Skólavarðan - 01.12.2012, Blaðsíða 30
30
Skólavarðan 2. tbl. 2012
Faghandleiðsla
fyrirbyggir kulnun í starfi
sérfræðingurinn
Texti: GG Mynd: Frá viðmælanda
Viðtal við Guðrúnu Sederholm MSW, fræðslu-og
skólafélagsráðgjafa, náms-og starfsráðgjafa og kennara.
Oft og tíðum koma upp samskiptamál í
skólum á öllum skólastigum sem erfitt er
að greiða úr. Fáir vinnustaðir eru jafn
flóknir og skólar og þeir sem hagsmuna
eiga að gæta hafa ólík sjónarhorn sem
geta stangast illa á. Hvað er þá til ráða?
Skólavarðan fór á fund Guðrúnar
Sederholm fræðslu- og skólafélagsráð-
gjafa og leitaði upplýsinga hjá henni um
faghandleiðslu en hún hefur handleitt
ótal marga meðal annars á vettvangi
skóla um áratuga skeið. „Faghandleiðsla
er aðferð sem hjálpar fólki, einstaklingum
eða í hópum, að þroskast í starfi,“ segir
Guðrún. „Hún leiðbeinir fólki við að beita
faglegum aðferðum við krefjandi
aðstæður í stað þess að láta hömlulausar
tilfinningar ráða för. Með faghandleiðslu
getur fólk nýtt betur hæfni sína, aukið
gæði vinnuframlags síns og eflt
samskiptahæfni sína. Þegar fólk hefur
notið faghandleiðslu áttar það sig oft
betur á uppbyggingu, markmiðum og
möguleikum vinnustaðarins um leið og
handleiðslan opnar leiðir innanhúss sem
nýta má til lausna. Síðast en ekki síst
hjálpar faghandleiðsla fólki að greina á
milli einkalífs og starfs“.
Guðrún segir að kennarar og skóla-
stjórnendur leiti eftir handleiðslu af
ýmsum ástæðum. Oft eru skólastjórn-
endur í vanda sem snýr að einstökum
starfsmönnum eða foreldrum. Kennarar
leiti handleiðslu vegna samskipta við
foreldra og samkennara auk þess sem
þeir vilja draga úr álagi og nýta sér betur
þau úrræði sem til eru í skólunum
sjálfum. Hvorir tveggja leita handleiðslu
til að afmarka verksvið sitt þannig að ekki
sé á þá gengið umfram það sem eðlilegt
má telja.
Þegar Guðrún var spurð um hvernig
handleiðslan færi fram sagði hún að
ýmist væri þetta tveggja tal eða hópvinna.
Handleiðarinn og sá sem handleiddur er
gera með sér samning og ætlast er til að
sá síðarnefndi leggi til viðfangsefnið
hverju sinni.
„Ég álít að of margir kennarar sitji einir
uppi með vandamál sem íþyngja þeim í
daglegu starfi og nýti sér ekki þennan
möguleika sem skyldi,“ sagði Guðrún.
„Hugsanlega er það vegna vanþekkingar
á því hvað handleiðsla felur í sér og
stundum gerir fólk sér ranghugmyndir
um hana. Faghandleiðsla er t.d. allt
annað en jafningjahandleiðsla. Þeir sem
eru faghandleiðarar hafa til þess
sérhæfða menntun. Kennarar telja sig
stundum vera í handleiðslu þegar þeir
rabba reglulega við kollega en faghand-
leiðsla er allt annað fyrirbæri. Þeir eru þó
farnir að leita eftir þjónustunni í mun
meira mæli en fyrir áratug enda eiga þeir
nú rétt skv. kjarasamningum frá 2005 á
faghandleiðslu.“
Að sögn Guðrúnar eru vandamál
kennarastéttarinnar svipuð vanda
annarra þjónustu- og uppeldisstétta.
„Kennarar búa við flókið samskiptaform
þar sem börnin eru annars vegar og hins
vegar foreldrar, samkennarar og stjórn-
Of margir kennarar sitji einir uppi með
vandamál sem íþyngja þeim í daglegu starfi.
endur. Samskipti eru gríðarlega stór
þáttur í starfi kennara nú til dags, mun
stærri þáttur en fyrir nokkrum áratugum,
og álag vegna aukinna foreldrasamskipta
hefur aukist til muna. Þar að auki hefur
hlutverk kennarans orðið flóknara en
áður vegna mikilla samfélagsbreytinga.
Ég álít að kennarar ættu strax í upphafi
starfsferilsins að gera ráð fyrir reglulegri
handleiðslu til þess að njóta starfsánægju
því faghandleiðsla er fyrirbyggjandi í eðli
sínu, t.d. gagnvart kulnun í starfi.“
Hún bætir við að ef kennarar dragi of
lengi að koma í handleiðslu, eða þar til
kulnunareinkenna verður vart, taki oft
langa tíma að rétta úr kútnum. „Því
miður koma þeir oft ansi seint eða þegar
flest er komið í þrot og vanlíðanin orðin
mikil.“
En hvert eiga kennarar og annað skóla-
fólk að leita til að fá þessa þjónustu? „Til
viðurkenndra handleiðara sem hafa til
þess faglega þekkingu og réttindi. Þar má
nefna félaga í Handís eða Handleiðslu-
félagi Íslands. Kostnaðinn er hægt að
greiða niður með styrk frá Sjúkrasjóði
Kennarasambands Íslands og dæmi eru
um að vinnuveitendur komi líka til móts
við starfsfólk sem þarf á þjónustunni að
halda, þannig að skoða verður hvert og
eitt tilfelli fyrir sig,“ segir Guðrún
Sederholm að lokum.
Guðrún Sederholm.