Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2013, Side 45
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 3. tbl. 89. árg. 2013 41
Ritrýnd fræðigrein
SCIENTIFIC PAPER
hegðun sem nauðsynleg er talin til að viðhalda og bæta heilsu
(Redman, 2004). Mikilvægi sjúklingafræðslu á Íslandi endur
speglast í lögum um réttindi sjúklinga (74/1997) og í siðareglum
hjúkrunarfræðinga þar sem kveðið er á um að hjúkrunarfræðingur
skuli stuðla að því að skjólstæðingar geti tekið upplýsta ákvörðun
(Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, e.d).
Eflandi sjúklingafræðsla er hugmyndafræði þar sem litið
er á eflingu (e. empowerment) sjúklinga sem markmið
sjúklingafræðslu (LeinoKilpi o.fl., 2005). Þekking er ein af
forsendum eflingar og þekking, sem styður eflingu, hefur
verið flokkuð í sex svið: lífeðlisfræði, færni, reynslu, siðfræði,
félagslega þætti og fjárhag (Rankinen o.fl., 2007). Fræðsla
getur aukið þekkingu og sjúklingar geta greint hvaða þekkingu
þá skortir og þeir hafa því ákveðnar væntingar til fræðslu þegar
þeir hitta heilbrigðisstarfsfólk, til dæmis fyrir skurðaðgerðir.
Gervi liðasjúklingar vænta fræðslu á mörgum sviðum, meðal
annars á hverju megi eiga von í aðgerðar og bataferlinu (Soever
o.fl., 2010). Mikilvægt er fyrir árangursríka sjúklingafræðslu að
væntingar sjúklinga séu greindar og að með fræðslunni sé
leitast við að sinna þeim á einstaklingsbundinn hátt (Suhonen
og LeinoKilpi, 2006). Rannsóknir benda til þess að algengt sé
að fræðsluþörfum skurðsjúklinga sé ekki nægilega vel sinnt en
þó í mismunandi mæli eftir sviðum (Heikkinen o.fl., 2007; Katrín
Blöndal o.fl., 2011; Rankinen o.fl., 2007).
Rannsóknir á áhrifum sjúklingafræðslu til skurðsjúklinga
almennt og gerviliðasjúklinga sérstaklega gefa til kynna að
fræðslan geti haft margvísleg jákvæð áhrif þótt þörf sé á fleiri
og vandaðri rannsóknum. Þannig geti hún minnkað kvíða fyrir
aðgerð (McDonald o.fl., 2004), aukið þekkingu (Fredericks
o.fl., 2010; Johansson o.fl., 2005; Ronco o.fl., 2012) og bætt
sjálfsumönnun, þar með talið verkjameðferð (Barksdale og
Backer, 2005; Fredericks o.fl., 2010; Kearney o.fl., 2011).
Fræðsla hefur einnig verið tengd við styttingu legutíma (Yoon
o.fl., 2010) og færri byltur eftir aðgerð (Clarke o.fl., 2012) .
Heilsutengd lífsgæði
Heilsutengd lífsgæði eru algengt árangursmat þegar árangur
gerviliðaaðgerða er metinn og nokkur matstæki hafa verið búin
til í þeim tilgangi (Ethgen o.fl., 2004). Hugtakið heilsutengd
lífsgæði er margslungið og ekki er til ein viðurkennd skilgreining
á því en segja má að matstækin, sem notuð eru, leggi þar
línurnar. Gerviliðaaðgerðir bæta heilsutengd lífsgæði sjúklinga,
þó frekar hjá sjúklingum sem fara í mjaðmaskipti en hnéskipti,
karlmönnum virðist gagnast aðgerðin betur en konum og því verri
sem heilsutengd lífsgæði eru fyrir aðgerð því meira batna þau.
Mestar framfarir verða á fyrstu 3 til 6 mánuðum eftir aðgerðina
(Ethgen o.fl., 2004). Sjúklingar binda miklar vonir við aðgerðina,
iðulega mun meiri en skurðlæknarnir (Moran o.fl., 2003).
Þegar væntingar eru óraunhæfar hefur verið bent á mikilvægi
góðrar fræðslu til að koma til móts við væntingar enda hafi
það jafnframt áhrif á ánægju sjúklinga með aðgerðina (Gandhi
o.fl., 2010; Nilsdotter o.fl., 2009). Ekki er ljóst hvort og hvaða
tengsl eru á milli sjúklingafræðslu og hvernig sjúklingar meta
heilsutengd lífsgæði sín og heilsufar. Í rannsókn LeinoKilpi o.fl.
(2005) kom í ljós jákvætt, marktækt samband á milli þekkingar,
sem skurðsjúklingar töldu sig hafa öðlast í sjúkrahúsdvölinni, og
heilsutengdra lífsgæða stuttu eftir skurðaðgerð. Einnig fannst
jákvætt, marktækt samband á milli ánægju með fræðslu í
tengslum við gerviliðaaðgerð og sjálfsmats á eigin heilsu, ári eftir
aðgerð, í rannsókn Baumann o.fl. (2009).
Sjúklingafræðsla er mikilvægur hluti af aðgerðarferli gerviliða
sjúklinga og virðist geta haft áhrif á bata þeirra og jafnvel
árangur aðgerðar. Hjúkrunarfræðingar þurfa að þekkja
fræðsluþarfir sjúklinga sinna svo þeir geti mótað fræðsluefni
sem dugir sjúklingunum. Efling sem markmið sjúklingafræðslu
samrýmist bæði lögum um réttindi sjúklinga og siðareglum
hjúkrunarfræðinga þar sem áhersla er lögð á virka þátttöku
sjúklinga í meðferð, ábyrgð þeirra á eigin heilsu og aukna
sjálfsumönnun.
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvernig gerviliða
sjúklingar telja að væntingum sínum til fræðslu hafi verið sinnt
á íslenskum sjúkrahúsum, tengslum þess við heilsutengd
lífsgæði og hvort mat þeirra breytist eftir hálft ár.
Rannsóknin er hluti af samstarfsverkefni fræðimanna í sjö
Evrópulöndum um eflandi sjúklingafræðslu meðal sjúklinga
sem fá gerviliði. Rannsóknaráætlunin var unnin af hópnum og
ábyrgðarmaður var dr. Kirsi Johansson við hjúkrunarfræðideild
háskólans í Turku í Finnlandi.
Eftirfarandi rannsóknarspurningar voru settar fram:
1. Hverjar eru væntingar sjúklinga, sem eru á leið í gerviliða
aðgerð, til fræðslu og hvaða bakgrunnsbreytur tengjast þeim?
2. Hvaða fræðslu telja sjúklingar sig hafa fengið á sjúkrahúsinu
þegar þeir eru spurðir við útskrift og hálfu ári síðar og hvaða
bakgrunnsbreytur tengjast fenginni reynslu af fræðslu?
3. Hver er mismunurinn á væntingum til fræðslu og fenginnar
fræðslu, hvaða bakgrunnsbreytur tengjast þeim mismun og
verður breyting á mati sjúklinga þegar þeir eru spurðir við
útskrift og hálfu ári síðar?
4. Hver eru heilsutengd lífsgæði sjúklinga fyrir, stuttu eftir og
hálfu ári eftir gerviliðaaðgerð og hvaða bakgrunnsbreytur
tengjast þeim?
5. Hver eru tengsl heilsutengdra lífsgæða og mismun á
væntingum til fræðslu og fenginni fræðslu?
AÐFERÐ
Rannsóknarsnið
Þetta er framvirk, lýsandi samanburðarrannsókn með þremur
mælipunktum: tími 1 fyrir aðgerð og fyrir formlega fræðslu
um aðgerðina, tími 2 við útskrift eftir aðgerð á sjúkrahúsinu
eftir útskriftarfræðslu og tími 3 67 mánuðum eftir aðgerð.
Samkvæmt aflútreikningi, þar sem miðað var við aflstuðul 0,90,
staðalfrávik 0,95 og marktektarmörk 0,05, þarf 220 sjúklinga til
að finna mun á fræðslu á tíma 1 og 2.
Þátttakendur
Þýðið var sjúklingar á Íslandi sem fóru í skipulagðar gerviliða
aðgerðir á mjöðm eða hné vegna slitgigtar. Í úrtaki voru allir