Gerðir kirkjuþings - 01.01.2014, Side 188
188 189
Biskupsembættið er þó ekki aðgreind vígsla eða sérstök, heldur er þetta framhald af
prestsþjónustunni.
Mikilvægt að gæta jafnræðis
Af ofangreindu er ljóst að hér er um kirkjulegt embætti þar sem biskup er valinn úr
hópi presta til þess að vera tilsjónarmaður og/eða hirðir þeirra og safnaða. Nauðsynlegt
er að jafnvægis sé gætt milli þessara hlutverka, þ.e.a.s. gagnvart söfnuði og prestum sem
réttlætir að fulltrúar beggja eigi hlutdeild í vali á biskupi, sem má auk þess undirbyggja
með kenningunni um almennan prestdóm og að prestsembættið sé rökleg afleiðing þess.
Við teljum því réttast að val á biskupi miðist við að jafnvægi ríki þar á milli. Með það í
huga og reynslu og reglur annarra lútherskra kirkna er lagt til að jafnræði sé gætt milli
lærðra og leikra.
Um val á biskupum í systurkirkjum Þjóðkirkjunnar
Þegar reglur um biskupskjör eru endurskoðaðar er gott að líta einnig til nágrannalanda
og skoða hvernig staðið er að biskupskjöri þar. Ljóst er að hvergi í Lúterskum kirkjum er
um að ræða almenna kosningu, en hugmyndir um slíkt hafa komið fram á kirkjuþingi
þjóðkirkjunnar. Alls staðar er fulltrúalýðræði en útfærsla á því mismunandi. Hér er gerð
grein fyrir þeim reglum er gilda í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.
Noregur
Í Noregi eru nú ný lög um biskupskjör. Í stuttu máli má segja að það fari þannig fram:
Biskupsdæmaráð í því stifti sem kosning fer fram tilnefnir kandidata og velur fimm
kandidata úr þeim hópi sem tilnefndur var með kosningu, þar sem hver kjörmaður
velur þrjá, í mikilvægisröð. Þessir fimm kandidatar verða að telja bæði karla og konur.
Kandidatar eru kynntir kirkjuráði og kjörmönnum kjördæmisins gefið færi á að tilnefna
fleiri. 100 kjörmenn minnst þarf fyrir hverja tilnefningu.
Við kosningu velja kjörmenn aftur þrjá, í mikilvægisröð. Kjörmenn eru: Safnaðarnefndir
biskupsdæmisins, prestar í föstu embætti í biskupsdæminu, fræðarar (kateketer), djáknar
og organistar í fastri stöðu hjá söfnuði í biskupsdæminu, prófastar í öðrum biskupsdæmum,
kennarar í guðfræði og þeir sem annast starfsþjálfun presta. Kjörmenn verða að tilheyra
norsku kirkjunni.
Kjörmenn velja á kjörfundum, safnaðarráð saman, prestar og aðrir starfsmenn saman og
svo eru kosningar á landsvísu (prófastar og guðfræðikennarar) taldar saman. Niðurstöður
úr hverjum hópi eru sendar kirkjuráði og er vægi hvers hóps þriðjungur af heildarvægi
atkvæða. Kirkjuráð velur úr hópi þeirra þriggja kandidata sem fá flestar tilnefningar.
Það sem vekur athygli við valið í Noregi er m.a. að í hópur tilnefndra þarf að innihalda
bæði karla og konur. Í öðru lagi að menn velja jafnan þrjá kandidata og raða í 1., 2., og
3. sæti. Í þriðja lagi að í raun er um þrjár kjördeildir að ræða og hefur niðurstaða hverrar
fyrir sig jafnt vægi (1/3). Loks að Kirkjuráð velur milli þriggja efstu.