Skólavarðan - 01.12.2012, Blaðsíða 52
52
Skólavarðan 2. tbl. 2012
Texti: Nanna Kristín Christiansen
Myndir: Frá höfundi
Einelti er grafalvarlegt mál og leita verður
allra leiða til að sporna við því. Þess vegna
var ákveðið að gefa vinnu gegn einelti
aukið vægi í öllu skóla- og frístundastarfi
þegar þessi starfsemi var sameinuð
undir eitt svið; skóla-og frístundasvið
Reykjavíkurborgar haustið 2011. Fjölmargir
skólar styðjast nú þegar við sérhæfð
verkefni í vinnu gegn einelti og hafa náð
góðum árangri en víst er að þekking og
færni í þessum málaflokki verður seint
fullnægjandi.
Starfshópur sem leiðir verkefnið á
skóla- og frístundasviði (SFS) og fengið
hefur vinnuheitið Vinsamlegt samfélag
stendur fyrir málstofum, ráðstefnum,
fræðslufundum og hverfafundum auk
þess að halda úti síðu á innri vef SFS með
efni sem stuðlar að því að efla þekkingu
og viðhorf starfsfólks í baráttunni gegn
einelti. Óskað hefur verið eftir því að hver
starfsstaður SFS tilnefni tvo tengiliði í
verkefnið. Hér er um að ræða afar stóran
hóp eða rúmlega 300 einstaklinga.
Hlutverk tengiliðanna er einkum að sækja
fundi og ráðstefnur og koma þekkingu,
reynslu og viðhorfum til samstarfsfólks
síns í leik- og grunnskólum og
starfsstöðvum frístundamiðstöðvanna.
Starfshópurinn hefur í áherslum
sínum einkum haft til hliðsjónar
niðurstöður umfangsmikillar sænskrar
rannsóknar á einelti í skólum1 og áherslur
menntastefnu Evrópuráðsins um skóla
án ofbeldis sem framfylgt er af Pestalozzi
stofnuninni. Segja má að meginskilaboðin
felist í því að ofbeldi, þ.á.m. einelti, sé
að miklu leyti lært félagslegt fyrirbæri.
Alist börn upp við að illt umtal, útilokun,
mismunun, ógnun, niðurlæging, lítilsvirðing
og meiðingar séu óhjákvæmilegir þættir
samskipta, hvernig eiga þau þá að tileinka
sér samkennd, virðingu og ábyrgð í
samskiptum við félaga sína? Það er á ábyrgð
fullorðna fólksins, ekki síst foreldra og
starfsfólks í skóla- og frístundastarfi, að
vera börnum góðar fyrirmyndir og kenna
þeim með skipulögðum hætti að vera virkir
og ábyrgir þátttakendur í samfélaginu.
Það nægir ekki að segja börnum að sýna
félagslega ábyrgð í samskiptum og refsa
þeim þegar þau gera það ekki heldur þurfa
þau að læra það í markvissu námi. Slíkt
nám á ekki að fara fram á afmörkuðum
tímum heldur þarf það að vera samofið öllu
skóla- og frístundastarfi. Þetta samræmist
vel þremur af sex grunnþáttum menntunar
í leik-, grunn- og framhaldsskólum en
það eru heilbrigði og velferð, lýðræði
og mannréttindi og jafnrétti. Í nýrri
aðalnámskrá er einmitt tekið fram að
grunnþættirnir eigi að birtast í öllu starfi
skólans.
Í sænsku rannsókninni kemur m.a. fram
að þar sem skólabragur er góður nær einelti
mun síður að festa rætur meðal nemenda
en góður skólabragur einkennist af miklum
áherslum á samvinnuverkefni og skapandi
starf. Meðal nemenda og starfsfólks
ríkir samkennd og traust. Samræmi
1 Skolverket (2011). Utvärdering av metoder mot mobbning. Rapport 353. Stokkhólmur: Skolverket.
Nanna Kristín Christiansen.
Verkefnastjóri á skóla- og
frístundasviði Reykjavíkurborgar.
Vinsamlegt samfélag í
skóla- og frístundastarfi
einelti