Gerðir kirkjuþings - 01.01.2014, Blaðsíða 15
15
Ávarp biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur
Innanríkisráðherra, forseti kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar, vígslubiskupar, góðir gestir.
Nýtt kjörtímabil kirkjuþings er að ganga í garð. Við setningu þessa þings taka sæti
fulltrúar sem ekki hafa verið áður á kirkjuþingi. Nýir fulltrúar eru um 40% fulltrúanna,
10% hafa áður setið en þó ekki á síðasta kjörtímabili og um helmingur fulltrúanna sat
þingin á síðasta kjörtímabili. Kirkjuþingið í ár hlýtur því að mótast að nokkru af því að
vera það fyrsta á fjögurra ára kjörtímabilinu sem í hönd fer. Ég vænti góðs samstarfs við
kirkjuþingið hér eftir sem hingað til.
Ég vil nota tækifærið og þakka þeim er undirbúið hafa kirkjuþingið, starfsfólki
Biskupsstofu, forsætisnefnd og þingfulltrúum. Einnig þeim er flytja okkur ljúfa tóna hér
í dag. Einnig þakka ég sóknarpresti og sóknarnefnd Grensáskirkju fyrir afnotin af kirkju
og safnaðarheimili.
Hlutverk kirkjuþings hefur ekki breyst. Eftir sem áður hefur kirkjuþing æðsta vald í
málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka, eins og segir í lögunum um stöðu,
stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Samkvæmt þeim sömu lögum fer biskup Íslands með
yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar
er mælt fyrir um í lögunum. Þessi tvískipting valds getur valdið spennu ef ekki er vel á
málum haldið og er þetta ekki eina dæmið innan kirkjunnar þar sem svo háttar til. Annað
dæmi er verkaskipti og valdsvið sóknarnefndar annars vegar og sóknarprests og prests
hins vegar. Fleiri dæmi mætti nefna. Það er ekki alltaf ljóst hver á að ráða innan kirkjunnar
eins og stundum er tekist á um. Það er ekki spurning um það hvort söfnuður eigi að lúta
presti eða prestur söfnuði, heldur ber báðum að lúta Kristi og þjóna náunganum í ljósi
fagnaðarerindisins. Þess vegna ber hinum kristnu einstaklingum að skilgreina vel og virða
verksvið hvers annars, með öðrum orðum starfsreglur þurfa að vera skýrar og verkferlar
einnig.
Ennfremur fer ekki alltaf vel saman guðfræði kirkjunnar og stjórnsýsla hennar. Kirkjuþing
setur starfsreglur sem eiga sér stoð í lögum og þær reglur virka misjafnlega til notkunar. Má
þar nefna starfsreglur um val og veitingu prestsembætta sem oft hafa verið til umfjöllunar
á þingum kirkjunnar, meðal annars á þessu þingi. Það virðist vera erfitt að slá hinn rétta
tón í þessum efnum.
Aðskilnaður ríkis og kirkju hefur að mestu farið fram eins og kunnugt er. Samningur var
gerður og lög voru sett. Kirkjan er sjálfráð um öll sín innri mál. Það breytir því þó ekki að
kirkjan hefur samstarf við stofnanir ríkisins og vil ég þakka innanríkisráðherra, Hönnu
Birnu Kristjánsdóttur fyrir hennar framlag og velvilja í garð kirkjunnar. Einnig ber þess
að geta að til er samstarfsnefnd Alþingis og Þjóðkirkjunnar en tilvist hennar er bundin í
lög. Af hálfu kirkjunnar sitja í nefndinni kirkjuráð og af hálfu Alþingis einn fulltrúi frá
hverjum flokki auk forseta þingsins. Nefndin hefur hist árlega og á fundum hennar gefst
tækifæri til að koma upplýsingum á framfæri og viðra skoðanir. Kirkjuráð hefur fundið