Morgunblaðið - 30.10.2015, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 30.10.2015, Blaðsíða 4
SVIÐSLJÓS Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Þátttakendur í Northern Future Forum 2015, sem haldið var í gær á Grand Hótel, voru sammála um það að fundurinn hefði reynst mjög áhugaverður og gagnlegur. Fundinn sóttu forsætisráðherrar eða stað- genglar þeirra frá Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og Stóra- Bretlandi ásamt frumkvöðlum og fylgiliði frá hverju landi fyrir sig. Þetta var í fimmta sinn sem fund- urinn er haldinn, og í fyrsta sinn sem hann er hérlendis. Var áherslan að þessu sinni á það hvernig aukin ný- sköpun í opinbera geiranum gæti stutt við meiri framleiðni, sem og það hvernig stuðningur við hinar skap- andi greinar gæti skilað sér margfalt til baka. Munurinn á fundinum og öðrum hefðbundnari leiðtogafundum var kannski helst sá, að leiðtogarnir voru nú aðallega í hlutverki þess sem nem- ur í stað þess sem tjáir sig. Sigmund- ur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráð- herra, nefndi til að mynda á sérstökum blaðamannafundi sem haldinn var að dagskrá lokinni, að eitt verkefnið sem þeir hefðu þurft að leysa hefði verið það að búa til önd úr sex LEGO-kubbum, með misjöfnum árangri. Þannig hefði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dan- merkur, leyst þrautina prýðilega af hendi, en aðrir staðið sig síður. Sjálf- ur sagði Rasmussen það hafa verið vissan hápunkt ferðarinnar að hafa náð að gera betur í LEGO-þrautinni en David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Kom fram á fundinum að það væru 915 milljón mismunandi leiðir til þess að leysa verkefnið með sex LEGO-kubbum. Fleiri og betri hugmyndir Sigmundur Davíð segir að fund- urinn hafi verið mjög góður. Helsta gagnið hafi verið í því að menn fengu raunveruleg dæmi um það sem hefði virkað, en ekki bara þurrar kenn- ingar. „Það voru líka allir sammála um að þetta væru atriði sem væru of- arlega á baugi í þeirra löndum, þar sem útgjöld til samfélagsmála hafa vaxið jafnt og þétt undanfarna ára- tugi, en á sama tíma er mikil þörf á áframhaldandi útgjaldaaukningu. Á sama tíma stendur framleiðslan kannski ekki undir þeirri þörf,“ segir Sigmundur Davíð. Það þýddi að það þyrfti að gera hlutina á snjallari hátt, bæði með því að auka hagkvæmni, og einnig með því að búa til meiri verðmæti. Þar kæmi þörfin á skapandi grein- um inn í, en á fundinum kom fram að slíkar greinar stæðu nú undir sífellt meira hlutfalli af þjóðarframleiðslu en áður. Sagði Sigmundur Davíð um- ræðuna þar hafa verið sérstaklega áhugaverða, og meðal annars hefði verið rætt að það þyrfti að hlúa að sköpunargáfunni jafnvel þegar í leik- skóla. „Það skiptir langmestu máli að búa til hvata, og þjálfa fólk í að vera skapandi alveg frá upphafi,“ segir Sigmundur Davíð og bætir við að unnið hafi verið með ýmsar hug- myndir. „Hluti af því er að gera nám- ið skemmtilegra. Þegar menn hafa gaman af því sem þeir eru að gera, hvort sem það er nám eða vinna, þá gera þeir það betur og fá fleiri og betri hugmyndir.“ Ekkert ákveðið með sæstreng Cameron nefndi á blaðamanna- fundinum að það væru spennandi tímar framundan í samskiptum Ís- lands og Bretlands, meðal annars hvað varðaði samstarf í orkumálum, þó að þar væru ýmsar áhyggjur sem þyrfti að koma til móts við. „Ég hef viljað fara varlega í þess- um efnum, því að til dæmis orkuverð til heimila skiptir miklu máli, það er velferðarmál að við getum selt fólki raforku á lágu verði,“ segir Sigmund- ur Davíð. Þá væri til dæmis einnig spurt hvers vegna það ætti ekki að nýta þessa umhverfisvænu orku hér á landi, frekar en að flytja hana út. „Þetta er eitthvað sem mun þurfa að svara í þeirri vinnu sem framundan er,“ segir Sigmundur Davíð, sem tek- ur fram að það hafi ekki verið fallist á neitt í þessum efnum, en ljóst væri að það væri gríðarlegur áhugi á sæ- strengnum í Bretlandi. „Það er ekk- ert að því að skoða hlutina, en það hefur engin ákvörðun verið tekin ennþá, enda er enn ósvarað þeim áhyggjum sem ég nefndi.“ Ísland er í tísku í Bretlandi Þegar Cameron var spurður um beitingu hryðjuverkalaganna á fund- inum, kaus hann að leggja frekar áherslu á framtíðina en fortíðina, eins og til dæmis þau miklu tækifæri sem nú væru í viðskiptum og ferðaþjón- ustu á milli ríkjanna tveggja. Sig- mundur Davíð tekur undir það. „Það eru heilmikil tækifæri í samskiptum Íslands og Bretlands af mörgum ástæðum. Við erum auðvitað ná- grannar, en þjóðirnar eiga líka margt sameiginlegt. Það er líkt hugarfar á þessum eyjum. Íslendingar eru margir hrifnir af Bretlandi og breskri menningu eins og íþróttum og svo framvegis,“ segir Sigmundur. „Af okkar hálfu er til staðar vilji til að eiga gott samband. Sá vilji virðist vera gagnkvæmur, því að áhugi Breta á Íslandi fer hratt vaxandi.“ Sigmundur nefnir sem dæmi að hing- að muni koma um 200.000 ferðamenn frá Bretlandi bara á þessu ári. Þá hafi áhugi á íslenskri og norrænni menn- ingu stóraukist á síðustu misserum, þannig að Bretar þekki mikið betur til landsins en þeir gerðu fyrir skömmu. Ljóst sé að Ísland sé í „tísku“ þessa dagana. „Þessi gagn- kvæma virðing er eitthvað til þess að byggja á og við ætlum að gera það,“ segir Sigmundur. Það sé þó engin ástæða til þess að láta það gleymt og grafið sem aflaga hafi farið. „Við látum Breta vita að við teljum hluti eins og beitingu hryðjuverkalaganna algjörlega óá- sættanlega. En það má segja að í þessum efnum þá höfum við, eins og í þorskastríðunum forðum, borið sigur af hólmi, og eigum þess vegna að leyfa okkur að vera auðmjúkir sig- urvegarar.“ Vilja horfa til framtíðarinnar  Northern Future Forum haldið í fyrsta sinn á Íslandi  Áherslan að þessu sinni á nýsköpun í opinbera geiranum og skapandi greinar  Þurftu meðal annars að búa til önd úr LEGO-kubbum Morgunblaðið/Styrmir Kári Sköpunargáfan Fulltrúar ríkjanna níu á fundinum voru sammála um að fundurinn hefði reynst mjög áhugaverður. Nöfn þeirra f.v. Kristina Persson, Juha Sipilä, Laimdota Straujuma, David Cameron, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Taavi Rõivas, Erna Solberg, Lars Løkke Rasmussen og Neris Germanas. 4 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. OKTÓBER 2015 Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Rannsóknarhola sem RARIK lét bora í landi Hoffells í Hornafirði í síð- asta mánuði endurnýjaði bjartsýni starfsmanna fyrirtækisins og heima- manna á að unnt verði að afla nægi- legs vatns fyrir hitaveitu Hafnar og nágrennis. Boruð verður dýpri rann- sóknarhola undir lok ársins og fleiri á næsta ári. Lengi hefur verið unnið að jarð- hitaleit í Hornafirði og hefur gengið á ýmsu um árangur. Tvær 500 metra rannsóknarholur voru boraðar í sept- ember. Önnur holan gaf við lok bor- unar um 20 sekúndulítra af liðlega 70 gráðu heitu vatni í sjálfrennsli. Hin gaf ekkert vatn en staðfesti yfir 60 gráðu hita. Haldið verður áfram Vísindamenn Íslenskra orkurann- sókna telja að með þessu hafi vænt- ingar um að þarna muni fást nægt vatn fyrir hitaveitu Hafnar aukist. „Við höldum áfram þangað til við verðum sannfærðir um að svæðið dugi ekki. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Höfn. Við höfum ekki trú á að fjarvarmaveita eins og þar er geti keppt við beina rafhitun þegar til langs tíma er litið,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK. Leiða þarf vatnið rúmlega 20 kílómetra leið að Höfn. Liðlega 600 notendur á Höfn og í dreifbýlinu á leiðinni gætu tengst hitaveitunni. Áætlað er að lagning hitaveitu kosti um 2,5 milljarða króna. Nú er fjarvarmaveita á Höfn. Hún er rafkynt og olíuketill til vara. Notuð er ótryggð raforka sem hefur verið að hækka í verði. Tryggvi segir að mjög ódýr orka sé forsendan fyrir rekstri fjarvarmaveitu. Henni fylgi orkutap og viðhald. „Við höfum ekki trú á að fjarvarmaveita geti keppt við beina rafhitun í langan tíma,“ segir hann. Stærra svæði en áður var talið Tryggvi segir að nú sé verið að reyna að meta umfang jarðhitasvæð- isins. ÍSOR sé að vinna að tillögu um rannsóknarholu sem unnt verði að nota sem vinnsluholu. Vonast er til að hún verði boruð fyrir lok ársins. Ef hún reynist standa undir nafni þurfi að minnsta kosti tvær til þrjár slíkar holur í viðbót til að afla vatns fyrir Höfn. Fjarvarmaveitan á Höfn og bæirnir á leiðinni þangað þurfa um 80 sekúndulítra af vatni með þeim hita sem þarna fæst. Stefnt sé að því að bora tvær holur til viðbótar á næsta ári. Reiknað er með að holurnar verði 1500-1600 metra djúpar. „Við vitum ekki hvað svæðið gefur okkur,“ segir hann. Því þurfi að fá reynslu á eina til tvær hol- ur til þess að athuga hvort svæðið geti gefið þetta vatnsmagn af sér til frambúðar. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða boraði holurnar í haust og mun að minnsta kosti bora eina eða tvær af þeim djúpu holum sem framundan eru. Boranir á árunum 2012 og 2013 og grunnar hitastigulsholur sem bor- aðar voru sl. vor hafa sannfært vís- indamenn um að meginuppstreymi jarðhitans við Hoffell er í norð- austlægu sprungukerfi. Holurnar sem boraðar voru í haust beindust að því svæði og staðfestu að jarð- hitasvæðið er stærra en áður var tal- ið. Aukin bjartsýni um hitaveitu  Ný borhola í landi Hoffells í Hornafirði gefur af sér 20 sekúndulítra  Meira þarf fyrir hitaveitu Hafnar og nágrennis  Unnið að undirbúningi fleiri hola  Miklir hagsmunir í húfi fyrir íbúa Hafnar Ljósmynd/Sigurjón Gunnarsson Væntingar Vatnið flæðir upp úr vel heppnaðri holu sem boruð var í Hoffellslandi í haust. Bora þarf fleiri holur til að fá nægt vatn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.