Skólavarðan - 01.12.2012, Blaðsíða 36
36
Skólavarðan 2. tbl. 2012
leiðbeinendur, foreldra og fagfólk á leikskólaskrifstofu og
einstaklingsviðtöl voru tekin við tvo stjórnmálamenn sem sátu
í leikskólanefnd. Þátttakendur voru alls 29.
Helstu niðurstöður
Helstu niðurstöður eru þær að það koma fram átök á milli
menntunarlegs hlutverks og efnahags- eða þjónustuhlutverks
leikskóla þar sem leikskólakennarar leggja fyrst og fremst
áherslu á menntunarlegt hlutverk sitt og leikskólans en
stjórnmálamenn leggja ekki síður áherslu á þjónustu leikskóla
við útivinnandi foreldra. Mjög lítið fór fyrir umræðu um það
hlutverk leikskóla að stuðla að félagslegu réttlæti nema í
tengslum við sérkennslu og átti það við um flesta rýnihópa svo
og stjórnmálamenn.
Leikskólakennarar upplifa þá þætti sem styðja við
menntunarlega hlutverkið mjög jákvæða og þeir þættir stuðla
jafnhliða að jákvæðri faglegri sjálfsmynd þeirra. Þar má nefna
þátttöku í stefnumótun á vegum sveitarfélagsins og vinnu að
þróunarverkefnum innan leikskólanna. Þættir sem tengjast
þjónustuhlutverkinu, m.a. stórar barnmargar deildir, mikil
stjórnunarleg skipulagning og langur daglegur dvalartími barna,
hafa á hinn bóginn neikvæð áhrif á hlutverk þeirra, forystu og
faglega sjálfsmynd.
Foreldrar voru ánægðir með starf leikskólanna, fannst mjög
mikilvægt að börnunum liði vel, öðluðust félagslega færni,
horft væri til áhugasviðs hvers og eins og að þau kynntust
viðfangsefnum sem þau hefðu ekki möguleika á að fást við
heima. Einnig töldu þeir bæjarfélagið standa mjög vel að
sérkennslumálum. Á hinn bóginn kölluðu þeir, að einum
undanskildum, ekki sterklega eftir leikskólakennurum í
almennu daglegu starfi og nefndu m.a. að þeir gætu tekið
ábyrgð á skipulagningu starfsins, innlögn verkefna með
starfsfólki og börnum en þess utan gætu stuðningsfulltrúar, líkt
og í grunnskólum, verið með börnunum m.a. í matartímum,
vettvangsferðum, úti í leik, setið með þeim þegar þau t.d klippa
eða horft á þau í leik. Þegar upp væri staðið skipti persónan
mestu máli og því væri mjög mikilvægt að standa vel að
ráðningum.
Leikskólakennarar í öllum stöðum innan sveitarfélagsins
töldu sig hafa upplýst foreldra um menntunarhlutverk
leikskólanna og leikskólakennarar á deildum töldu að það hefði
leitt af sér jákvætt viðhorf og aukinn skilning foreldra á starfi
þeirra. Það er þó ljóst að skilningur þeirra og foreldra er ekki
sá sami þegar kemur að hugmyndafræði leikskólastarfsins því
samkvæmt áherslum leikskólakennaranna er menntun ekki
einvörðungu bundin formlegum stundum eða innlögn heldur á
sér stað í öllu daglegu starfi.
Foreldrar lýstu sig einnig reiðubúna til að rökræða m.a.
kyngervi og jafnrétti í leikskólanum og gátu séð fyrir sér
útvíkkað samfélagslegt hlutverk hans, að áhersla væri lögð á
iðnir ekki síður en t.d. stærðfræði, og þeir væru tilbúnir til að
leggja þar sitt af mörkum. Skoðanir þeirra voru því í töluverðu
samræmi við hugmyndir lýðræðislegrar fagmennsku um
þátttöku foreldra í leikskólastarfi.
Stjórnmálamennirnir voru að hluta til sammála foreldrunum
um hver ætti að sjá um menntun leikskólabarna. Þeim fannst
leikskólakennarar vinna gott starf en það væri rými fyrir fleira
fólk. Annar stjórnmálamaðurinn orðaði það svo:
Við þurfum bara að hafa venjulegt fólk inni í skólunum líka
…við þurfum að hafa fjölbreytnina. Það er t.d. ákaflega hollt
og gott fyrir börn held ég, að það sé fólk sem að talar ekkert
alveg hreina íslensku. Það er bara hinn fjölmenningarlegi
þáttur …Mömmurnar með alla reynsluna og ömmurnar
sem er bara alveg óskaplega mikilvægt að hafa líka …Ég segi
þetta með mikilli virðingu fyrir leikskólakennurum …Það er
pláss fyrir fagfólk í leikskólunum af því að leikskólakennarar
verða aldrei nógu margir. Ég held að það sé styrkur en ekki
veikleiki. Það er pláss fyrir þroskaþjálfana … það er pláss fyrir
íþróttafræðinga …
rannsóknir
Mjög lítið fór fyrir umræðu um það hlutverk
leikskóla að stuðla að félagslegu réttlæti nema
í tengslum við sérkennslu og átti það við um
flesta rýnihópa svo og stjórnmálamenn.