Orð og tunga - 01.06.2009, Blaðsíða 114
104
Orð og tunga
rímnaskáldin, voru löngum meðvituð um form og mismun bragar-
hátta, og gáfu þeim íslensk nöfn.2 Seinni tíma menn, Eggert Ólafsson,
Jónas Hallgrímsson og ekki síst Benedikt Gröndal skrifuðu um fag-
urfræði (Eggert Ólafsson 1832, Jónas Hallgrímsson 1837 og Benedikt
Gröndal 1948-1954), svo að ekki sé minnst á ýmsa fræðimenn á tutt-
ugustu öld.3 Hugtakakerfi íslenskrar bragfræði er margþætt og flókið,
en hér verður hlaupið yfir þetta allt saman og sjónum beint að síðari
hluta tuttugustu aldar.
Hugtök og heiti í bókmenntafræði áttu sér undanfara, sem var kver-
ið Bókmenntir eftir Hannes Pétursson, sem kom út 1972.4 Þar kemur
orðið bókmenntafræði fyrir í tíunda sinn skv. Ritmálsskrá. Rit Hannes-
ar er hið fyrsta sinnar tegundar á íslensku. Vitaskuld eru þar mörg
sömu flettiorð og síðar voru í Hugtökum og heitum, en greinarnar að
jafnaði mun styttri, enda er rit Hannesar ekki nema um þriðjungur af
Hugtökum og heitum að blaðsíðutölu, en þó í talsvert minna broti. Bæði
þessi rit taka vitaskuld mið af hliðstæðum ritum á erlendum tungum
en hafa þó allmikið séríslenskt efni. í rit Hannesar hafa verið tekin
upp nokkur nöfn fornrita og jafnvel þekktra handrita, sem ekki eru í
Hugtökum og heitum, en þar eru þó fáeinar flettur með nöfnum Eddu-
kvæða, svo sem Hávamál, Helgakviður, Guðrúnarkviður, Sigurðarkviður
og Völuspá, og auk þess Sólarljóð, og eru þær svolítið undarlega sett-
ar. Hannes afsakar handritanöfnin í sinni bók skemmtilega í formála:
„Kennir í þessu nokkurrar ósamkvæmni, miðað við val uppflettiorða,
ellegar svima vegna endurkomu íslenzkra handrita úr dönskum söfn-
um" (Hannes Pétursson 1972:5).
2Nöfn rímnabragarhátta eru afar mörg og stundum tvö nöfn eða jafnvel fleiri á
sama hætti, sjá: Helgi Sigurðsson 1891 og Sveinbjörn Beinteinsson 1953. Sjá einnig
óðfræðivefinn Braga: http://ordab30.lexis.hi.is/bragi/.
3Sá íslendingur sem mest skrifaði á íslensku um fagurfræðileg efni í bókmennt-
um fyrir 1900 var Benedikt Gröndal 1948-1954; sjá einkum 111:25-56, og IV:217-257.
Um fræði Gröndals fjallar Þórir Óskarsson 1987, sjá einkum bls. 107-149. Sjá einnig
Stílfræði hans og Þorleifs Haukssonar 1994. Skrif Gríms Thomsen um bókmennta-
fræði voru aðallega á dönsku, um þau sjá Kristján Jóhann Jónsson 2004. - Vitaskuld
er miklu víðar í prentuðum og óprentuðum ritum fyrri alda umræða um bókmenntir
og einkenni þeirra, auk þess sem þýdd voru rit af þessu sviði, en í þessum stutta inn-
gangi um bókmenntafræðileg hugtök er ekki hægt að nefna hvaðeina og enn síður að
gera þessu efni verðug skil.
4Því efni mun upphaflega hafa verið ætlaður staður í alfræðiriti sem Menning-
arsjóður ætlaði að gefa út. Sú fyrirætlun fór út um þúfur, en nokkur sjálfstæð kver
komu út um sérstaka efnisflokka.