Orð og tunga - 01.06.2009, Page 20
10
Orð og tunga
nota íslenskt nýyrði og að vera hlynntur nýyrðum umfram önnur orð.
Það mál þarfnast þó frekari umræðu eins og fram kemur í næsta kafla.
(12) Fólk þarf ekki endilega að aðhyllast nýyrðastefnu þótt
það myndi og noti nýyrði.
4 Nýyrði og tökuorð: samheiti í mismunandi mál-
sniðum
Fram kom í 3. kafla að notkun nýyrðis þarf ekki endilega að benda
til þess að málnotandinn aðhyllist nýyrðastefnu. Samt virðist oft vera
samband þar á milli eins og rætt verður í þessum kafla.
Nýyrði og önnur orð úr innlendum efniviði einkenna oft málsnið
formlegra aðstæðna og ritaðra texta. Ýmis tökuorð, í sömu eða ná-
skyldri merkingu, einkenna á hinn bóginn fremur málsnið óformlegra
aðstæðna og talaðs máls. Svona hefur þetta lengi verið í íslensku; þess
eru a.m.k. dæmi frá Árna Magnússyni og fram á þennan dag (Kjart-
an G. Ottósson 1990:24). Þetta íslenska samheitaástand, ef hægt er að
kalla það því nafni, milli nýyrða og tökuorða sem gripið er til í mis-
munandi málaðstæðum, á sér hliðstæður m.a. í færeysku og flæmsku.
(13) Nýyrði einkenna oft málsnið formlegra aðstæðna og rit-
aðra texta en ýmis tökuorð, í sömu eða náskyldri merk-
ingu, einkenna fremur málsnið óformlegra aðstæðna og
talaðs máls.
I færeysku hefur verið ákveðin tregða til að nota tökuorð í rituðu máli
(Hansen, Jacobsen og Weyhe 2003:175) eins og í íslensku, þ.e. þá eru
fremur valin alfæreysk orð í sumu rituðu máli en danskættuð orð í
óformlegra máli. Hreintungusinnar á Flæmingjalandi hafa reynt að
hreinsa flæmsku af frönskum tökuorðum. Frönsku tökuorðin lifa þó
góðu lífi í mállýskum. Afleiðingin er sú að hinn opinberi staðall hefur
„hrein" samheiti, úr innlendum orðhlutum, við ýmis frönsk tökuorð
en frönsku tökuorðin eru samt sem áður víða notuð hversdagslega
(Willemyns 2003:116). Þarna hefur sem sé orðið til samheitaástand þar
sem hreinna orðið er fremur að finna í ritmálsstaðlinum en fremur eru
notuð tökuorð í mállýskum.
Afstaða til nýyrða og tökuorða í íslensku málsamfélagi hefur verið
svolítið rannsökuð á allra síðustu árum og einkum í tengslum við sam-
norrænt rannsóknarverkefni um aðkomuorð sem m.a. Hanna Óladótt-