Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 22.10.2002, Page 46

Tímarit Máls og menningar - 22.10.2002, Page 46
eld lávarður ekki líklegur morðingi og grunur bæði lesenda og rannsakenda sögunnar er lengi að beinast að honum, ungfrú Waynflete til sárrar gremju þó að hún geri sitt besta til að beina athyglinni að honum á fínlegan hátt. En engan grunar eldri konu sem býr ein og vinnur á bókasafni og dylur undir góðlátlegu fasi sínu ást sem hefur þornað upp í beiskju og heift. Nákvæmlega sama á við í bókinni After the Funeral (1953) en þar segir ein persónan sem grunur hefur beinst að í lokin: „I’ve never imagined a lady-like murderer. It’s horrible.“ (189) (Ég sá aldrei fyrir mér að dama væri morðingi. Þetta er hræðilegt.)16 Gamlar konur eru einmitt iðulega vanmetnar. Ekki aðeins hæfileikar þeirra, eins og í tilviki ungfrú Marple, heldur skilja menn ekki heldur að þær eru ekki lausar við tilfinningar og geta verið stórhættulegar. Þessi hugsun virðist hafa leitað á Agöthu Christie eftir því sem hún sjálf eltist. Morðingjar hennar eldast líka og í þrem- ur af seinustu bókum hennar standa rosknar eða gamlar konur á bak við glæpinn. Fallegt fólk og ofbeldi eiga ekki saman Nýlega birtist í Morgunblaðinu forsíðufrétt þess efnis að fallegt og aðlaðandi fólk fengi vægari dóma en aðrir þar sem það væri síður talið of- beldishneigt.17 Ofbeldi er ljótt en aðlaðandi fólk er fallegt. Þetta tvennt á ekki að fara saman í huga okkur og mun einfaldara er að sjá ljótt fólk fyrir sér fremja ofbeldisverk. Agatha Christie var búin að uppgötva þetta fyrir löngu og færir sér það í nyt í ýmsum sögum sínum. Hér kann eig- in reynsla höfundarins að hafa haft áhrif. Þó að Agatha sé fræg undir nafninu Christie hét hún lengst af ýmist Miller eða Mallowan. Hún var hins vegar svo óheppin að hafa slegið í gegn undir nafni fyrri eiginmanns síns, Archibalds Christie, og losnaði því aldrei við það nafn. Hann virðist hafa verið glæsilegur og aðlaðandi mað- ur. Hins vegar hélt hann framhjá konu sinni, hún fékk taugaáfall og lét sig hverfa og síðar skildu þau. Síðan giftist hún fornleifafræðingi sem var henni trúr í nær hálfa öld. Ævintýrasagan They Came to Bagdad (1951) er nánast eins og úttekt á þessari sögu. Victoria Jones hrífst af ungum manni sem lýst er svo: „He was a good-looking young man, cherubically fair, but with a firm chin and extremely blue eyes“ (15) (Fríður sýnum, hár vexti og spengilegur, með eilítið framstæða höku, ljóshærður og bláeygur).18 Hann er hins vegar á leið til útlanda en keðja heppilegra til- viljana beinir Victoriu á sömu braut – eða er kannski ekki um tilviljanir að ræða? Lesandinn les söguna eins og ævintýri og telur víst að hinn ungi Edward sé í hlutverki fögru stúlkunn- ar í turninum sem riddarinn þarf að ná til og þá verði allt í sómanum. Allt annað reynist vera rauninn. Skyndilega spyr Victoria Edward sinn spurningar sem kemur honum á óvart og þá fellur gríman: „his face was suddenly defenceless and unmasked“ (165) (Í fyrsta sinn sá hún andlit hans grímulaust, hjálparvana á svipinn.)19 Um leið skilur Victoria að það er maðurinn sem hún elskar sem hefur staðið á bak við illvirki sögunnar, þar á meðal mannrán hennar sjálfrar. Um leið sér hún hvers vegna eitt fórnarlambið notaði orðið Lúsífer. Fyrir henni er Edward fallinn engill. Lesendur sög- unnar hafa tekið sér stöðu með Victoriu, litið á söguna sem rómönsu og trúað á Edward. Þannig getur Agatha Christie kennt þeim að fara ekki alltaf eftir útlitinu. Formgerðin er vissulega rómantísk en með slaufu því að á leiðinni hefur Victoria kynnst ungum fornleifa- fræðingi með gleraugu og stefnir allt í frekari kynni þeirra í lokin. Í sambandi þeirra er engin sérstök spenna en nú vill hún fá alvöru mann, ekki einhvern sem segir bara eitthvað fallegt. Þegar góðlegur leyniþjónustumaður hug- hreystir hana með því að benda á að Edward hafi haft þá náðargáfu að laða að sér konur segir Victoria beisk: „Yes, and he used it“ (191) (Já, og hann notaði sér það.)20 Velta má fyrir sér hvort þetta sé hinsta kveðja Agöthu til hins ótrúa Christies. Víst er að í fleiri sögum eru bófarnir myndarlegir og aðlað- andi og taka jafnvel að sér að hjálpa hetjunni að rannsaka glæpinn, til að mynda í The Seven Di- als Mystery (1929) og Death in the Clouds (1935). Það er afar algengt í sögum Agöthu Christie að morðingjarnir troði sér í rannsóknar- liðið eða „hjálpi“ þeim sem vilja upplýsa glæp- inn. Þannig færa bæði þeir og höfundurinn sér í nyt tilhneigingu okkar til að skipta öllu í svart og hvítt: Annars vegar er glæpamaðurinn, hins vegar fólkið sem reynir að fanga hann og við viljum gjarnan halda „liðunum“ aðskildum. Það má hins vegar ekki því að allir geta verið morð- ingjar. Edward er dæmi um glæpamann sem hrífur söguhetjuna og lesendur með sér frá upphafi. Agatha Christie gengur skrefi lengra í Taken at the Flood (1948) sem er ein haganlegasta saga hennar, bæði samfélagslega raunsæ og per- sónusköpunin dýpri en gengur og gerist. Þar leikur hún sér einmitt með tortyggni okkar. Victoria í They Came to Bagdad er hálfgert barn en Lynn Marchmont í Taken at the Flood er kona sem hefur séð heiminn og veit að lífið er ekki einfalt. Þess vegna hrífst hún ekki af þeim sem virðist vera verðug söguhetja heldur manni sem virðist vera óvinurinn og allri fjöl- skyldu hennar er illa við. David Hunter er „a thin young man with dark hair and dark eyes. His face was unhappy and defiant and slightly insolent“ (37) (. . . grannur ungur dökkhærður og dökkeygur maður. Hann var dapur á svipinn og ögrandi og dálítið storkandi).21 David er einn fjölmargra ungra manna sem hafði notið sín í stríðinu en hefur ekkert sérstakt hlutverk á frið- artímum. Hann er ævintýramaður, fjárhættu- spilari í eðli sínu og augljóslega svartur sauður: Eirðarlaus, hættulegur og honum er alls ekki treystandi. En rétt eins og rómantísk fegurð Edwards afvopnar Victoriu og lesendur They Came to Bagdad eru lesendur Taken at the Flood staddir í fullorðinsástarsögu, kannski í anda Pride and Prejudice eftir Jane Austen og fjölmargra hermibóka, um ástir andstæðna. Í slíkum sögum er það alltaf dökkhærði hættu- legi útlaginn sem reynist rétti maðurinn fyrir kvenhetjuna. Það er ekki aðeins Lynn sem finnst hann aðlaðandi heldur ýmsum öðrum konum í sögunni. Í fyrstu samræðum Lynn við David Hunter er hann viðfelldinn og hættulegur í senn, kemur alltaf beint að kjarna málsins en kurteislega þó. Það leynir sér ekki heldur að eftir því sem sög- unni vindur fram verður David æ hrifnari af Lynn. Hér er komin auðþekkt formgerð en Agatha Christie er ennþá skrefi á undan. Lynn og lesendur trúa ýmsu illu upp á David en ekki þeim glæp sem virðist hafa verið framinn. En í Taken at the Flood eru margir glæpir og margir glæpamenn og konan sem David reynist hafa myrt er alls ekki systir hans heldur ástkona sem hann losar sig við, m.a. til að giftast Lynn. Í sögulok hefur Lynn fundið ástina. Hún virðist þó engan veginn laus við ákveðnar taugar til Davids en skilgreinir eigin ást til hans þannig: „I fell for David because he was dangerous and attractive – and, to be honest, because he knows women much too well“ (191) (Ég féll fyrir David vegna þess að hann var hættulegur og aðlaðandi og í hreinskilni sagt vegna þess að hann þekkir konur allt of vel).22 42 Agatha Christie 17.10.2002 11:06 Page 46

x

Tímarit Máls og menningar

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.