Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2009, Qupperneq 57
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 2. tbl. 85. árg. 2009 53
Ritrýnd fræðigrein
mikilvægt er að fólk með sykursýki hreyfi sig, svo sem að
hreyfing auki upptöku á sykri til vöðvafrumna og að hreyfing
auki næmi insúlíns (Hanas, 1998; Watkins o.fl.,1996). Það
er sérlega mikilvægt fyrir fólk með sykursýki af tegund 2 þar
sem næmi insúlínviðtaka er oft minna en eðlilegt er (Hanas,
1998; Stumvoll o.fl., 2005; UKPDS, 1998). Notaðar hafa verið
rannsóknir úr gagnabanka Cochrane til að skoða kerfisbundið
áhrif hreyfingar á blóðsykurstjórn. Thomas o.fl. (2007) fundu,
þegar bornir voru saman hópar með og án hreyfingar, að
hreyfing lækkaði HbA1cgildið um 0,6% og ekki var getið um
neikvæð áhrif hreyfingar. Önnur Cochranerannsókn sýndi að
áhrif af bættu mataræði jukust þegar hreyfing var stunduð
samhliða meðferðinni (n = 3476) þar sem fólk léttist meira og
blóðþrýstingur og blóðfita lækkuðu meira en ef meðferðin fólst
eingöngu í breytingum á mataræði (Shaw o.fl., 2007). Þessu til
viðbótar sýndi finnsk rannsókn, sem fylgdi 3708 einstaklingum
með sykursýki af tegund 2 eftir í 18,7 ár að meðaltali, að hægt
var að draga úr dauðsföllum af völdum hjarta og æðasjúkdóma
ef fólk jók hreyfingu sína úr lítilli hreyfingu í meðalhreyfingu (Hu
o.fl., 2005). Takmarkanir rannsóknarinnar eru helstar þær að
fólkið sjálft mat hve mikið það hreyfði sig en vitað er að fólk
ofmetur oft hreyfingu sína.
Þar sem sjálfsumönnunarsviðin eru svo mismunandi
má búast við að fólk temji sér mismunandi hegðun eftir
sjálfsumönnunarsviði og rannsóknir staðfesta að svo er
(Corbett, 1999; Toljamo og Hentinen, 2001; Weinger o.fl.,
2005). Þau svið sjálfsumönnunar, sem erfiðast er fyrir fólk með
tegund 1 að kljást við, eru mataræði og umönnun sykursýki
fjarri heimili sem og aðlögun insúlíns að breytilegum þörfum
(Corbett, 1999; Ruggiero o.fl., 1997). Mataræði og hreyfing
valda fólki með sykursýki af tegund 2 mestum vandkvæðum
(Nagelkerk o.fl., 2006; Vijan o.fl., 2005). Hvernig fólki tekst upp
með sjálfsumönnun á hinum fjórum sviðum sjálfsumönnunar er
háð persónubundnu þáttunum þremur sem fjallað er um hér
á eftir.
PERSÓNUBUNDNIR ÞÆTTIR
Þekking
Kerfisbundnar athuganir á rannsóknum annarra sýna að
þekking er forsenda sjálfsumönnunar (Ellis o.fl., 2004; Norris
o.fl., 2001), bæði í sykursýki af tegund 1 (Brown, 1992;
Ruggiero o.fl., 1997) og tegund 2 (Norris o.fl., 2002). Þekking
á sykursýkinni virðist hafa áhrif á hvernig fólk skipuleggur
umönnun sína. Coates og Boore (1996) sýndu fram á að fólk
með litla kunnáttu (n = 213) fór oftar óvirkt eftir leiðbeiningum
um sjálfsumönnun fremur en að taka virkan þátt í að aðlaga
sjálfsumönnunina að lífi sínu. Aðrar rannsóknir styrkja það að
þekking er forsenda þess að ná sveigjanlegri sjálfsumönnun
(Price, 1993) og ná jafnvægi í lífi með sykursýki (Paterson o.fl.,
1998).
Almennt virðist fólk með sykursýki hafa næga þekkingu
á sykursýkinni (Ellis o.fl., 2004; Trento o.fl., 2002). En oft
virðist lítið samhengi vera milli þekkingar, sjálfsumönnunar og
jafnvel langtímablóðsykurgildis. Í kerfisbundnu yfirliti Norris
og félaga (2001) á 72 meðferðarrannsóknum (RCT) kom
fram að ekki var alltaf samband milli aukinnar þekkingar og
bættrar blóðsykurstjórnunar. Aðrar rannsóknir leiða svipaðar
niðurstöður í ljós (Brown, 1992). Hins vegar er þekking
sjaldan metin eftir fræðslu og ólík mælitæki eru notuð ef mat
er gert (Norris o.fl., 2001; Sigurdardottir o.fl., 2007). Þörf
er á alþjóðlegum rannsóknum sem nota alþjóðlega stöðluð
matstæki til að meta áhrif þekkingar á hegðun fólks með
sykursýki.
Líkamleg færni og umhirða
Líkamleg færni og umhirða á hinum fjórum sviðum sjálfs
umönnunar er grundvallaratriði fyrir fólk með sykursýki. Klínískar
leiðbeiningar miðast við að heilbrigðisstarfsfólk fræði um og
meti hvort fólk sé fært um að temja sér og viðhalda hollum
matarvenjum (Funnell o.fl., 2008; IDF, 2006), t.d. við innkaup
með því að kunna að lesa á umbúðir. Við mælingar á blóðsykri
verður að nota réttan útbúnað og framkvæmdin verður að
vera rétt. Við inntöku lyfja verður að fara eftir leiðbeiningum
og hreyfingu verður að miða við fæðu og lyfjainntöku (Kunar,
2002; Mulcahy o.fl., 2003).
Mikilvægi líkamlegrar færni og umhirðu kemur vel í ljós
þegar efni meðferðarrannsókna er skoðað. Tíu af átján
meðferðarrannsóknum í samantekt Sigurdardottir o.fl. (2007)
tóku mið af öllum fjórum sviðum sjálfsumönnunar þegar
líkamleg færni og umhirða var kennd fólki með sykursýki.
Þetta er samhljóða niðurstöðum úr kerfisbundnum yfirlitum
Bodenheimer og félaga (2002) og Norris og félaga (2001) sem
greindu að flestar meðferðarrannsóknir, sem þau skoðuðu,
fólu í sér kennslu um líkamlega færni og umhirðu. Niðurstaða
þeirra var að líkamleg færni og umhirða var sjaldan metin eftir
fræðslu og ólík mælitæki voru notuð ef mat var gert. Rýrir
það áreiðanleika niðurstaðna. En mæling og mat á líkamlegri
umhirðu og færni við líkamlega umhirðu getur verið erfið og
oft er stuðst við frásögn fólksins sjálfs og hún getur verið
ónákvæm (Weinger o.fl., 2005). Þörf er á fleiri rannsóknum.
Streita og þunglyndi
Þekkt er að sykursýki eykur hættu á að fólk finni fyrir streitu
og þunglyndi (Lustman o.fl., 2000; Polonsky o.fl., 1995). Fólk
með sykursýki þarf stöðugt að sinna sjálfsumönnun og þess
vegna getur sjálfsumönnun oft verið íþyngjandi og getur það
aukið hættu á streitu. Sýnt hefur verið fram á að streita dregur
úr sjálfsumönnun (Herschback o.fl., 1997; Weinger o.fl., 2005).
Mikið er um streitu og þunglyndi meðal fólks með sykursýki
og er þunglyndi talið vera allt að þrisvar sinnum algengara
hjá fólki með sykursýki en hjá almenningi (Barnard o.fl., 2006;
GonderFredrick o.fl., 2002). Þar sem streita og þunglyndi
dregur úr dug sykursýkissjúklinga við sjálfsumönnun má ætla
að andlegt ójafnvægi hafi áhrif á blóðsykurstjórn. Kerfisbundið
yfirlit Lustman o.fl. frá árinu 2000, þar sem notuð voru gögn úr
26 þversniðskönnunum, sýndi að þunglyndi hafði tölfræðilega
marktæka fylgni við of háan blóðsykur (p < 0,0001). Önnur
kerfisbundin yfirlit staðfesta að samband er á milli þunglyndis
og lélegrar blóðsykurstjórnunar en greina ekki hvort þunglyndi
sé orsök eða afleiðing slæmrar blóðsykurstjórnunar (Barnard
o.fl., 2006; GonderFredrick o.fl., 2002).