Tímarit Máls og menningar - 22.10.2002, Blaðsíða 56
Borgfjörð minnist þess til að mynda að hún hafi
snemma komist í skilning um það að hún væri
sérlega ófrítt stúlkubarn og þar með ófullkomin
kona. Sú vitneskja virðist hafa mótað sjálfs-
mynd hennar alla tíð. Þegar hún loks settist
niður til að skrá minningar sínar, þá sjötug að
aldri, sagðist hún aldrei hafa fyrirgefið kerlingu
einni sem ítrekað lét hana heyra hversu ljót hún
væri í samanburði við snoppufríðan yngri bróð-
ur. „Það særir og situr fast“ sagði hún um
þennan þátt í sjálfsmyndarsköpuninni.5
Fyrsta minning Viktoríu Bjarnadóttur um
sjálfa sig snýst hinsvegar um það að hún væri
merkilegt og óvenjulegt fyrirbæri enda hét hún
drottningarnafni sem henni þótti vegsemd að.
Jákvæð upplifun af því tagi sem Viktoría lýsir
heyrir til undantekninga í endurminningum
kvenna. Miklu algengara er að fyrsta minningin
sé neikvæð og snúist um eigin ófullkomleika,
enda hefur það að efast um eigið ágæti lengi
verið eitt af aðalsmerkjum „sannra kvenna“.
Þegar Viktoría eltist var hún óvenju atorkusam-
ur krakki og skeytingarlaus um klafa kvenleik-
ans. „Ég hugsaði ekkert út í það að mér bæri
að hafa hemil á athöfnum mínum vegna þess
að ég var telpa.“6 Fljótlega varð hún þó meðvit-
uð um kynferði sitt eins og aðrar stúlkur. Sum-
ar harma það hlutskipti sitt að hafa fæðst
stúlkubörn og ræða þá fjötra sem kvenleikinn
setti þeim. Þarna gengur Guðrún Borgfjörð
hvað lengst en hún segir í upphafskafla endur-
minninga sinna. „Ég var svo óheppin að vera
elst og þar að auki stúlka. Oft óskaði ég að ég
hefði verið drengur.“7 Flestar reyndu konurnar
þó að finna sköpunarmætti sínum og ævintýra-
þrá farveg innan þess ramma sem tíminn og
kvenleikinn setti þeim. Í þeirri viðleitni sinni
víkkuðu þær þanþol kvenleikans og opnuðu nýj-
ar glufur fyrir þær konur sem á eftir þeim
komu.
Menntun og ferðalög
Sköpunarþráin tengist öðru fyrirferðarmiklu
umræðuefni í endurminningum kvennanna,
menntamálum. Möguleikar kvenna til skóla-
göngu voru takmarkaðir langt fram á tuttugustu
öldina en menntunarþrá höfunda kemur víða
sterkt fram. Raunar virðist það að hafa hlotið
formlega menntun af einhverju tagi vera ein af
forsendum þess að konur létu sér yfirleitt detta
í hug að skrá æviminningar sínar. Sögu þeirra
fjölmörgu kvenna sem enga menntun hlutu
fáum við yfirleitt ekki að heyra. Menntun var
konunum hjartans mál sem ekki var haft í flimt-
ingum. Því er írónísk lýsing Málfríðar Einars-
dóttur á takmörkuðum möguleikum kvenna til
skólagöngu einstök í sinni röð, enda laus við
alla helgislepju.
Í þúsund ár höfum við íslenskar konur norp-
að hér í þessu hvumleiða landi án þess að eiga
okkur nokkurn skóla að ganga í og fátt við að
una nema helst karlmenn svo dáskemmtilegir
sem þeir voru flestir, stígvélafullir, með riðu, út-
tútnir af brennivíni, svartir fyrir neðan nef af tó-
baki, hafandi ekki gaman af neinu nema að
renna færi fyrir saklausa fiska sem synda í
vötnum . . .
Svona norpuðum við um aldir, konur á Ís-
landi, eigandi varla nokkra bók, stundum ólæs-
ar og dóu allar úr leiðindum sem hneigðar voru
til lesturs, en hinar tórðu og fylla nú landið.“8
Iðulega kemur fram að þegar konur stóðu
frammi fyrir því að velja menntun sinni farveg
vógu möguleikarnir á atvinnu þar sem mennt-
unin væri metin að verðleikum þungt og oft
settu ytri aðstæður og skynsemin bönd á löng-
unina. Flestar upplifðu það á eigin skinni að
tækifæri kvenna til athafna og frama á lífsleið-
inni voru á einhvern hátt skilyrt af þeirri stað-
reynd að þær lifðu í veröld sem var stjórnað og
stýrt af karlmönnum og ekki var ætlast til þess
að þær settu eigin frama á oddinn.
Þá ganga ferðalög, bæði innanlands og utan,
eins og rauður þráður í gegnum endurminning-
ar kvennanna. Í innganginum að bókinni bendir
Ragnhildur á að „erkisagan,“ hið viðurkennda
bókmenntaform sem konurnar voru þrátt fyrir
allt að máta sig við, fjallar um karlhetjuna sem
þarf að sanna sig með því að leysa þær þrautir
sem fyrir hana eru lagðar, ferðast um og sigra
heiminn. Að því loknu getur hún snúið aftur og
notið verðlauna sinna og konunar sem bíður
heima.9 Í „erkisögunni“ fylgir atburðarásin föst-
um línulaga straumum og sambandið milli or-
saka og afleiðinga er skýrt. Þótt konum hafi
aldrei verið innrætt að þær ættu að sigra heim-
inn eða talin trú um að þeirra biði öryggi og vel-
sæld reyna þær samt oft að fella brotakennt
lífshlaup sitt að formi ferðasögunnar. Ferðalög-
in birtast þá sem einhvers konar manndóms-
vígsla þar sem konurnar yfirgefa hið þekkta og
örugga heima og halda á vit hins óþekkta.
Margar lýsa þær nákvæmlega aðdraganda og
fjármögnun ferðarinnar og hvernig þær yfirgefa
ákveðið tímabil í lífi sínu til þess að geta tekist
á við nýtt æviskeið. Það vekur raunar furðu
hversu stór hluti kvennanna sigldi til útlanda
einhvern tímann á lífsleiðinni. Fjórtán af konun-
um átján í bókinni dvöldu erlendis um lengri
eða skemmri tíma þótt ekki sé að finna lýsingu
á öllum ferðalögunum í þessari bók. Oftar en
ekki var megintilgangur ferðarinnar að afla sér
menntunar þótt stundum hafi konurnar verið
reknar áfram af hreinni ævintýraþrá. Ferðalögin
verða ævintýralegri eftir því sem sögurnar yngj-
ast enda eru konurnar þá farnar að ferðast til
fjarlægari slóða. Lýsingin á flótta Katrínar Ólafs-
dóttur þvert yfir Austurríki með tvö ungabörn í
seinni heimsstyrjöldinni er ef til vill áhrifamesta
sagan í bókinni. Þær Anna Borg og María Mark-
an lýsa því hinsvegar báðar hvernig íslenski
draumurinn um að „meika það“ á erlendri
grundu varð að veruleika, en báðar urðu þær
stórstjörnur erlendis, hvor á sínu sviði. Þá get-
ur frásögn Höllu Linker af ferðum sínum um
sléttur Afríku, þar sem hún þurfti meðal annars
að flýja öskrandi fíl, ekki annað en vakið hjá les-
endum þrá eftir ferðalögum og framandi lönd-
um.
Allmargir höfundar halda sig þó á heimaslóð-
um og lýsa ferðalögum innanlands. Þær frá-
sagnir eru þá gjarnan tengdar einhvers konar
bernsku- og æskuminningum. Þótt þar sé
spennan ef til vill minni vegna þess að ferðast
er í kunnuglegu umhverfi eru grundvallar lög-
málin þau sömu. Ferð frá einum stað til annars,
ferð sem tákngerir einhvers konar umbreytingu
eða þáttaskil í lífi sögupersónunnar. Þórunn
Elva segir til að mynda frá því hvernig hún yfir-
gaf móður sína og fjölskyldu barn að aldri og
sigldi ein með vandalausri stúlku frá Reykjavík
og alla leið norður á Húsavík, en þaðan fór hún
landleiðina að Skógum í Öxarfirði til dvalar hjá
Mörsu frænku sinni. Guðbjörg frá Broddanesi
lýsir nákvæmlega ferðalagi sínu og því fólki
sem á vegi hennar varð á leiðinni frá Ströndum
og austur í Húnavatnssýslu en þangað fór hún
unglingsstúlka til að dvelja sumarlangt hjá bróð-
54 Kvennasögubók 17.10.2002 11:07 Page 56