Gerðir kirkjuþings - 01.01.2014, Blaðsíða 42
42 43
Minnisblað 25. október 2013
Tekið saman af fjármálastjóra Biskupsstofu
Hagræðingarkrafa til þjóðkirkjunnar á fjárlögum ríkisins
Hlutverk þjóðkirkjunnar
Starfsemi þjóðkirkjunnar miðar að uppbyggingu samfélags og þeirra þátta sem helst stuðla að
andlegri velferð og eflingu félagsauðsins í trú, von og kærleika. Nefna má barna- og
æskulýðsstarf, félagsstarf aldraðra, þjónustu við einmana og fátæka, vitjun sjúkra,
fræðslustarf, námskeið af ýmsum toga, fjölbreytt kórastarf og annað listastarf. Kirkjan sinnir
einnig varðveislu friðaðra kirkjuhúsa, ferðaþjónustu á kirkjustöðum og er kjölfesta í
menningarlífi þjóðarinnar. Loks má benda á hlutverk sem kirkjur og söfnuðir gegna í
erfiðleikum og áföllum einstaklinga og samfélags. Þar er ekki farið í manngreinarálit og
þjónusta veitt án tillits til trúfélagsaðildar. Í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári kom fram
afgerandi stuðningur þjóðarinnar við kirkjuna.
Undanfarin ár hefur þjóðkirkjan tekið á sig umtalsverða tekjuskerðingu þar sem greiðslur
ríkisins til kirkjunnar hafa minnkað ár frá ári. Annars vegar er þar um að ræða lögbundin
sóknargjöld, félagsgjöld, sem ríkið innheimtir og hins vegar samningsbundnar greiðslur
ríkisins vegna kirkjueigna sem ríkinu voru afhentar með sérstöku samkomulagi frá 1997.
Sóknargjöld þjóðkirkjusafnaða
Sóknargjöldin eru lögbundin félagsgjöld sem ganga til reksturs safnaðanna. Óumdeilt er að
sóknir þjóðkirkjunnar hafa orðið fyrir mun meiri skerðingu en stofnanir
innanríkisráðuneytisins. Frá fjárlögum ársins 2008 til 2011 hafa sóknargjöld lækkað sem
nemur 25% umfram fjárveitingar til stofnana innanríkisráðuneytisins, samanber skýrslu
nefndar innanríkisráðherra til að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi
þjóðkirkjunnar sem kom út í apríl 2012. Í skýrslu nefndarinnar er dregin sú ályktun að
grunnstoðir í starfsemi safnaða þjóðkirkjunnar séu að hruni komnar. Niðurskurður sem
söfnuðir þjóðkirkjunnar hafi tekið á sig sé rúmlega tvöfaldur sá niðurskurður sem stofnanir
innanríkisráðuneytisins hafi mátt sæta á tímabilinu 2008 - 2011.
Ríkið hefur nú viðurkennt þetta misræmi og hyggst bæta skerðingu sóknargjalda
undanfarinna ára að hluta með tímabundnu viðbótarframlagi. Á þessu ári komu 45 m.kr. til
viðbótar við sóknargjöldin sem voru greiddar beint til safnaðanna. Árið 2014 er áætlaðar 100
m.kr. og árið 2015 40 m.kr. - samtals verður viðbótin því 185 m.kr. Engu að síður vantar mikið
uppá að sóknargjöldin séu í samræmi við lög nr. 91/1987.
Á árinu 2013 hefðu sóknargjöldin átt að vera 1.060,- kr. á mánuði fyrir hvern gjaldanda 16 ára
og eldri í samræmi við lög um sóknargjöld, en voru skert í fjárlögum ársins 2013 og nam
fjárhæðin þá 728 kr. fyrir hvern einstakling á mánuði. Miðað við þessar forsendur er
hagræðingarkrafa ríkisins til þjóðkirkjusafnaða 762,4 milljónir króna á þessu eina ári.
Uppsafnaður niðurskurður á árunum 2008 til 2013 nemur um 2,6 milljörðum króna á verðlagi
hvers árs samanber meðfylgjandi töflu nr. 1.
Við setningu laga um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987 var gengið út frá því að þjóðkirkjusöfnuðir
ættu hlutdeild í tekjuskattinum eins og hann var eftir gildistöku staðgreiðslukerfisins.