna erfiðra vinnuaðstæðna. Margar vísbendingar eru um að óheilbrigt starfsumhverfi valdi mistökum eða óæskilegum atvikum, ófullnægjandi umönnun og ágreiningi og streitu meðal heilbrigðisstarfsfólks (American Association of Critical­Care Nurses, 2005). Það þarf sífellt að leggja harðar að sér, verja minni tíma hjá hverjum sjúklingi, hafa umsjá með fleiri sjúklingum og leysa fleiri verkefni á meiri hraða en áður án þess þó að kostnaður aukist. Langvarandi álag og streita hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og öryggi starfsmanna og geta leitt til alvarlegra streituviðbragða, s.s. kulnunar, sé ekkert að gert. Þetta eykur starfsmannaveltu, dregur úr gæðum hjúkrunar og veldur því að fleiri hverfa frá hjúkrun. Félög hjúkrunarfræðinga margra landa hafa áhyggjur af versnandi starfs­ aðstæðum vegna aukins vinnu álags, minni tíma fyrir umönnun sjúklinga og vaxandi líkinda á að hringt sé í starfsfólk utan vinnutíma til að fá það til að taka aukavakt (International Council of Nurses, 2001). Ýmsir skipulagsþættir í starfsumhverfinu hafa áhrif á hjúkrunarfræðinga sem og gæði og öryggi hjúkrunar, eins og vaktafyrirkomulag, yfirvinna, fækkun í mannafla, vinnulag, verklags reglur, vinnuleiðbeiningar og stofnana bragur. Mikið álag, streita og þreyta hjúkrunar­ fræðinga leiða til fleiri óheppilegra atvika og mistaka. Einnig geta samskiptaerfið­ leikar komið í veg fyrir að skjólstæðingar fái örugga og framúrskarandi þjónustu. „Heilbrigðisstarfsfólk þarf sífellt að leggja harðar að sér, verja minni tíma hjá hverjum sjúklingi, hafa umsjá með fleiri sjúklingum og leysa fleiri verkefni á meiri hraða en áður án þess þó að kostnaður aukist.“ Hjúkrunarfræðingar vinna oft margar og langar vaktir. Tímalengd vinnu, yfirvinna og fjöldi vinnustunda á viku hafa mikil áhrif á líkur á mistökum í starfi (t.d. lyfjamistökum) og aukast þær eftir því sem vinnutími lengist. Ef vakt er 12 klukkustundir eða lengri tvö­ til þrefaldast hættan á mistökum. Reyndar nægir það eitt að yfirvinnu sé bætt við vinnutíma, óháð því hve löng vakt átti að vera (Rogers o.fl., 2004). Fjöldi hjúkrunarfræðinga á vakt hverju sinni hefur áhrif á hvernig sjúklingum reiðir af, hættu á óæskilegum atvikum, lengd legutíma og dánartíðni sjúklinga. Rannsókn, sem gerð var í Bandaríkjunum þar sem könnuð voru áhrif mönnunar í hjúkrun á afdrif sjúklinga, sýndi að við hvern nýjan sjúkling, sem bætt var í umsjá hjúkrunarfræðings, jukust líkurnar á dauða innan 30 daga frá innlögn um 7%. Breyting úr fjórum í átta sjúklinga jók dánartíðni um 31%. Rannsakendur ætla að rekja megi um 20.000 óþarfadauðsföll sjúklinga í Bandaríkjunum ár hvert til of hás hlutfalls sjúklinga á hjúkrunarfræðinga (Aiken o.fl., 2002). Hvað finnst hjúkrunarfræðingum um starfsumhverfi sitt? Víða telja hjúkrunarfræðingar að mannafli í hjúkrun sé kominn niður fyrir öryggismörk og það ógni gæðum hjúkrunar og hafi áhrif á afdrif sjúklinga. Rannsóknir hafa sýnt að hjúkrunarfræðingar ná ekki að sinna öllum hjúkrunarþörfum sjúklinga vegna tímaleysis. Einnig hefur komið fram að mörgum þeirra finnst verkefni, sem ekki snúa beint að hjúkrun, færast í aukana (Aiken o.fl., 2001). Rannsóknir hafa sýnt að hjúkrunarfræðingar verja aðeins um þriðjungi af vinnutíma sínum í beina hjúkrun en allt að helmingi hans til stjórnunarverkefna (Tucker og Spear, 2006) Þannig draga ýmsir þættir úr skilvirkni og hindra að hjúkrunarfræðingar nái að ljúka verki á tilsettum tíma. Þeir þurfa stöðugt að huga að því hvað annað starfsfólk er að gera til að hafa yfirsýn og verða oft fyrir truflun við störf sín. Stjórnunarstöðum á sumum sjúkrastofnunum hefur fækkað þannig að óbreyttir hjúkrunarfræðingar geta þurft að bera meiri ábyrgð og sinna fleiri skyldum tengdum stjórnun og allt tekur þetta tíma frá beinni hjúkrun. Þættir eins og mikil „pappírsvinna“, afkastalítið samskiptakerfi, fjöldi símtala, úreltir vinnuferlar og aðrir erfiðleikar hindra enn frekar að hægt sé að veita skilvirka og sæmandi hjúkrun. Árið 2008 var gerð rannsókn á vinnu og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítala undir stjórn Helgu Bragadóttur, lektors í hjúkrunarfræði. Gera má ráð fyrir að með rannsókninni fáist nauðsynleg þekking á íslenskum starfsaðstæðum. Kannanir meðal hjúkrunarfræðinga á starfsumhverfi þeirra hafa leitt í ljós að þeim finnist vinnuálag mikið, að hjúkrunarþyngd fari vaxandi og að tími til beinnar hjúkrunar og gæði hennar fari minnkandi. Einnig þurfi sumir hjúkrunarfræðingar að sleppa matar­ og kaffitímum til að sinna sjúklingum, þeir finni fyrir auknum þrýstingi til að ljúka vinnu og vinna yfirvinnu (Goodin, 2003). Sumir hjúkrunarfræðingar álíta einnig að bráð og langvinn áhrif streitu og of mikillar vinnu ógni öryggi þeirra og heilsu. Sumir telja einnig öryggi sínu sem fagfólks vera ógnað af starfsumhverfinu og finnst þeir æ oftar lenda í þeirri aðstöðu að þeir eigi erfitt með að bera ábyrgð á aðstæðum á vinnustað (Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, 2006).

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.