Skólavarðan - 01.12.2012, Blaðsíða 46
46
Skólavarðan 2. tbl. 2012
Ég var frekar fyrirferðamikið og orkumikið barn. Það hentaði
mér engan veginn að sitja í 45 mínútur og stara á þurrar og
leiðinlegar skólabækur. Enn þann dag í dag á ég erfitt með að
einbeita mér lengur en í 15 mínútur og má segja að ég sé með
korters athyglisgáfu. Ef að fyrirlestrar eru hægir og kennarinn
flytur þá eins og hann sé að lesa dánartilkynningar hætti ég að
hlusta. Fer að skapa allskonar ævintýri, tónlist eða bara hvað
sem er í kollinum á mér. Ég hef fengið margar af mínum bestu
hugmyndum undir þessum kringumstæðum. Það þarf í raun
og veru mjög mikið til að ná athygli minni. Það verður að vera
stuð, húmor og oft jafnvel smá átök. Átök um málefni, rök og
rökleysu. Það er gaman að vera ósammála, ef allir væru alltaf
sammála yrði engin þróun og þar af leiðandi engin sköpun. Ég
veit ekkert af hverju ég er svona en svona hef ég alltaf verið. Ég
hef oft reynt að breyta mér og falla inn í hópinn, vera ekki alltaf
að segja hug minn, þegja bara og leyfa lífinu að þjóta áfram án
þess að hafa áhrif á það. En það er ekki hægt.
Sköpun er ótrúlegt fyrirbæri. Án hennar yrði ég brjálaður því
ef ég er ekki að skapa verð ég ólýsanlega eirðarlaus. Sköpun er
kraftur sem býr innra með manni og ef maður birgir þennan
mikla kraft inni endar með því að maður springur. Ég er
þeirrar skoðunar að öllum sé eðlilegt að skapa en því miður
miðast stundum skólastarf og kennsla við það að drepa niður
þessa löngun og móta alla í sama formið. Form leiðinda og
sköpunarleysis þar sem unnið er með hluti sem allir hafa eina
ákveðna lausn. Eftir 15 ára skólagöngu er búið að deyfa þig svo
mikið að þú átt erfitt með að hugsa sjálfstætt og öll löngun
til sköpunar er dauð. Einungis þeir sterkustu lifa af þessa
aftöku. Þeir hafa einhverra hluta vegna náð að forðast síuna.
Sköpunarþrá þeirra er svo sterk að erfitt er að brjóta þá niður.
Það er reynt með öllum tilteknum ráðum. Þeir eru barðir niður
með orðum, sendir í hinar og þessa atferlisfangabúðir og í
verstu tilfellum er þeim byrlað eitur. En allt kemur fyrir ekki.
Þeir eru sterkir og sleppa undan oki yfirvaldsins og halda áfram
að skapa.
Í minni skólagöngu kynntist ég oft kúgun formsins. Ég
fann oft fyrir því að ekki er gott að hafa sjálfstæðar skoðanir.
Sérstaklega ef skoðanir manns stangast á við skoðanir
kennarans. Maður lærir að vera þræll meðalmennskunnar og
sníða verk sín að því sem maður heldur að kennarinn vilji sjá
og heyra. Það er farsælast og gefur bestu einkunnina. En ég er
óþekkur og ekki svo auðtaminn. Ef ég væri hestur væri löngu
búið að fella mig því enginn getur riðið svona hrekkjóttum
hesti til lengdar. Stundum sýndi ég hæfni til að hugsa út fyrir
rammann í verkefnum í skóla og laumaði inn í verkefnin
óumbeðnum sköpunarkrafti. Sumum kennurum fannst það
sköpun
Gildi skapandi starfs
Texti: Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara