Morgunblaðið - 30.10.2015, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 30.10.2015, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. OKTÓBER 2015 Elsku Sigrún, Birna, Hanna María og stórfjölskyldan öll. Megi Guð styðja ykkur og styrkja í gegnum þennan erfiða tíma. Jón Þórir Leifsson (Nonni í Koti) og fjölskylda. Traustur, heiðarlegur, vinnu- samur, fjölskyldufaðir og vinur. Þessi orð koma upp í hugann þegar við hugsum tilbaka um kæran vin okkar. Þær eru marg- ar góðar samverustundirnar sem við höfum átt á liðnum ára- tugum. Þá var margt rætt og Gutti oft miðpunkturinn í þeim umræðum. Oftast var rætt um pólitík enda starfaði hann á þeim vettvangi stóran hluta ævi sinn- ar, bæði í sveitarstjórnarmálum og landsmálum. Þá var alltaf áberandi hve hann bar hag þeirra sem erfiðast áttu fyrir brjósti. Stundum bar frammi- stöðu annarra stjórnmálamanna á góma, ef við vinirnir höfðum neikvæðar skoðanir á einhverj- um þeirra þá var jafnan við- kvæðið hjá Gutta: „Það var nú gott að vinna með henni/honum“ enda svo umtalsgóður að okkur þótti stundum nóg um. Fyrir vikið átti hann einstaklega gott með að vinna með öðrum í póli- tíkinni, jafnt samherjum sem andstæðingum. Þá hafði hann að leiðarljósi að leita lausna til hagsbóta fyrir samfélagið. Gutti var með afbrigðum vinnusamur og lét hann vinnuna gjarnan vera fullmikið í forgangi. Þetta var sérstaklega áberandi þegar hann gegndi starfi ráðherra. Einnig fannst okkur stundum nóg um allan þvælinginn um hið víðfeðma NV-kjördæmi, skömmuðum hann fyrir að vera að þvælast um hinar fámennu byggðir kjördæmisins þar sem atkvæði voru ekki mörg. Svar hans við þessu var einfalt: „Ég er þingmaður fyrir alla í kjör- dæminu, sama hvar í flokki fólk stendur.“ Gutti var afar farsæll skóla- frömuður og forysta hans í upp- byggingu Grundaskóla mun halda nafni hans á lofti. Eftir því var tekið hversu góðan starfs- anda hann náði að skapa meðal starfsfólks og nemenda. Þótt mikill tími hans færi í menntamál og pólitík hafði Gutti áhuga á mörgu öðru t.d. öllum íþróttagreinum. Áhuginn á fót- bolta stóð þó upp úr og þegar hann var kominn með sms-þjón- ustuna í símann, pípti í hvert sinn sem mark var skorað sama hvort það var í 4. deild eða úr- valsdeild. Hann var einlægur stuðningsmaður ÍA og fór á alla leiki sem hann hafði tök á allt fram á síðasta dag. Gutti var um skeið í stjórn kvennanefndar Knattspyrnufélags ÍA og starf- aði einnig fyrir Badmintonfélag Akraness þegar Birna og Hanna María æfðu badminton og kepptu fyrir ÍA. Það var mikil ánægja að ferðast með Sigrúnu og Gutta enda bæði skemmtileg og fróð- leiksfús. Við minnumst Wash- ington, London og Kaupmanna- hafnar. Þar stendur þó ferðin til Tanzaníu upp úr: um Serengeti þjóðgarðinn, ganga á Kilimanj- aro – þar sem hann hafði nóg loft í lungum þegar á toppinn kom til að syngja „Fögur er foldin“ – og afslöppun á Zanzibar. Þarna var Gutti í essinu sínu, með mynda- vélina á lofti, leitandi að sér- kennum mannlífs og náttúru. Við fengum svo að njóta afrakst- ursins eftir að heim var komið, en fljótlega hafði Gutti sett úrval mynda úr ferðinni á disk sem hann gaf hverju okkar. Það er stórt skarð sem Gutti skilur eftir sig og verður hans sárt saknað. Mestur er þó sökn- uðurinn hjá Sigrúnu, Birnu, Hönnu Maríu, afastrákunum Degi og Bjarka og tengdason- unum Ólafi og Stefáni. Inga og Jón, Ingunn og Engilbert, Jensína og Georg, Sigrún og Hörður. Full af þakklæti og virðingu minnumst við Gutta, kærs vinar og mikils áhrifavalds í lífi okkar. Áhrifavaldur á æskuárunum þar sem okkur var sýnt traust og virð- ing, umburðarlyndi, festa og gleði. Traust vinátta fullorðinsáranna sem gerði hverja samverustund með Gutta og Sigrúnu gjöfula. Það var hann sem sýndi okkur unglingunum hvað traust þýðir og það var hann sem sýndi okkur að við værum traustsins verð og að við gætum staðið undir ábyrgð. Það var hann sem opnaði svo marga glugga fyrir okkur út í lífið. Það var hann sem spurði okkur krefjandi spurninga og gerði ráð fyrir rökstuddum svörum. Það var hann sem sá styrkleikana þegar aðrir sáu bara veikleika. Nú í lokin kennir hann okkur hvert orðspor þess manns er sem trúir á rétt- lætið og heldur tryggð við hug- sjónir sínar til síðasta dags. Við verðum eilíflega þakklát fyrir áhrifin og vináttuna. Valgerður Janusdóttir, Jakob Þór Einarsson. Jæja, þá eru tveir Guttar farnir á einu ári, sagði Guttormur sonur minn við fréttina af andláti Guð- bjarts Hannessonar, eða Gutta í Hvammi eins og hann var oftast nefndur. Vissi í hvað stefndi, en brátt bar það samt að. Djúp og traust vinátta er milli fjölskyld- anna, sem í upphafi þróaðist út frá skátasamstarfi mömmu við hóp vaskra stráka sem oft brölluðu ýmislegt í eldhúsinu á Bjarkar- grundinni. Kynnin hættu ekki þar, við fylgdumst með Gutta í gegnum Kennaraskólann, námið í Kaup- mannahöfn, kærustunni Sigrúnu, gleðinni yfir fæðingu Birnu og síð- ar Hönnu Maríu. Gutti og Sigrún fluttu á Skagann, það kom aldrei annað til greina í hans huga og í Hlíðarhúsum nálægt æskuheimil- inu gerðu þau fallegt heimili. Sterkari fyrirmyndir eru vand- fundnar og það eru sannarlega forréttindi að hafa kynnst jafn heilsteyptum einstaklingi. Gleymi seint þegar hann sýndi mér Grundaskóla. Labbaði rólega, yf- irvegað, sagði frá, en talaði á sama tíma við kennara og stráka sem ærsluðust á ganginum. Það var aðdáunarvert hvernig hann náði virðingu að því er virtist áreynslu- laust. Ekkert sprettur úr engu og sú ímynd sem náðst hefur að byggja upp af Akranesi sem öflugum skólabæ, eigum við mikið fram- sýni Gutta að þakka og hvernig hann laðaði að sér hóp metnaðar- fullra kennara. Þó að hann væri kominn á vettvang stjórnmálanna, var ávallt auðsótt mál að ræða við hann um skólamál. Þannig leitaði ég oft til hans, bæði um málefni Landbúnaðarháskólans og grunn- skólamál í Borgarfirði. Hann var ráðagóður, skynsamur og fastur fyrir í því sem hann taldi skipta máli. Skólamaður og uppalandi af Guðs náð, en kannski fyrst og fremst mannvinur sem sá alla hvar sem þeir voru í þjóðfélags- stiganum. Síðasta langa spjall okkar var í sundlauginni á Skag- anum þar sem hann naut þess að vera með afastráknum Degi. Þá sagði hann mér hversu gott hon- um þætti að labba út á Elínar- höfða eftir erfiða daga, setjast í Elínarsætið hans pabba, horfa á Snæfellsnesið og hreinsa hugann. Þannig sé ég hann fyrir mér tilbúinn að mæta örlögunum, æðrulaus, sáttur við dagsverkið. En sárt er það fyrir okkur sem syrgjum og söknum. Vonandi ber- um við gæfu til að fleiri feti í hans spor því svo sannarlega þarf þjóð- in á því að halda Elsku besta Sigrún, Birna, Hanna María, afastrákarnir og öll fjölskyldan, Bjarkargrundargeng- ið, mamma, Axel Máni, Gutti og Lalli bróðir óskum þess að kær- leikur megi styrkja ykkur á erf- iðum tímum, minning um yndis- legan mann lifir. Helena Guttormsdóttir. Blómin falla, fölskva slær á flestan ljóma. – Aldrei hverfur angan sumra blóma. Þannig varstu, vinur, mér sem vorið bjarta. Það sem gafstu geymist mér í hjarta. Ilma sprotar, anga lauf, sem aldrei falla. Drottinn launi elskuna þína alla. (SE) Innilegar samúðarkveðjur sendum við Sigrúnu og fjölskyld- unni allri. Valdimar og Jóhanna. Gutti var kvæntur afar góðri vinkonu minni, Sigrúnu Ás- mundsdóttur. Hún var Reykja- víkurstúlka í húð og hár en hann var svo mikill Akurnesingur að þau hjónin hlutu bara að búa á Skaganum. Hjónabönd okkar vinkvennanna voru að því leyti til eins, að kallarnir okkar höfðu mun meiri áhuga á ýmsum sam- félagsmálum en að slá blettinn og taka til í bílskúrnum. En í pólitíkinni voru þau Gutti og Sigrún mjög svo sammála og hún studdi hann ávallt í öllu hans pólitíska vafstri; sat á fremsta bekk á fundum hér og þar í hinu stóra og dreifbýla Norðvestur- kjördæmi. Og það kom iðulega fyrir þegar við vinkonurnar ætl- uðum að hittast að maður fékk frá Sigrúnu sms: „Erum á leið á Hólahátíð“ eða „Fer með Gutta á fund á Hvammstanga“. Og Gutti þurfti víða að vera og fara, enda afskaplega duglegur og sam- viskusamur maður sem alltaf stóð sína plikt í því sem honum var treyst fyrir og oft lagði hann nótt við dag. Og Gutta var treyst fyrir mjög mörgu og enginn sem hann þekkti var hissa á því. En þrátt fyrir mikla ábyrgð og erfið verk- efni og háar stöður sem hann gegndi var hann svo fullkomlega laus við ofmetnað, sýndar- mennsku og hégóma. Hann var alltaf sami maðurinn, Gutti í Hvammi, með báða fætur á jörð- inni og honum þótti eiginlega allt umfram kók og prins vera óþarfi og hálfgerður flottræfilsháttur. Honum þótti kókið reyndar ansi gott en áfengi og tóbak snerti hann ekki. Gutti var mikill skólamaður; kennari og skólastjóri. Sjálf naut ég góðs af kennaranum Gutta þegar við sátum fjögur ár saman í bæjarstjórn á Akranesi því að þá var hann óþreytandi að leið- beina mér og segja til í pólitík- inni. Og þó að ég hafi sjálfsagt verið heldur sljór og slakur nem- andi gat það ekki farið fram hjá mér hversu flinkur hann var að koma málum áfram og finna leið- ir til samkomulags og sátta án þess að hvika nokkuð frá hug- sjónum sínum og markmiðum, sem öll snerust ávallt um jöfnuð og tækifæri fyrir alla og einkum þá sem áttu undir högg að sækja. „Hvar verður afi á jólunum?“ spurði eldri afastrákurinn áhyggjufullur þegar afi hans var lagður inn á sjúkrahús nýverið. Hann vildi auðvitað vita af hon- um á góðum stað því að honum þótti svo vænt um afa sinn. Og hann var ekki einn um það. Gutti var klettur í lífi svo margra og öllum þótti vænt um hann. Dætur hans missa ekki bara föður held- ur líka góðan félaga. Á þessari kveðjustundu er mér efst í huga þakklæti og stolt yfir að hafa átt þennan afburðagóða dreng að vini. Vinátta Gutta og Sigrúnar og öll samskipti við þau góðu hjón hafa gefið mér mikið og örugglega gert mig að miklu skárri manneskju eins og alla aðra sem þess hafa notið. Ingunn Anna Jónasdóttir. Við vinkonur Sigrúnar fengum Gutta inn í líf okkar fyrir margt löngu. Við vorum stelpnahópur í Menntaskólanum við Hamrahlíð sem eyddi frítíma sínum í gluggakistunni í anddyri skólans, þar sem við máttum reykja píp- urnar okkar. Við bundumst órjúfanlegum vináttuböndum tíu stúlkur sem kölluðum okkur kaldhæðnislega „saumaklúbb- inn“ af því engin okkar saumaði eða sinnti hannyrðum. Við héng- um saman í Norðurkjallaranum, hippar, seinna lattelepjandi lo- patreflar og vorum bálskotnar í róttæku uppreisnarseggjunum, skólabræðrum okkar. Makar bættust smám saman í hópinn og við höfðum miklar skoðanir á sénsum hver annarrar. Það má segja að Gutti hennar Sigrúnar hafi komið eins og ferskur and- blær inn í þennan hóp, einlægur og án allrar tilgerðar, sjarmatröll sem reykti hvorki né drakk. Þessi fagri piltur reyndi ekki einu sinni að leyna því að hann væri skáti! Hann heillaði okkur allar upp úr skónum, gekk ekki í heimaþrykktri mussu eða fót- lagaskóm eins og hjörðin, hafði einstaklega smitandi hlátur og óvenjulega útgeislun. Við vorum bara unglingar þegar við eignuð- umst hann Gutta og erum óend- anlega þakklátar fyrir allar stundirnar sem vinahópurinn átti saman. Gutti gegndi veigamiklu hlut- verki í lífi svo ótal margra, ekki bara þeirra ungmenna sem nutu leiðsagnar hans sem skólastjóra, heldur var hann hugsjónamaður í heimi stjórnmála og aðskiljanleg- ustu minnihlutahópar sem fáir sinntu, áttu í honum öflugan tals- mann. Við kveðjum Gutta með sökn- uði og þakklæti og umvefjum Sigrúnu og dætur þeirra Birnu og Hönnu Maríu. Þjóðin stendur í þakkarskuld við einstakan mann. Blessuð sé minning Guðbjarts Hannessonar Edda Björgvinsdóttir, Erna Indriðadóttir, Guðrún Birg- isdóttir, Kristín Mogensen, Ragna Ragnarsdóttir, Ragn- heiður Indriðadóttir, Sigríð- ur Halldórsdóttir, Stella Sigfúsdóttir, Þórunn E. Baldvinsdóttir og makar. Þegar góður vinur, samstarfs- maður og félagi um langa tíð kveður svo skjótlega stöndum við hljóð. Er orða vant. Erum full sorgar en líka þakklætis fyrir góða samfylgd. Að hrærast í kviku íslensks þjóðlífs var líf og yndi Guðbjarts, lengst af sem farsæll skólastjórnandi og sveit- arstjórnarmaður hér á Skaga og síðustu árin sem forystumaður Samfylkingarinnar í Vestur- landskjördæmi á Alþingi. Akur- nesingar hafa notið mannkosta hans og starfskrafta og þjóðin öll í stormum síðustu ára. Honum var í blóð borin virðing fyrir fólki og lífsbaráttu þess og var maður félagshyggju og jafnaðar og tilbúinn að leggja sig allan fram fyrir þær hugsjónir. Hann var ævinlega málefnalegur í umræðu en einbeittur í að leita lausna þeirra mála sem til umræðu voru hverju sinni. Sigrúnu og fjölskyldunni allri færum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Jóhann Ársælsson og fjölskylda. Í dag kveð ég kæran vin og fé- laga eftir skammvinn veikindi. Ég kynntist Gutta, eins og hann var alltaf kallaður, sem nemandi þegar hann var skólastjóri Grundaskóla á Akranesi. Hann gegndi þeirri stöðu í 26 ár en skólamálum helgaði hann stærst- an hluta lífs síns. Það er til marks um persónuleika hans að hann vildi aldrei að nemendur hans kölluðu hann annað en Gutta, nokkuð sem ekki þótti algengt þegar skólastjóri átti í hlut. Gutti sinnti sveitarstjórnar- málum af krafti og var bæjar- fulltrúi á Akranesi í mörg ár auk þess að gegna trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélagið. Hann var einnig virkur í skátastarfinu og aldrei var hann langt undan þeg- ar ÍA var að spila, hvort sem það var í fótbolta eða annarri íþrótta- grein. Leiðir okkar lágu svo aftur saman þegar hann varð þingmað- ur fyrir Samfylkinguna í Norð- vesturkjördæmi og ég fór í stjórn kjördæmisráðs. Í störfum hans á vettvangi þingsins var hann ávallt áreiðanlegur og traustur í sínum vinnubrögðum. Hann naut virðingar samstarfsmanna sinna og það sást best þegar hann var gerður að forseta Alþingis og síð- ar að ráðherra. Eftir lifir minningin um heil- steyptan og góðan félaga sem barðist við sín veikindi með mikl- um kjarki og af æðruleysi. Fyrir hönd Samfylkingarinnar í Norð- vesturkjördæmi votta ég Sigrúnu og fjölskyldu mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum. Þú ert skáti horfinn heim, himinn, jörð, ber sorgarkeim. Vinar saknar vinafjöld, varðar þökkin ævikvöld. Sérhver hefur minning mál, við munum tjöld og varðeldsbál, bjartan hug og brosin þín, þau bera ljósið inn til mín. Kveðjustundin helg og hlý, hugum okkar ríkir í. Skátaminning, skátaspor, skilja eftir sól og vor. (Hörður Zóphaníasson.) Ólafur Ingi Guðmundsson. Ég á margar minningar af Gutta og í raun fer maður ósjálf- rátt að brosa þegar maður hugs- ar til hans. Gutti tók alltaf á móti manni með stórt bros og breiðan faðm. Og maður leit upp til hans í orðins fyllstu merkingu sem barn, enda var Gutti hár og tign- arlegur maður. En þegar árin liðu þá leit ég svo sannarlega upp til hans Gutta þó að ég hefði stækkað og þá sérstaklega sem fagmanns. Hann var einstaklega hjartahlýr, óeigingjarn, duglegur og sanngjarn. Mánabrautin og Suðurgatan koma upp í huga minn og þá sér- staklega að til þess að komast frá Kringlu og yfir í Hlíðarhús voru nokkrar leiðir og að sjálfsögðu var sú stysta en ekki kannski sú auðveldasta alltaf valin með til- heyrandi brasi og veseni. Við systurnar og Birna og seinna Hanna María klöngruðumst upp á steinvegg og oft yfir eina til tvær girðingar til að stytta gang- inn, en erfiðið líklega töluvert meira. Oftar en ekki þá íhugað ég að fara með sláttuvélina úr Hlíð- arhúsum, sem var fengin að láni oft gegn því að fyrst var stóri garðurinn við Hlíðarhús sleginn og svo litli bletturinn við Kringlu þar á eftir, yfir steinveginn og ýmsar bollaleggingar um hvernig best væri að bera sig að í þessum aðstæðum. Sem betur fer endaði ferðin alltaf upp Suðurgötuna og svo inn á Mánabrautina eftir gangstéttinni og með orð Gutta í farteskinu að muna að passa að sláttuvélin færi ekki yfir raf- magnsleiðslu hennar. Fjallgöngur koma einnig upp í hugann og eftirminnileg ferð um verslunarmannhelgi fyrir mörg- um árum. Farin var Þingmanna- leið frá Þingvöllum og enda átti í sumarbústað í Skorradal. Ég var á hápunkti gelgjunnar á þessum tíma og í minn bakpoka fór mikið magn af tyggjói frekar en nesti og ferðin byrjaði með tilheyrandi unglingaþrasi og fýlusvip. En oft þegar þessi ferð er rædd þá kem- ur upp minning af hópnum þegar við vorum stödd innarlega í Skorradalnum á niðurleið og við krakkarnir orðnir frekar þreytt og var komið að rafmagnsgirð- ingu. Upphófust miklar umræður um hvort hægt væri að komast yfir og í minningunni stytta leið- ina töluvert. Gutti prófaði að koma við girðinguna og enginn straumur fannst. Ákvað því stór- skátinn að vippa sér klofvega yfir girðinguna með þeim afleiðing- um að á miðri leið með báðar hendur á strengnum og innan- verð læri einnig þá kom fast skot af straumi og Gutti hrópaði upp skelfingaróp. Þegar við krakka- hópurinn áttuðum okkur á hvað hafði gerst þá lömuðumst við og lögðumst í grasið og emjuðum úr hlátri sem þagnaði ekki fyrr en komið var í Dagverðarnesbyggð- ina og atvikið enn og aftur rifjað upp fyrir Sigrúnu sem beið okkar þar, með sömu hlátrasköllum og látum. Nú er ferðalagi Gutta lokið um þennan heim sem er ótímabært og ósanngjarnt. En ég get tekið vinnusemi, hjartahlýju, fag- mennsku Gutta til fyrirmyndar í mínu lífi og starfi. Þórhildur Rafns Jónsdóttir. Síðastliðið vor sátum við Gutti hlið við hlið í jarðarför. Ekki ór- aði mig þá fyrir að það yrði í síð- asta skipti sem ég hitti þennan góða vin og félaga. En örfáum SJÁ SÍÐU 30 Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir og amma, STEINUNN KRISTJÁNSDÓTTIR, Bakkabraut 7d, Kópavogi, lést sunnudaginn 25. október á Landspítalanum. Útförin mun fara fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. . Sigurjón Á. Einarsson, Magnús Örn Halldórsson, Björk Snorradóttir, Einar Ármann Sigurjónsson, Egill Árni Sigurjónsson, Maríanna Guðbergsdóttir, Embla Ósk og Andrea. ÞÓRIR MAGNÚSSON bóndi, Syðri-Brekku, lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi miðvikudaginn 28. október. . Sigrún Þórisdóttir, Gunnlaugur Björnsson, Þórkatla Þórisdóttir, Jón Guðlaugsson, Axel, Sveinn, Elín Eva, Eva, Ingibjörg, Þórey, Sigurður Björn, Þórir Óli, tengdabörn og langafabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.